Gott að sjá að Eygló er enn í mér

Eygló Ósk Gústafsdóttir.
Eygló Ósk Gústafsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eygló Ósk Gústafsdóttir, ein fremsta sundkona Íslands síðastliðin ár, vann þrenn gullverðlaun á Reykjavíkurleikunum um helgina, setti mótsmet auk þess sem árangur hennar í 100 metra baksundi tryggði henni þátttökurétt inn á Evrópumótið í 50 metra laug í sumar. Hún afrekaði þetta þrátt fyrir að hafa ekki getað beitt sér að fullu síðustu mánuði.

„Ég bjóst kannski ekki við því að ná EM lágmarki núna, en það er gott að fá sönnunina fyrir því að það er ennþá smá Eygló í mér þrátt fyrir að vera ekki að æfa á fullu,“ sagði Eygló við Morgunblaðið á bakkanum í gær.

Í 100 metra baksundi var tími hennar 1:02,22 mínútur sem var undir EM-lágmarkinu og í 50 metra baksundi setti hún mótsmet á tímanum 29,67 sekúndum. Þá vann hún gull í 100 metra skriðsundi á 27 sekúndum. Þrátt fyrir þennan árangur er hún enn að fást við erfið bakmeiðsli og hefur gert alveg síðan síðastliðið sumar.

„Ég er búin að takast á við þetta í eina átta, níu mánuði núna og það hefur verið mikið vesen. Það er erfitt að glíma við meiðsli á þessum stað,“ sagði Eygló, sem söðlaði um í sumar og gerði atvinnumannasamning við sundfélagið Neptun í Svíþjóð. Hún segir gremjulegt að geta ekki einbeitt sér að fullu að sundinu á nýjum vettvangi.

„Þetta er alveg óþolandi. Ég flutti út til að prófa eitthvað nýtt og fá nýja upplifun í sundinu fyrir næstu Ólympíuleika. En svo hef ég bara þurft að fást við þetta allan tímann úti, og hef því ekki ennþá notið þess almennilega að vera í nýju umhverfi. Ég vona að þetta verði farið fyrir sumarið.“

Sjá allt viðtalið við Eygló Ósk í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert