Anton Sveinn: Gífurleg vonbrigði

Anton Sveinn McKee að sundinu loknu í Tókýó í morgun.
Anton Sveinn McKee að sundinu loknu í Tókýó í morgun. Ljósmynd/Simone Castrovillari

Ant­on Sveinn McKee var nokkuð frá sínu besta í undanrásum í 200 metra bringusundi á Ólympíuleikunum í Tókýó í dag en hann komst ekki áfram í undanúrslitin, varð 24. af 40 keppendum.

„Þetta eru gífurleg vonbrigði og auðvitað mjög sárt, en maður verður að halda áfram,“ sagði Anton í samtali við RÚV strax að sundinu loknu. „Mér leið mjög vel, þannig séð, og varð smá hissa þegar ég sá tímann, miðað við hvernig mér leið í vatninu.“

Sextán efstu keppendur keppa í undanúrslitum á morgun og þar sem Anton er ekki meðal þeirra hefur hann lokið keppni á leikunum en þetta var eina greinin sem hann tók þátt í. „Það er ömurlegt að æfa endalaust í gegnum Covid og koma hingað og standa sig ekki. En maður verður bara að bíta það súra.“

mbl.is