Fyrrverandi stjórnendur hjá Plain vanilla safna 419 milljónum

Stefanía Bjarney Ólafsdóttir og Sölvi Logason, stofnendur Avo.
Stefanía Bjarney Ólafsdóttir og Sölvi Logason, stofnendur Avo. Ljósmynd/Aðsend

Sprotafyrirtækið Avo hefur tryggt sér fjármögnun upp á þrjár milljónir bandaríkjadala, en það nemur um 419 milljónum íslenskra króna. Það er bandaríski vísissjóðurinn GGV Capital sem leiðir fjárfestahópinn, en aðrir fjárfestar eru meðal annars Heavybit og Y Combinator, sem og erlendir englafjárfestar og íslensku vísissjóðirnir Brunnur og Crowberry.

Avo þróar hugbúnað sem á að auðvelda vörustjórum, forriturum og gagnasérfræðingum skipulagningu, skráningu og stjórnun gagna, meðal annars með því að tryggja gæði notendagagna.

Fyrirtækið var stofnað af Sölva Logasyni og Stefaníu Bjarneyju Ólafsdóttur, en þau stýrðu áður gagnagreind hjá Plain vanilla við þróun leikjarins QuizUp.

Í tilkynningnu frá Avo vegna fjárfestingarinnar er haft eftir Stefaníu, framkvæmdastjóra félagsins, að þetta geri þeim kleift að stækka starfsmannateymið hratt á næstu vikum og mánuðum, meðal annars í vöruþróun, sölu og markaðssetningu, bæði hér á landi og erlendis.

GGV Capital, sem leiðir fjárfestinguna, sérhæfir sig í fjárfestingum í nýsköpun og stýrir nú um sex milljörðum dala, eða sem nemur 840 milljörðum króna. Hefur það fjárfest í fyrirtækjum á borð við Slack, TikTok og Alibaba.

Heavybit sérhæfir sig í forritaralausnum og fjárfesti meðal annars í Stripe, CircleCI og PagerDuty. Y Combinator var meðal þeirra félaga sem fjárfestu upphaflega í Avo í byrjun árs 2019 og fylgdi því eftir í annarri fjárfestingalotu. Um er að ræða nýsköpunarhraðal sem hefur meðal annars fjárfest í Airbnb, Stripe og Dropbox.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK