Sex með Íslandsmet í ólympískum lyftingum

Þuríður Erla Helgadóttir sigraði í stigakeppni kvenna í ólympískum lyftingum …
Þuríður Erla Helgadóttir sigraði í stigakeppni kvenna í ólympískum lyftingum á Reykjavíkurleikunum. Ljósmynd/Kjartan Einarsson

Keppni í ólympískum lyftingum á Reykjavíkurleikunum fór fram í Laugardalshöll í gær. Sex keppendur settu Íslandsmet á mótinu. Þuríður Erla Helgadóttir var stigahæst í kvennaflokki og Hampus Lithen frá Svíþjóð í karlaflokki.

Þuríður Erla Helgadóttir sigraði stigakeppnina með 253,8 sinclair-stig. Hún setti tvö Íslandsmet á mótinu, 80 kg í snörun og 185 kg samanlagt í -59 kg flokki kvenna. Í öðru sæti í kvennaflokki var Ida Akerlund frá Svíþjóð með 240,5 stig og í þriðja sæti var Katla Björk Ketilsdóttir með 218,6 stig.

Sænski meistarinn Hampus Lithen sigraði í karlaflokki með 359,1 sinclair-stig. Í öðru sæti var Bjarmi Hreinsson með 336,4 stig en hann setti Íslandsmet í snörun og tvíbætti metin í jafnhendingu og samanlögðu í -102 kg flokki. Í þriðja sæti var Daníel Róbertsson með 335,2 stig. 

Aðrir sem settu Íslandsmet á mótinu voru Axel Máni Hilmarsson, Birta Líf Þórarinsdóttir, Ingólfur Þór Ævarsson og Rakel Ragnheiður Jónsdóttir.  

Nánari úrslit og lista yfir öll Íslandsmetin sem sett voru á mótinu má finna hér.

Sænski meistarinn Hampus Lithen sigraði í stigakeppni karla í ólympískum …
Sænski meistarinn Hampus Lithen sigraði í stigakeppni karla í ólympískum lyftingum á Reykjavíkurleikunum. Ljósmynd/Kjartan Einarsson
mbl.is