Samþykktu endurkröfur upp á 105 milljónir

Nefndin starfar á grunni umferðarlaga þar sem kveðið er á …
Nefndin starfar á grunni umferðarlaga þar sem kveðið er á um að vátryggingafélag, sem greitt hefur bætur vegna tjóns af völdum ökutækja, eignist endurkröfurétt á hendur þeim, sem tjóni olli af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Metur nefndin hvort og þá að hversu miklu leyti beita skuli endurkröfum.

Endurkröfunefnd samþykkti á síðasta ári í 134 málum af 149 að vátryggingafélög ættu endurkröfurétt á hendur tjónvöldum sem höfðu valdið tjóni „af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi,“ eins og það er orðað í umferðarlögum. Flest málanna voru vegna ölvunar eða lyfjaáhrifa tjónvalds, en einnig vegna réttindaleysis, ofsa- eða hættuaksturs, vanbúnaðar ökutækis. Þá var í þremur málum um að ræða beinan ásetning ökumanns um að valda tjóni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá nefndinni varðandi síðasta starfsár.

Hæsta endurkrafan 5,5 milljónir

Fjöldi mála jókst talsvert milli ára, en árið 2017 bárust nefndinni 94 mál og voru þar af samþykkt 82 þeirra að öllu eða einhverju leyti. Á síðastliðnum fimm árum, þ.e. á árabilinu 2014 til 2018, var meðalfjöldi nýrra mála, sem bárust endurkröfunefnd, 119 á ári. Nefndin segir í tilkynningunni að þrátt fyrir aukinn fjölda í fyrra sé óvarlegt að álykta að málum sé almennt að fjölga, enda koma mál oft ekki fyrir nefndina fyrr en 2-3 árum eftir tjón og tilviljanakennt geti verið hvoru megin áramóta málasendingar tryggingafélaganna falli.

Hæsta einstaka endurkrafan í fyrra var 5,5 milljónir, en tvær næstu 5 milljónir. Samtals 53 endurkröfur fyrir meira en hálfa milljón og var samtals upphæð endurkrafanna á síðasta ári 105 milljónir. Á árinu 2017 námu hins vegar samþykktar endurkröfur alls tæpum 66 milljónum króna.

Ölvun og lyfjaáhrif algengasta orsökin

Í 69 tilvikum, eða um 51% málanna var endurkrafa samþykkt vegna ölvunar tjónvalds. Í 49 tilvikum, eða 37% málanna var um að ræða lyfjaáhrif og í 24 málanna voru ökumenn endurkrafðir vegna réttindaleysis. Vegna ofsa- eða hættuaksturs voru 9 ökumenn endurkrafðir, 4 vegna brota á sérstakri varúðarskyldu og 2 vegna stórfellds vanbúnaðar ökutækis eða farms. Loks var mælt fyrir um endurkröfu í 3 málum vegna beins ásetnings ökumanns um að valda tjóni.

Hefur fjölda mála þar sem ástæða endurkröfu er lyfjaáhrif fjölgað hlutfallslega undanfarin ár, en árið 2009 var fjöldinn 15% en er nú sem fyrr segir kominn upp í 37%.

74% töldust með öllu óhæfir til að stjórna ökutæki.

Í þeim tilfellum þar sem ölvun var ástæða endurkröfu á síðasta ári reyndist 51 ökumaður, eða 74% þeirra, vera yfir efri mörkum umferðarlaga (1,20‰ eða meira vínandamagn í blóði), og töldust því með öllu óhæfir til að stjórna ökutækinu.

Samtals voru karlmenn 103 af hinum endurkröfðu, en konur voru 31. Er hlutfallið svipað og síðustu ár. Ökumenn sem voru 25 ára og yngri voru 30%, en árin 2016-2017 var hlutfallið hærra, eða 39%.

Í tilkynningunni er tekið fram að einvörðungu sé gerð grein fyrir úrskurðuðum heildarfjárhæðum nýrra mála, sem nefndinni bárust á árinu 2018, en ekki ákvörðuðum viðbótarfjárhæðum í málum frá öðrum tíma, t.d. vegna líkamstjóna sem ekki töldust uppgerð við fyrri málsmeðferð hjá nefndinni. Slíkar fjárhæðir geta oft verið verulegar.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK