Önnur bylgja ekki haft áhrif á fjárfesta

Bogi Nils Bogason.
Bogi Nils Bogason. mbl.is/Arnþór

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, segist ekki hafa fundið fyrir því að fjárfestar séu farnir að halda að sér höndum vegna annarrar bylgju kórónuveirunnar sem hefur gert vart við sig hér á landi. Félagið stefnir á hlutafjárútboð síðar í þessum mánuði.

Í fréttatilkynningu frá Icelandair Group í gær kom fram að búið væri að undirrita samninga við flesta kröfuhafa og félagið hefði náð samkomulagi í meginatriðum við þá hagaðila sem eftir eru. Allir eru þessir samningar þó háðir því að félagið nái markmiðum sínum um öflun nýs hlutafjár og geri samning um lánalínu með ríkisábyrgð.

„Meirihlutinn er frágenginn en þeir sem standa eftir eru á lokametrunum,“ segir Bogi Nils í samtali við mbl.is en félagið gerir ráð fyrir að samningar verði undirritaðir í næstu viku.

Félagið hefur gefið út að það hyggist safna allt að 30 milljörðum að nafnvirði í nýtt hlutafé og horfir þar helst til innlendra fjárfesta en líkt og fyrr segir hefur Bogi ekki fundið fyrir því að fjárfestar séu farnir að halda að sér höndum vegna hugsanlegrar annarrar bylgju kórónuveirunnar.

Óvissan brýnd fyrir hluthöfum

„Nei, við höfum verið að búa félagið undir óvissu sem getur varað í talsverðan tíma. Hlutirnir geta farið upp og niður og það er það sem við höfum verið að kynna fyrir okkar stærstu hluthöfum. Við höfum verið að byggja leiðarkerfið upp aftur síðustu vikur og vonum að sú þróun haldi áfram. Við gerum ráð fyrir því að langur tími líði þar til flug verður orðið eðlilegt aftur. Það er okkar grunnsviðsmynd en við erum alltaf tilbúin að stökkva hraðar inn ef tækifæri verður til staðar,“ segir Bogi sem tekur þó fram að vitanlega sé hlutafjárútboðið krefjandi verkefni.

„Það er krefjandi verkefni í þessari óvissu. Þess vegna verðum við að sýna fram á bjarta framtíð félagsins. Við teljum að það séu mikil tækifæri fyrir félagið til lengri tíma, bæði hvað varðar flug til og frá Íslandi en einnig sem tengimiðstöð á milli Evrópu og Ameríku,“ segir Bogi.

„Við erum að horfa til markaðarins á Íslandi aðallega. Í ferlinu höfum við verið fara yfir stöðuna með lífeyris- og fjárfestingarsjóðum sem margir hverjir eru hluthafar í dag,“ segir Bogi.

Icelandair hefur unnið að útfærslu á láni með ríkisábyrgð með íslenskum stjórnvöldum, Íslandsbanka og Landsbankanum, og eru þær viðræður langt komnar. Aðspurður sagði Bogi að fjárhæð þeirrar lánalínu lægi ekki fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK