Lærisveinar Arons fóru illa að ráði sínu

Rui Silva skorar fyrir Portúgal í leiknum í dag.
Rui Silva skorar fyrir Portúgal í leiknum í dag. AFP

Barein, sem Aron Kristjánsson þjálfar, tapaði naumlega, 25:26, gegn Portúgal í B-riðlinum í handknattleik karla á Ólympíuleikunum í dag.

Eftir jafnan fyrri hálfleik, þar sem liðin skiptust á að vera með forystuna og Barein leiddi með einu marki, 15:14, var Barein yfir megnið af síðari hálfleiknum.

Í blálokin missti Barein hins vegar niður forskot sitt og þurfti að sætta sig við eins marks tap.

Þegar þrjár og hálf mínúta var eftir komst Barein í 25:24. Portúgalar jöfnuðu metin þegar þrjá mínútur lifðu leiks og í kjölfarið fór allt úrskeiðis hjá Barein.

Næsta sókn þeirra klúðraðist en það sama gerðist hjá Portúgal og skömmu síðar fékk Daymaro Salina tveggja mínútna brottvísun. Portúgalar stálu hins vegar boltanum í næstu sókn Barein og skoruðu Portúgalar aftur, 25:26.

Barein fékk þá vítakast í sókninni á eftir en Mohamed Ahmed skaut í stöngina. Síðasta sókn Portúgala klúðraðist líka en tíminn var úti og Portúgal hafði mikilvægan sigur.

Leikurinn var ansi mikilvægur fyrir bæði lið í B-riðli í þar sem fjögur lið komast áfram í átta liða úrslit.

Danmörk, Svíþjóð og Egyptaland virðast eiga efstu þrjú sætin vís á meðan Barein, Portúgal og Japan berjast um fjórða sætið.

Sigur Portúgals kemur liðinu því í bílstjórasætið í þeirri baráttu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert