Óánægja meðal lífeyrissjóða

Lífeyrissjóðir eru ósáttir við að áherslur VÍS færist frá vátryggingum …
Lífeyrissjóðir eru ósáttir við að áherslur VÍS færist frá vátryggingum til aukinnar fjárfestingarstarfsemi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

 Líkur standa til að krafist verði hluthafafundar og stjórnarkjörs í VÍS eftir að átök um formann félagsins urðu í kjölfar aðalfundar nýlega. Áherslumunur er meðal stórra hluthafa um stefnu félagsins.

Birtingarmynd þess áherslumunar sem er á milli hluthafahópa í VÍS eru þau átök sem staðið hafa um völd í félaginu undanfarið og sprungu út með því að Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir velti Herdísi Dröfn Fjeldsted úr sessi stjórnarformanns í kjölfar aðalfundar félagsins nýlega. Í framhaldi af því sagði Herdís sig úr stjórninni.

Í þessu birtist sá meiningarmunur sem er um stefnu og áherslu meðal stórra hluthafa í félaginu. Annars vegar að hlúa þurfi að og byggja frekar upp vátryggingastarfsemi VÍS. Hins vegar að leggja eigi aukna áherslu á fjárfestingarstarfsemi félagsins. Sú stefna hugnast forystumönnum í lífeyrissjóðakerfinu ekki en vátryggingaskuld félagsins nam 25 milljörðum króna í árslok 2016.

Heimildarmenn ViðskiptaMoggans úr röðum forystumanna lífeyrissjóða í hluthafahópi VÍS herma að þessi framvinda mála hugnist sjóðunum ekki og ekki komi til álita að þeir sitji hjá þegar til svona átaka kemur. Í þeim efnum hefur helst komið til álita að krafist verði hluthafafundar þar sem efnt verði til stjórnarkjörs á ný.

Á hinn bóginn heyrast einnig þær raddir innan raða sjóðanna að frekari átök en orðið er séu til þess fallin að hafa neikvæð áhrif á verð hlutabréfa í félaginu, sem hefði skaðleg áhrif á hagsmuni sjóðanna. Því stæði mönnun nær að sjóðirnir losuðu umtalsvert um sína hluti hægt og rólega.

Samkvæmt heimildum ViðskiptaMoggans leitaði Svanhildur eftir stuðningi lífeyrissjóða til formennsku. Gerðu einhverjir þeirra henni ljóst að ekki stæði til að víkja frá stuðningi við Herdísi til formanns. Engu að síður hélt Svanhildur erindi sínu til streitu og kom því til uppgjörs á stjórnarfundi rétt eftir aðalfund.

Niðurstaðan varð sú að Herdís laut í lægra haldi fyrir Svanhildi, sem áður segir. Megn óánægja er því meðal lífeyrissjóða með framvindu þessara mála og ljóst að þeir eru hugsi varðandi sína stöðu sem hluthafar félagsins.

Lífeyrissjóðirnir eru áberandi á lista yfir 20 stærstu hluthafa í félaginu, sem miðaður er við 30. mars síðastliðinn. Má þar nefna Lífeyrissjóð verslunarmanna með tæp 10% hlutafjár, Gildi með 5,5%, A-deild LSR með rúm 5%, Fjálsa lífeyrissjóðinn með rúm 4%, Brú með 3,7% og Birtu með 3,4%. Samtals eiga lífeyrissjóðir sem ná inn á lista 20 stærstu hluthafa, rúmlega 35% hlutafjár. Þó ekki liggi fyrir um það upplýsingar er viðbúið að neðar á hluthafalistanum séu fleiri sjóðir, þ.ám. B-deild LSR.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK