Olíuvinnslan hagkvæm þrátt fyrir lágt olíuverð

Olíuvinnsla í Norðursjó. Heiðar segir verðlækkun við olíurannsóknir og framleiðslu …
Olíuvinnsla í Norðursjó. Heiðar segir verðlækkun við olíurannsóknir og framleiðslu hafa lækkað mikið undanfarin misseri sem leiði til þess að enn sé hagkvæmt að stunda framleiðslu á hafi úti þrátt fyrir lækkandi olíuverð. EPA

Rannsóknar- og vinnslukostnaður vegna olíuleitar- og vinnslu hefur lækkað um allt að 70% á undanförnum árum. Þetta gerir rannsóknir og borun hér við land því enn vænlegan valkost þrátt fyrir að olíuverð sé mun lægra en þegar olíuleitin var kynnt á sínum tíma. Þetta segir Heiðar Guðjónsson, fjárfestir og einn eigenda Eykon, sem leitar enn olíu á Drekasvæðinu ásamt Petoro og CNOOC.

Framleiðslukostnaður lækkað umfram verðlækkun

Heiðar nefnir að ný olíulind hafi fundist fyrir utan Noreg árið 2010 sem fékk nafnið Johan Castberg olíulindin. Þar hafi menn talið núllpunkt verkefnisins nást ef heimsmarkaðsverðið væri um 80 Bandaríkjadalir. Nýlega hafi komið tilboð í vinnslu á svæðinu og þá sé miðað við að núllpunkturinn sé 35-40 dalir. Til samanburðar er heimsmarkaðsverðið um 55 dalir á tunnu í dag.

Heiðar segir þetta svæði vera svipað langt frá landi og Drekasvæðið og að jafnvel sé erfiðara að vinna olíuna þar heldur en hér við land. Framleiðsla hér við land ætti því að vera fyrir ofan núllpunkt samkvæmt þessu segir hann og olíuvinnslan því enn hagkvæm, enda hafi framleiðslukostnaður lækkað umfram verðlækkun olíu á markaði.

Rannsóknarkostnaðurinn var aðeins 25-30% af áætlun

„Kostnaður við borun, framleiðslu og þjónustu hefur lækkað gríðarlega og allur kostnaðurinn í kringum olíuleitina,“ segir Heiðar. Hann bendir á að hljóðbylgjumælingar Eykon og samstarfsaðila þeirra á Drekasvæðinu hafi aðeins numið 25-30% af kostnaðaráætlun sem var gerð 2013, en mælingarnar fóru fram 2015 og 2016.

Heiðar Guðjónsson fjárfestir.
Heiðar Guðjónsson fjárfestir.

Þetta helgast af því að samhliða lækkun olíuverðs á heimsmarkaði hafi olíufyrirtæki dregið að sér hendur og segir Heiðar að leita þurfi aftur til seinni heimsstyrjaldarinnar til að finna ár þar sem jafnlítil olíuleit var og í fyrra. Framboð af borpöllum, þjónustuskipum og öðru sem tengist olíuleit hefur því verið mun meira en eftirspurnin og það hefur dregið verðið mikið niður að hans sögn.

Hann ítrekar að í þessum iðnaði þurfi að horfa til langs tíma en ekki hagsveiflna í nokkur ár. Þannig segir hann að Norðmenn hafi í dag miklar áhyggjur af því að fyrirtæki sem komi að olíuleit og rannsóknum fari á hausinn við aðstæðurnar í dag og við það geti verkþekking og reynsla tapast sem hafi verið byggð upp undanfarin ár og forskot Norðmanna í olíuleit og þjónustu á hafi úti farið fyrir lítið. „Þetta gæti varanlega skaðað iðnaðinn í heild,“ segir Heiðar.

Þrjár holur í staðinn fyrir eina

Upphaflega var áformað að bora eina tilraunaholu, en Heiðar segir að núna sé ráðgert að bora þrjár. Kínverska félagið CNOOC er eitt þeirra félaga sem koma að rannsókninni núna með Eykon og segir Heiðar að með því samstarfi sé fjármögnun þriggja borana tryggð. Ein borhola kostar um 150-200 milljónir dala og því er kostnaður við þrjár holur allt að 43 milljarðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK