Suðupottur þar sem allt kúgað fólk kemur saman

Raven Saunders með glæsilega Hulk-grímu í morgun.
Raven Saunders með glæsilega Hulk-grímu í morgun. AFP

Bandaríski kúluvarparinn Raven Saunders hefur vakið athygli fyrir að vera litrík í orðsins fyllstu merkingu á Ólympíuleikunum í Tókýó. Hún vann til silfurverðlauna á leikunum í morgun og fagnaði með því að gera X-tákn.

Saunders hefur verið dugleg að láta í sér heyra, sérstaklega á samfélagsmiðlum, og hefur rætt ýmis málefni opinskátt, þar á meðal geðheilsu sína og annarra og að hún passi ekki í marga fyrirframákvarðaða kassa samfélagsins.

Spurð hvað X-ið í fagni hennar á verðlaunapallinum í dag hafi átt að tákna sagði Saunders í samtali við Eurosport:

„Þetta táknar gatnamótin, suðupottinn þar sem allt fólk sem hefur verið kúgað kemur saman. Markmið mitt er að vera ég sjálf og biðjast ekki afsökunar á því.“

Raven Saunders fagnar silfurverðlaununum með því að gera X-tákn.
Raven Saunders fagnar silfurverðlaununum með því að gera X-tákn. AFP

Saunders greindi frá því í janúar árið 2020 að tveimur árum fyrir það hefði hún reynt að fyrirfara sér. Hún hefur því sigrast á ýmsum erfiðleikum í gegnum tíðina og vill koma þeim skilaboðum áleiðis til allra þeirra sem eru utangátta að það skipti ekki nokkru máli hvernig þú lítir út, hvernig þú klæðir þig eða hver kynvitund þín er.

„Ég vil sýna ungu fólki að hversu mörgum kössum sem er reynt að koma þér fyrir í þá geturðu verið þú sjálfur og tekið sjálfum þér eins og þú ert,“ bætti Saunders við.

Saunders er 25 ára þeldökk lesbía og skartar fjölda húðflúra og gata víðs vegar um líkamann. Hár hennar er litað grænt og fjólublátt og skartar hún jafnan glæsilegum andlitsgrímum í svipuðum litum, sem vísa til ofurhetjunnar Hulks og erkifjandmanns Leðurblökumannsins, Jókersins.

Saunders er enda ávallt hún sjálf og ánægð með það. „Fólk reyndi að segja mér að vera ekki með húðflúr og göt og allt þetta. En sjáið mig núna, ég lít æðislega út,“ sagði hún að lokum við Eurosport.

Saunders við keppni í dag.
Saunders við keppni í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert