Skapandi greinar í uppsveiflu

Ben Stiller á Seyðisfirði. Framleiðsla kvikmynda eins og The Secret …
Ben Stiller á Seyðisfirði. Framleiðsla kvikmynda eins og The Secret Life of Walter Mitty auka við tekjur skapandi greina hérlendis. mbl.is/Pétur Kristjánsson

Í dag standa skapandi greinar undir um 4% af landsframleiðslu og um 25% landsmanna tengjast slíkum verkefnum. Í viðtali við Bloomberg-fréttaveituna segir Ágúst Einarsson, prófessor við Háskólann á Bifröst, að á næstu 15 til 20 árum stefni í að 30% af landsframleiðslunni verði vegna skapandi greina. Meðal atriða sem er farið yfir í fréttinni er fjölgun kvikmyndaverkefna, tölvuleikjaiðnaðurinn og skattaumhverfi. 

Styrking krónunnar ógn við iðnaðinn

Samkvæmt tölum frá Samtökum iðnaðarins eru meira en 7.000 fyrirtæki sem tengjast skapandi greinum. Meðal þeirra eru fyrirtæki eins og Latibær, sem hefur nú selt sýningarréttinn að samnefndum sjónvarpsþáttum til yfir 180 landa. Haft er eftir Magnúsi Scheving, stofnanda og forstjóra fyrirtækisins, að hann vari við hækkun ferðamannaskatta og tilraunum Seðlabankans til að styrkja krónuna. Segir hann stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka vera helstu ógn við skapandi greinar og að styrking krónunnar myndi leiða til hruns í iðnaðinum.

Einnig er rætt við Helgu Margréti Reykdal hjá True North. Hún segir að heildartekjur vegna kvikmyndaverkefna á vegum fyrirtækisins í ári nemi um þremur milljörðum króna og segir hún þetta vera töluverða innspýtingu fyrir hagkerfið, sérstaklega í ljósi margföldunaráhrifa.

Líklegt að skapandi greinar fari í 30% af landsframleiðslu

Ágúst telur að vægi skapandi greina muni á næstu árum aukast mjög mikið og segir líklegt að hlutfall þeirra í landsframleiðslu fari upp í um 30% á næstu 15 til 20 árum. Nefnir hann sem dæmi um áherslu ríkisstjórnarinnar á þessa uppbyggingu að kvikmyndaframleiðendur fái 20% endurgreiðslu af framleiðslukostnaði hérlendis. Telur hann að ríkið muni þrátt fyrir endurgreiðsluna fá um fimm krónur til baka í formi skattgreiðslna fyrir hverja eina krónu sem er endurgreidd.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK