Vilja kaupa og flytja verksmiðjuna út

Alþjóðlegur hópur fjárfesta hefur lýst yfir áhuga á því að kaupa þá innviði kísilverksmiðju United Silicon sem eru í nothæfu ástandi samkvæmt heimildum mbl.is. Hann hefur í huga að reisa kísilverksmiðju erlendis frá grunni.

Heimild United Silicon til greiðslustöðvunar féll niður 22. janúar og skilaði stjórn félagsins inn gjaldþrotabeiðni í kjölfarið. Greint var frá því í Morgunblaðinu að Arion banki muni óska eftir því við skiptastjóra þrotabús United Silicon að ganga að veðum sínum í eignum fyrirtækisins, koma þeim í söluferli og freista þess að koma kísilverksmiðjunni aftur í gang. Arion banki átti meirihluta í United Silicon þegar félagið var tekið til gjaldþrotaskipta.

Heimildir mbl.is herma að fjárfestahópurinn hafi áhuga á að greiða fyrir nothæfan búnað í verksmiðjunni, og ráða hluta af starfsfólkinu sem þar vann til þess að flytja búnaðinn og koma honum fyrir þar sem verksmiðjan á að rísa. Grunnverðið mun endurspegla ástand búnaðarins og samkvæmt heimildum mun hópurinn leitast við að semja um árangurtengdar greiðslur til þrotabús United Silicon. Þær greiðslur munu ráðast af því hvernig gengur að setja upp verksmiðjuna og framleiða á nýju staðsetningunni.

Öllum starfsmönnum United Silicon nema níu var sagt upp þessi mánaðamót en fjöldi starfsmanna í verksmiðjunni var á sjötta tug. Meðan á greiðslustöðvuninni stóð gekkst starfsfólk verksmiðjunnar undir ýmiss konar þjálfun í tengslum við verkferla, vinnuvélar og eldvarnir, auk þess að vinna við endurbætur.

Samtökin Andstæðingar stóriðju í Helguvík undirbúa íbúafund í Reykjanesbæ vegna stöðunnar sem upp er komin. Sagði talsmaður samtakanna að það væri krafa margra íbúa að boðað verði til bindandi kosninga um framhaldið þar sem greidd verði atkvæði um framtíð iðnaðarsvæðisins í Helguvík. Taldi hann sjálfur að rífa ætti kísilverið.  

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK