Borga með boltanum og vilja leiðréttingu

Vodafone býður upp á enska boltann á 1.000 krónur á …
Vodafone býður upp á enska boltann á 1.000 krónur á mánuði. mbl.is/​Hari

Vodafone segist ekki vera að brjóta lög með því að bjóða upp á enska boltann á eitt þúsund krónur á mánuði heldur eingöngu að bjóða íslenskum neytendum efnið á því verði sem viðskiptavinir Símans hafi fengið.

Orri Hauksson, forstjóri Símans, segir Sýn brjóta lög með því að því að beita skaðlegri undirverðlagningu en Magnús Hafliðason, forstöðumaður samskipta- og markaðssviðs Vodafone, er á öðru máli og segir Vodafone hafa farið yfir málið með sínum lögfræðingum sem telji engin lög vera brotin. 

Vitnar í skýrslu Samkeppniseftirlitsins

Orri benti einnig á það í samtali við mbl.is í morgun að Síminn væri ekki að bjóða upp á enska boltann á 1.000 krónur eins og Vodafone heldur fram, heldur kosti Síminn Sport 4.500 krónur í smásölu. Magnús segir þetta vera listaverðið en bendir á að Síminn hafi staðfest í skýrslu Samkeppniseftirlitsins að 1.000 krónur renni í rauninni í þann sjóð sem teljist til enska boltans. „Við vísum bara í það. Þetta eru ekki okkar orð heldur erum við eingöngu að elta það sem þeir sjálfir hafa gefið út,“ segir Magnús og bætir við að málið snúist um að tilboð Sjónvarps Símans vegna enska boltans sé ekki í boði fyrir aðra en þeirra eigin viðskiptavini.

Marcus Rashford skorar fyrir Manchester United í febrúar síðastliðnum.
Marcus Rashford skorar fyrir Manchester United í febrúar síðastliðnum. AFP

Hlutirnir verði leiðréttir 

Hann nefnir að Síminn sé með heimilispakka sínum að vöndla saman vöru sem þeir hafi samþykkt að vöndla ekki saman. Sýn undirgekkst sambærilegar kvaðir þegar fyrirtækið sameinaðist 365 sem snýr að nákvæmlega sömu hlutum, að sögn Magnúsar. „Við höfum þurft að fylgja þeim. Okkur finnst það lykilatriði á samkeppnismarkaði að það fylgi allir sömu reglunum.“

Aðspurður segir Magnús að Vodafone sé vissulega að greiða með enska boltanum eins og sakir standa en að aðstæður hljóti að vera komnar upp þar sem hlutirnir verði leiðréttir. „Það væri æskilegt ef Síminn myndi láta af þessum hömlum sínum og gera efnið aðgengilegt fyrir alla á sömu kjörum. Þá væru allir sáttir,“ greinir hann frá og kveðst fagna ákvörðun Nova að bjóða einnig upp á enska boltann á 1.000 krónur „enda hafa þeir þurft að búa við nákvæmlega sömu stöðu og við“.

„Verið að bera saman epli og banana“

Forstjóri Símans talaði um að verðið á enska boltanum hefði „snarlækkað“ eftir að fyrirtækið tryggði sér sýningarréttinn eftir að Sýn og forverar höfðu verið með réttinn lengi. Magnús segir þetta alrangt. „Það er með ólíkindum að menn skuli fara fram ítrekað með hreinar rangfærslur í þessu máli,“ segir hann og nefnir að enski boltinn, Meistaradeildin, Dominos-deildin, Pepsi-deildir karla og kvenna og ýmislegt fleira hafi verið í boði á Stöð 2 Sport. „Að bera saman einhverja öflugustu sportstöð Vesturlanda, við eingöngu enska boltann. Þarna er verið að bera saman epli og banana, það er okkar afstaða,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK