Sveigjanleiki Icelandair hefur skipt sköpum

Ferðamenn í miðborg Rekjavíkur.
Ferðamenn í miðborg Rekjavíkur. mbl.is/RAX

Ferðamönnum til Íslands mun fækka um 15% á þessu ári frá síðasta ári samkvæmt spá greiningardeildar Arion banka. Þetta er á meðal þess sem fram kom í máli Elvars Inga Möller, sérfræðings í greiningardeildinni, á morgunfundi bankans um íslenska ferðaþjónustu. Ferðamönnum sem komi til landsins muni hins vegar fjölga um 2% á næsta ári, 7% árið 2021 og 4% á árinu 2022.

Fram kom í erindi Elvars Inga að ferðamönnum hefði fækkað um 17% frá falli WOW air. Þeim hefði þó byrjað að fækka strax í ársbyrjun enda hefði floti flugfélagsins þá minnkað um helming áður en reksturinn endanlega stöðvaðist. Frá gjaldþroti félagsins hefði ferðamönnum fækkað mest um 24% í maí síðastliðnum og minnst núna í ágúst um 13%.

Velti Elvar upp þeirri spurningu hvers vegna ferðamönnum hefði ekki fækkað meira þrátt fyrir að flugfélag sem flutti hingað til lands þriðja hvern ferðamann á síðasta ári væri hætt rekstri. Ástæðan væri einkum sveigjanleiki í leiðarkerfi Icelandair sem hefði reynst meira en greiningardeild Arion-banka hefði þorað að vona í mars.

Tveir af hverjum þremur með Icelandair

Með auknu flugframboði Icelandair hefði dregið verulega úr þeim samdrætti í komu ferðamanna til landsins sem fall WOW air hefði valdið. Þannig hefðu fjórir af hverjum tíu farþegum komið hingað til lands með Icelandair og restin með öðrum flugfélögum. Á síðustu fimm mánuðum frá falli WOW áætlaði greiningardeildin að í kringum tveir af hverjum þremur ferðamönnum hefðu komið til landsins með Icelandair.

Hefði ekki komið til þessa sveigjanleika leiðarkerfis Icelandair hefði samdrátturinn í maí á milli ára að líkindum farið upp í 30% og í sumar hefðu umtalsvert færri ferðamenn heimsótt landið yfir háannatímann en raunin varð. Þetta hefði líklega þýtt að um 100 þúsund færri ferðamenn hefðu komið til landsins í ár og samdrátturinn væri ekki 13% heldur nær 20%.

Sveigjanleiki leiðarkerfis Icelandair hefði þannig skipt miklu í þessu sambandi og ekki síst í ljósi þess að félagið hefði sjálft verið að takast á við ákveðin vandamál í sínum rekstri sem sneru að því að tæplega fjórðungur af flugvélum félagsins hefði verið kyrrsettur frá því í byrjun mars á þessu ári.

20% færri flugsæti en síðasta vetur

Mikið hefði verið rætt á sínum tíma um að tímasetning rekstrarstöðvunar WOW air þýddi að erfitt yrði fyrir erlend flugfélög að auka framboð flugs til landsins þar sem komið væri mjög nálægt háannatímanum. Samanlagt væru erlend flugfélög að auka framboð sitt um 7% í vetur. Mestu munað um flugfélagið Wizz air sem virtist ætla að vera með helmingi meiri umsvif hér á landi en síðasta vetur. Ekki væri hins vegar í því sambandi gert ráð fyrir að nýtt flugfélag kæmi í stað WOW air.

Síðasta vetur hefðu verið í boði um 3,6 milljónir flugsæta til og frá landinu. Með brotthvarfi WOW air mætti gera ráð fyrir að um 900 þúsund sæti hyrfu af markaðinum. Vegna vanda Icelandair út af kyrrsetningu hluta flugvéla félagsins gæti félagið ekki vaxið eins mikið og það hefði annars án efa kosið að gera.

Þetta þýddi að í vetur yrðu í boði um 2,8 milljónir flugsæta sem væri um 20% færri sæti en síðasta vetur. Kæmi til þess að nýtt flugfélag kæmi í stað WOW air gæti það þýtt að samdrátturinn yrði um 19% í stað 20%.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK