Bandaríkin ekki í vandræðum – Serbía hafði betur gegn Kína

Breanna Stewart lék afar vel í nótt.
Breanna Stewart lék afar vel í nótt. AFP

Bandaríska kvennalandsliðið í körfuknattleik tryggði sér sæti í undanúrslitunum á Ólympíuleikunum í Tókýó með auðveldum hætti þegar það vann ástralska liðið 79:55 í fjórðungsúrslitunum í nótt.

Tónninn var gefinn strax í fyrsta leikhluta þegar Bandaríkin leiddu með 14 stigum, 26:12.

Verkefnið var alltaf að fara að vera erfitt fyrir Ástrali en með þessari byrjun, þar sem Bandaríkin bættu bara í í öðrum leikluta, varð það næsta ómögulegt.

Staðan í hálfleik 48:27 og forskotið orðið óyfirstíganlegt. Bandaríkjakonur sigldu enda þægilegum 24 stiga sigri í höfn að lokum og fara örugglega í undanúrslitin.

Breanna Stewart fór fyrir Bandaríkjakonum og skoraði 23 stig. Stigahæst Ástrala var Leilani Mitchell sem skoraði 14 stig.

Fyrr um nóttina höfðu Kína og Serbía mæst í fjórðungsúrslitunum og þar var mun meiri spenna.

Serbar höfðu nauma forystu í leikhléi, 35:33, eftir hnífjafnan fyrri hálfleik.

Í þriðja leikhluta spiluðu Kínverjar stórkostlega og náðu níu stiga forystu fyrir fjórða og síðasta leikhluta, 49:58.

Serbar brugðust einfaldlega við því með sinni eigin stórkostlegu spilamennsku og náðu að snúa taflinu við með glæsibrag og vinna að lokum sterkan sjö stiga sigur, 77:70.

Bandaríkin og Serbía mætast því í undanúrslitum leikanna á föstudaginn.

mbl.is