Ísland verðlagt úr úr kortunum

Steingrímur Birgisson, forstjóri Bílaleigu Akureyrar
Steingrímur Birgisson, forstjóri Bílaleigu Akureyrar Skapti Hallgrímsson

„Við erum rétt að komast upp úr hruninu. Mörg ferðaþjónustufyrirtæki, rétt eins og bílaleigufyrirtæki voru með öll sín lán í erlendum myntum og að fá svona kjaftshögg finnst manni vera mjög súrt.“ Þetta segir Steingrímur Birgisson, framkvæmdastjóri Bílaleigu Akureyrar, í samtali við mbl.is um fyrirhugaða niðurfellingu á afslætti á vörugjöldum fyrir bílaleigubifreiðar.

Ríkissjóður verður af tekjum uppá 371 milljón

Í síðasta mánuði var greint frá fyrirhugaðri hækkun og sagt að ríkið myndi ná inn um 500 milljónum í auka tekjur vegna breytingarinnar Samtök ferðaþjónustunnar ákváðu að láta skoða málið nánar og í samvinnu við KPMG var unnin skýrsla sem sýnir að breytingarnar muni leiða til mikils samdráttar í innkaupum á nýjum bílaleigubifreiðum og taps fyrir ríkissjóð upp á 371 milljón á ári. 

Steingrímur segir að sumarið hafi hingað til gengið mjög vel, ferðamönnum hafi fjölgað mikið og gott veður hafi hjálpað til. Segir hann að fyrirtækið horfi fram á um 8 til 10% aukningu í bókunum og 5 til 8% veltuaukningu á þessu ári og að vel hafi gengið til við að vinna sig upp úr þeim öldudal sem fjármálahrunið hafi valdið skuldsettum ferðaiðnaði. Nú séu menn hins vegar hræddir við fyrirhugaðar virðisauka- og vörugjaldabreytingar.

Öðruvísi aðstæður hérlendis

„Fyrir bílaleigugeirann þýðir þetta miklu færri keyptir bílar sem dregur úr tekjum ríkissjóðs“ segir Steingrímur og bendir á að ferðamannatímabilið hérlendis sé nokkuð frábrugðið því sem gengur og gerist á öðrum stöðum. „Tímabilið er mjög stutt, þannig að til þess að bílaleigur geti keypt inn þann fjölda bíla sem þarf fyrir sumarið og sinnt ferðamönnunum, þá er þetta [afsláttur af vörugjöldum] í rauninni eina leiðin til að gera okkur samkeppnishæf. Ef það á að taka þetta af þýðir það að við munum geta keypt mun færri bíla, þeir verða dýrari og þá tapa allir, bæði ríkið og ferðaþjónustan.“

Fyrir 2 árum var sett inn svokölluð 6 mánaða regla þar sem bílaleigur gátu selt ákveðinn hluta bílaflotans fyrr en áður en samt haldið afslætti af vörugjöldum. Þetta var meðal annars gert eftir hrun þegar vörugjaldaflokkum var fjölgað og niðurfelling til bílaleiga lækkaði. Þetta viðhélt jafnri endurnýjun bílaflotans og kom í veg fyrir að bílaflotinn myndi eldast of mikið, en bílaleigur eru stærsti einstaki kaupandi bíla hérlendis. Steingrímur segir að bílaleigufyrirtækin hafi gert ráð fyrir að þessi regla félli út eins og við var búist, en að undanþágan verði í heild afnumin þýði tæplega 20% hækkun á innkaupsverði og að enginn hafi getað gert ráð fyrir því.

Verulega dregur úr kaupum á nýjum bílum

Þessi óvissa er að mati Steingrím algjörlega óásættanleg og segir hann að fyrirtæki geti ekki búið við svona snöggar hækkanir með stuttum fyrirvara. „Í fyrirtækjarekstri gengur ekki upp að vera með svona óvissu fyrir framan sig. Við erum búnir að gefa erlendum ferðskrifstofum upp verð fyrir næsta ár þannig að við getum ekki velt hækkununum út í verðlagið ef til þeirra kemur, auk þess sem markaðurinn þolir litlar hækkanir sem stendur. Því myndi hækkun þýða tap fyrir okkur á næsta ári, enda er venjulega búið að semja fram í tímann til allt að eins og hálfs árs“ 

Eftir hrunið varð um 90% samdráttur í sölu nýrra bíla og síðan þá eftir það fór hlutdeild bílaleigufyrirtækja ört stækkandi og var í fyrra tæplega 45% af kaupum á fólksbifreiðum. Steingrímur segir þó eðlilegra að miða við rúmlega 20% hlutdeild í eðlilegu árferði. Með fyrirhugaðri hækkun á vörugjöldum mun svigrúm bílaleiga til kaupa á nýjum bifreiðum minnka til muna og gerir skýrslan ráð fyrir að kaup þeirra muni dragast saman um 48,9%, úr 2424 bílum á ári niður í 1239 bíla.

Afföll aukast um 58%

Hann segir að meðan þessi óvissa sé uppi séu bílaleigur í algjörri bið og að ekki verði farið í nein frekari kaup fyrr en fullnaðar niðurstaða sé komin í málið og því verði væntanlega bið á frekari kaupum fram á næsta ár.

Stærsti rekstrarkostnaður bílaleiga eru afföll, en þá er uppítökuverð bifreiða eftir 15 mánuði dregið frá kaupverði og mismunurinn bókaður sem rekstrarkostnaður. Með því að afnema afslátt á vörugjöldum mun þessi eini liður hækka um 58% samkvæmt skýrslunni, eða úr rúmlega 2045 milljónum fyrir bílaleigur í landinu upp í 3239 milljónir. 

27% hærra útleiguverð

Steingrímur segir erfitt að sjá hvernig fyrirtæki eigi að geta tekið á svona miklum hækkunum, en auk þess þurfi að horfa til þess að til að mæta þessum aukna kostnaði megi gera ráð fyrir mikilli hækkun útleiguverðs. Í skýrslunni er gert ráð fyrir um 27% meðal hækkun yfir allt árið, en þar af væri hækkunin væntanlega enn meiri yfir háannatímann þar sem ólíklegt væri að hægt yrði að halda verðinu svo háu yfir vetrartímann.

Þetta kemur að sögn Steingríms í kjölfarið á hærri virðisaukaskatti sem á að leggja á gististarfsemi, en hann hefur miklar áhyggjur af því að með þessu sé verið að verðleggja Ísland alveg út af kortinu fyrir erlenda ferðamenn. Í morgun sagði mbl.is frá því að erlendar ferðaskrifstofur hefðu nú þegar miklar áhyggjur af ástandinu og hafði einn á orði að „draumur getur náð eins langt og ráðstöfunarfé leyfir, en svo endar hann. Ef verðið verður of hátt þá kaupa þeir [ferðamenn] einfaldlega ekki ferðina“ og bætti við að Íslendingar þyrftu að vera raunsæir.

Steingrímur óttast að nýjum bílum muni fækka mikið í kjölfar …
Steingrímur óttast að nýjum bílum muni fækka mikið í kjölfar breytinganna Ómar Óskarsson
f.v. Pálmi Björnsson á bílasölu Hölds, Teitur Birgisson, yfirmaður bílaþjónustusviðs, …
f.v. Pálmi Björnsson á bílasölu Hölds, Teitur Birgisson, yfirmaður bílaþjónustusviðs, og Steingrímur Birgisson forstjóri Kristján Kristjánsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK