Ákvörðun um bónusgreiðslur í höndum erlendra eigenda

Klakki ehf. er eignarhaldsfélag í eigu íslenskra og erlendra fjármálastofnana …
Klakki ehf. er eignarhaldsfélag í eigu íslenskra og erlendra fjármálastofnana og lífeyrissjóða. Helstu eignir félagsins eru Lykill fjármögun hf. og aðrar smærri eignir. Mynd/Skjáskot af heimasíðu Klakka

Klakki segir að eigendur félagsins, sem er að mestu í eigu erlendra aðila, hafi tekið ákvörðun um mögulegar kaupaukagreiðslur sem tengist söluferlinu á Lykli, sem er helsta eign félagsins. Greint var frá því í Fréttablaðinu í dag að upphæðin geti numið 550 milljónum kr. Klakki segir að þetta sé ekki endanleg upphæð. Hún geti verið mun lægri eða jafnvel engin.

„Þá skal minnt á að þær upphæðir sem fram hafa komið í fjölmiðlum eru ekki endanlegar heldur eru það hámarksgreiðslur vegna heildareigna Klakka sem koma aðeins til ef mjög hátt verð fæst fyrir Lykil.“

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá félaginu vegna umfjöllunar um málið í fjölmiðlum í dag. 

Formaður VR ósáttur

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur hvatt til þess að mótmæli fari fram á föstudaginn fyrir utan húsnæði eignarhaldsfélagsins Klakka vegna fregna um bónusgreiðslur níu starfsmanna og stjórnarmanna í félaginu.

Í grein Fréttablaðsins í morgun kemur fram að stjórnendur og stjórnarmenn Klakka geti fengið samanlagt um 550 milljónir í bónus í tengslum við væntanlega sölu á eignaleigufyrirtækinu Lykli og vegna annarra eigna félagsins sem hafa verið seldar á síðustu árum.

Mikilvægt að allir sem komi að sölunni hafi beina fjárhagslega hagsmuni af henni

Í yfirlýsingu frá Klakka segir, að það sé skiljanlegt að stórar upphæðir eins og þær sem nefndar hafi verið sem mögulegar kaupaaukagreiðslur hjá Klakka veki athygli og spurt sé hver taki ákvörðun um þær.

„Svarið við því er eigendur félagsins. Ríflega 80% hlutafjár Klakka er, beint og óbeint, í eigu erlendra aðila og er frumkvæðið að kaupaukagreiðslunum alfarið þeirra þó að stjórn hafi fjallað um útfærsluna og að beiðni þeirra lagt hana fyrir hluthafafund til samþykktar,“ segir í yfirlýsingunni.

Þá segir, að þær upphæðir sem fram hafi komið í fjölmiðlum séu ekki endanlegar heldur séu það hámarksgreiðslur vegna heildareigna Klakka sem komi aðeins til ef mjög hátt verð fáist fyrir Lykil.

„Greiðslurnar geta orðið mun lægri eða jafnvel engar. Sérstök áhersla er á að kynna söluferli Lykils fyrir erlendum kaupendum og eigendur Klakka telja mikilvægt að allir sem að sölunni komi hafi beina fjárhagslega hagsmuni af því að sem allra hæst verð fáist fyrir félagið, eigendum þess til hagsbóta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK