Kostnaður vegna skipta 121 milljón

Löng röð, lengri en þessi, myndaðist við innganginn þar sem …
Löng röð, lengri en þessi, myndaðist við innganginn þar sem kröfuhafar þurftu að sanna á sér deili. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kostnaður þrotabús WOW vegna skipta félagsins nemur 121 milljón króna, frá því vinna hófst í lok mars. Af því nemur þóknun skiptastjóranna tveggja, Þorsteins Einarssonar og Sveins Andra Sveinssonar, 33,3 milljónum króna en fram kom á skiptafundi félagsins, sem nú stendur yfir, að skiptastjórar rukki 29.500 krónur á klukkustund í verktöku, að viðbættum virðisaukaskatti. Telur skiptastjóri ljóst að sú þóknun sé hefðbundin, og hljóti lögmenn í sal að vera sammála um það.

Sveinn Andri segir í samtali við mbl.is að vinna við þrotabúið geti dregist yfir í 3-4 ár, ef til stórra málaferla kemur þótt vitanlega minnki umfangið eftir því sem líður á. Hann sér sumsé ekki fyrir sér að þurfa að leggja almenna lögmennsku til hliðar næstu árin. „En kröfurétturinn og refsirétturinn eru það sem ég hef mest gaman af, og ekki verra er það tvinnast saman,“ segir hann kátur í bragði.

Aðkeypt lögfræðiþjónusta nemur 5,8 milljónum króna, verktakar hafa fengið 52,5 milljónir króna en meðal þeirra eru margir fyrrverandi starfsmenn félagsins sem fengnir voru til að hjálpa við vinnuna. Ferðakostnaður nemur 900 þúsundum króna, húsnæðiskostnaður 21,2 milljónum á mánuðunum fimm.

Sveinn Andri Sveinsson lögmaður segir vinnu skiptastjóra geta staðið yfir …
Sveinn Andri Sveinsson lögmaður segir vinnu skiptastjóra geta staðið yfir í 3-4 ár, þótt umfangið minnki. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kaup Ballarin nema óverulegum fjárhæðum

Lögmaður ábyrgðarsjóðs launa lét bóka þá athugasemd á fundinum að að hann ætti ýmislegt órætt við skiptastjóra og teldi sjóðinn óbundinn af ákvörðunum skiptastjóra, án þess þó að gera formlega athugasemd að sinni.

Einn kröfuhafi gerði að umtalsefni meint tengsl skiptastjóra við mögulega kaupendur að eignum í bú WOW air, og átti þar vafalaust við Michel Ballarin, bandaríska fjárfestinn sem hefur lýst yfir áhuga á kaupum. Búið var að ganga frá samkomulagi við hana um kaup á eigum WOW en þeim samningum var rift eftir að málið komst í fjölmiðla, á þeim forsendum að greiðsla hefði ekki borist. Standa viðræður nú yfir á ný. Benti kröfuhafi meðal annars á að lögmaður Ballarin hefði aðstöðu í sama húsi og Sveinn Andri Sveinsson, annar skiptastjóra, og spurði hvort einhver tengsl væru á milli skiptastjóra og hins áhugasama kaupanda.

Því höfnuðu skiptastjórar og sögðu að gengið hefði verið að tilboði Ballarin, fyrr í sumar, vegna þess að það hefði verið hæst. Fram kom í máli Þorsteins skiptastjóra að söluvaran væri einkum vörumerki gjadþrota félags, auk ýmiss búnaðs. Ef einhverjir tugir milljóna fengjust upp í það, væri það gleðilegt, en upphæðirnar sem um ræðir væri ekki jafnstórkostlegar og einhverir vildu af láta.

Uppfært 15:05
Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar sagði að kostnaður vegna skipta næmi 234 milljónum. Hið rétta er að hann nemur 121 milljón. Þetta hefur verið leiðrétt.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK