Ari Edwald segir verð tíðniheimilda lágt

365 miðlar hafa fengið úthlutaðri tíðniheimild fyrir 4G þjónustu. Samkvæmt …
365 miðlar hafa fengið úthlutaðri tíðniheimild fyrir 4G þjónustu. Samkvæmt Ara Edwald, forstjóra, styttist í að fyrirtækið komi inn á fjarskiptamarkaðinn. Ómar Óskarsson

Fjölmiðlasamsteypan 365 miðlar fékk fyrir helgi úthlutað tveimur 15 megariða tíðniheimildum í útboði Póst- og fjarskiptastofnunar, en fyrir heimildirnar greiddi fyrirtækið 120 milljónir. Ari Edwald, forstjóri 365 miðla, segir að það komi sér á óvart hversu ódýrar tíðniheimildir séu hérlendis þegar miðað er við nágrannalönd okkar.

„Ástæðan fyrir okkar áhuga er hve tengingin er mikil við það sem við erum að gera. Það er eiginlega öll dreifing sjónvarps komin á netið,“ segir Ari, en hann segir fyrirtækið opið fyrir að skoða alla möguleika á þessu sviði. Aðspurður hvort hann sjái fyrir sér að boðið verði upp á farsímaþjónustu og annað tilheyrandi segir Ari að slíkt muni koma í ljós. Hann vildi ekki útiloka neitt í þeim efnum og sagði mismunandi þjónustu á þessu sviði geta fallið mjög vel saman. Sagði hann að ef horft væri til sjónvarpsfyrirtækja í nágrannalöndunum eins og Virgin og Sky, þá væru þau einnig að bjóða upp á internetþjónustu. 

Ekki ljóst hvort 365 muni byggja upp eigið dreifikerfi

Aðspurður hvort þetta kalli ekki á mikla uppbyggingu hjá fyrirtækinu og fjárfestingu í fjarskiptabúnaði og uppsetningu á sendum vítt og breitt um landið sagði Ari ekki enn ljóst hvort 365 miðlar færu sjálfir í uppbyggingu eða hvort núverandi kerfi yrðu samnýtt. „Það er heimilt að hafa samstarf við aðra veitendur fjarskiptaþjónustu um uppbyggingu og það eru dæmi um það núna að félög leggi í púkk og eigi mismunandi senda í sama neti og noti þjónustu hver annars,“ segir Ari. Hann sagði að farið yrði í viðræður við önnur símafyrirtæki á næstunni varðandi þessi mál.

Í útboðslýsingunni er gerð krafa um 99,5% dreifingu á þeim tíðnisviðum sem 365 miðlar fengu úthlutað fyrir lok ársins 2016. Ari segir að ljóst sé að fyrsta skrefið verði internetþjónusta. Hann vildi ekki setja neina tímasetningu við það, en sagði að það yrði mikið fyrr en fyrrnefndur frestur er. Þetta fyrsta skref yrði þó væntanlega í gegnum kerfi annarra símafyrirtækja.

Verð á tíðniheimildum of lágt

Heildarupphæðin sem 365 miðlar greiddu fyrir tíðniheimildirnar er 120 milljónir, en leyfin eru gefin út til 25 ára í senn. Ari segir að telja verði að þetta verð sé mjög lágt hérlendis miðað við nágrannalönd okkar. „Verðlag á þessum tíðnum almennt hlýtur að teljast mjög lágt, hvað sem skýrir það. Ég kann ekki til hlítar skýringar á því hvort íslensk símafélög hafi hugsað sér að fara minna í 4G eða ætli sér minna innhlaup á næstunni,“ segir hann.

Hann telur eðlilegt að verð á hvern íbúa sé lægra hér þar sem uppbyggingakostnaður hérlendis sé hlutfallslega dýrari en í mörgum öðrum löndum. Hann furðar sig þó á miklum mun við önnur lönd. „Heildarverðið fyrir allar tíðnirnar samsvarar svona 10% af því sem það var í Bretlandi á hvern íbúa og um 20% af því sem það hefur verið í Þýskalandi og meginlandi Evrópu. Við teljum því að þessar tíðnir hafi verið að fara á mjög lágu verði almennt í þessu útboði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK