Ríkasti Bretinn stóreignamaður á Íslandi

Jim Ratcliffe.
Jim Ratcliffe.

Eigandi Grímsstaða á Fjöllum og jarða við Hafralónsá í Þistilfirði auk þriggja laxveiðijarða í Vopnafirði er ríkasti maður Bretlands, samkvæmt nýjum lista Sunday Times.

Eignir Jim Ratcliffe eru metnar á 21 milljarð punda en þær jukust um meira en 15 milljarða punda á milli ára. Í grein Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu fyrir ári síðan kom fram að Ratcliffe er hluthafi í Veiðiklúbbnum Streng, sem einnig á átta jarðir í Vopnafirði.

Frá Hafralónsá.
Frá Hafralónsá. Nils Folmer Jörgensen

Enn stórtækari er Jóhannes Kristinsson, sem hefur verið að safna jörðum við laxveiðiárnar í Vopnafirði um árabil. Eru þeir Jóhannes og Ratcliffe sagðir eiga 23 af 70 jörðum í héraðinu að hluta eða öllu leyti, samkvæmt grein í Morgunblaðinu frá því í apríl í fyrra. Áskrifendur Morgunblaðsins geta lesið greinina hér.

Ratcliffe er verkfræðingur að mennt og forstjóri og aðaleigandi efnavinnslufyrirtækisins Ineos, sem er með 18.500 starfsmenn víða um heim og höfuðstöðvar í Sviss. Hagnaður fyrirtækisins nam rúmum 2,2 milljörðum punda í fyrra en Ratcliffe stofnaði fyrirtækið árið 1998 og á 60% hlut í því.

Ratcliffe er 65 ára, fæddur árið 1952, og búsettur í  Beaulieu í New Forest, Hampshire. Hann berst ekki sérlega mikið á og breska dagblaðið The Sunday Times sagði hann á sínum tíma vera „feiminn við athygli“ í umfjöllun um hann fyrir nokkrum árum. Hann á tvær snekkjur,  Hampshire og Hampshire II, en hann fór á milli ára úr 18. sæti í það fyrsta á lista Sunday Times yfir ríkustu Bretana. 

Grímsstaðir á Fjöllum.
Grímsstaðir á Fjöllum.

Meðal þess sem Ineos framleiðir er leirsteinsgas sem er ein tegund jarðgass, byggingarefni, plast og ýmislegt úr jarðeldsneyti. 

Alls eru 145 milljarðamæringar á listanum og eru það 11 fleiri en í fyrra. Þúsund ríkustu Bretarnir eiga nú 724 milljarða punda sem er 10% aukning milli ára. Til þess að komast inn á listann yfir þúsund ríkustu þarf viðkomandi að eiga 115 milljónir punda, sem svarar til 16 milljarða króna.

Sir Philip Green
Sir Philip Green AFP

Á sama tíma og Ratcliffe fagnar gríðarlegri aukningu eigna þá er ekki hægt að segja það sama um annan Íslandsvin, Philip Green en eignir hans og eiginkonu hans drógust saman um 787 milljónir punda á milli ára og nema nú 2 milljörðum punda.

Samkvæmt Guardian má rekja minni eignir Green til þess að Arcadia gangi ekki sem skyldi en Arcadia var áður í íslenskri eigu. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK