Hver einasta æfing skiptir miklu máli

Fríða Rún Einarsdóttir
Fríða Rún Einarsdóttir Ómar Óskarsson

Hópur Evrópumeistara Gerplu í hópfimleikum samanstendur af hörkuduglegum íþróttakonum. Það kemur því trúlega fáum á óvart að í hópnum leynast nokkrir fyrrverandi keppendur í Skólahreysti. Fríða Rún Einarsdóttir er ein þeirra.

Ég tók þátt í níunda og tíunda bekk fyrir Lindaskóla árin 2007 og 8,“ segir Fríða Rún Einarsdóttir en bætir við að í upphafi hafi þátttakan hreint ekki verið að hennar frumkvæði.

„Íþróttakennarinn minn, María Guðnadóttir, var alveg ákveðin í því að ég ætti að taka þátt sama hvað mér fyndist um það. Ég var hálfefins fyrst, var svolítið feimin. En svo fannst mér þetta rosalega skemmtilegt.“

Aðspurð hvernig undirbúningi fyrir keppnina hafi verið háttað segir Fríða að einhverjar sameiginlegar æfingar hafi verið haldnar fyrir liðið.

„En ég var sjálf að æfa fimleika af svo miklu kappi að það varð minn aðalundirbúningur.“

Fríða segist fylgjast talsvert með Skólahreysti í dag.

„Ég skellti mér meira að segja á undankeppnina í fyrra og fylgdist með Lindaskóla tryggja sér þátttöku í úrslitunum. Mér finnst gaman að fylgjast með þessu ennþá og held auðvitað alltaf með Lindaskóla.“

Þakklát fyrir þátttökuna

Fríða segist ánægð að hafa tekið þátt í keppninni á sínum tíma.

„Ég er mjög þakklát Maríu fyrir að hafa ýtt mér útí þetta. Eftirá var þetta rosalega gaman. Og ekki skemmdi fyrir að við unnum fyrsta árið sem ég tók þátt og lentum í öðru sæti árið á eftir ef ég man rétt.“

Sem fyrr sagði er Fríða ekki sú eina úr hópi Evrópumeistara Gerplu sem hefur tekið þátt í Skólahreysti.

„Þegar við unnum var Rakel Reynisdóttir með mér í liði Lindaskóla en hún er líka með mér í Gerplu-hópnum.“

Auk þeirra Fríðu og Rakelar hafa þær Anna Guðný Sigurðardóttir og Kristjana Sæunn Ólafsdóttir úr Gerplu-hópnum áður keppt í Skólahreysti.

En skyldi Fríða Rún luma á einhverjum góðum ráðum fyrir verðandi keppendur í Skólahreysti?

„Að vera dugleg að æfa sig og stefna einfaldlega á það að vinna. Það er svo ótrúlega gaman. Það er mikilvægt að hafa það allan tímann í huga, viljann til að ná langt. Þetta er mjög hörð keppni og oft munar ekki nema einni sekúndu eða einni armbeygju, svo hver einasta æfing skiptir máli.“

birta@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »