Fjórfalt fleiri flugu með Icelandair í júlí en júní

„Við höfum lagt höfuðáherslu á að viðhalda sveigjanleika til þess …
„Við höfum lagt höfuðáherslu á að viðhalda sveigjanleika til þess að takast á við áframhaldandi óvissu og geta brugðist hratt við breytingum á mörkuðum í því síbreytilega ástandi sem við stöndum frammi fyrir,“ er haft eftir Boga Nils Bogasyni í tilkynningu. mbl.is/Arnþór Birkisson

Heildarfjöldi farþega hjá Icelandair var nær fjórfalt meiri í júlí en júní en samt sem áður flugu 87% færri með félaginu nú í júlí en í sama mánuði í fyrra. Farþegum fór að fjölga eftir að ferðatakmörkunum í Evrópu var aflétt um miðjan júní. Þetta kemur fram í mánaðarlegum flutningatölum fyrir júlímánuð sem Icelandair Group birti í Kauphöll í dag.

Í tilkynningu frá Icelandair segir að áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru hafi áfram gætt í júlímánuði rétt eins og mánuðina á undan. Fraktflutningar drógust mun minna saman en farþegaflug á tímabilinu. 

18.500 ferðuðust með Icelandair í júnímánuði en 73.159 í júlí. 

Seldir blokktímar í leiguflugi drógust saman um 81%

„Tengiflug milli Evrópu og Norður-Ameríku var í algjöru lágmarki í júlí vegna ferðatakmarkana í Bandaríkjunum og á ytri landamærum Schengen. Fjöldi farþega til Íslands var um 58.200 í júlí og um 13.300 frá Íslandi. Heildarframboð minnkaði um 89% á milli ára. Fjöldi farþega hjá Air Iceland Connect var tæplega 15 þúsund í júlímánuði og fækkaði um 48% á milli ára. Framboð í innanlandsflugi minnkaði um 64%,“ segir í tilkynningu Icelandair vegna flutningatalnanna. 

Þá fækkaði seldum blokktímum í leiguflugstarfsemi félagsins um 81% á milli ára í júlí en hefur fækkað um tæp 40% á milli ára það sem af er ári. Flutningastarfsemi félagsins gekk samkvæmt áætlun í júlímánuði og drógust fraktflutningar mun minna saman en farþegaflug eða um 15% á milli ára. Samdrætti í farþegaflugi hefur á liðnum mánuðum verið mætt með auknum ferðum fraktvéla félagsins, bæði til Bandaríkjanna og Evrópu.

„Eftir að ferðatakmörkunum í Evrópu var aflétt útvíkkuðum við flugáætlun okkar verulega í júlímánuði. Farþegafjöldi jókst umtalsvert í kjölfarið þó enn sé töluverður samdráttur á milli ára vegna kórónuveirufaraldursins. Við höfum lagt höfuðáherslu á að viðhalda sveigjanleika til þess að takast á við áframhaldandi óvissu og geta brugðist hratt við breytingum á mörkuðum í því síbreytilega ástandi sem við stöndum frammi fyrir. Við erum stöðugt að meta stöðuna í takt við aðstæður, bæði hvað varðar þróun eftirspurnar og breytingar á ferðatakmörkunum, með það að markmiði að mæta eftirspurn á hverjum tíma og tryggja öruggar flugsamgöngur til og frá landinu nú og til frambúðar,“ er haft eftir Boga Nils Bogasyni í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK