Langflestir farnir yfir í appið

Það er af sem áður var að fólk þurfi að …
Það er af sem áður var að fólk þurfi að skjótast í stöðumæli þegar það leggur bílnum á gjaldskyldum svæðum. Nú nota flestir símann. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrjú öpp eru í harðri samkeppni um notendur á tiltölulega nýjum markaði hér á landi sem snýst um að gera fólki kleift að leggja í gjaldskyld stæði án samskipta við jarðneska stöðumæla. Öppin eru EasyPark, Parka og Pay, app Símans.

Þrátt fyrir að markaðurinn sé nýr er hann síður en svo smár. Samkvæmt upplýsingum frá Bílastæðasjóði greiða 59,64% viðskiptavina fyrir gjaldskyld bílastæði með símaforriti. Ef tekið er mið af nokkurra ára gömlum ársreikningum Bílastæðasjóðs, eru árlegar tekjur hans í kringum milljarð.

Það er því til mikils að vinna en raunin er þó sú að öppin taka ekki hlut af greiðslunum sem þau sjá um að miðla, enda er það stefna Bílastæðasjóðs að greiða ekki fyrir þá þjónustu. 

Spurningin er þá hvar tekjur er að finna. EasyPark hefur þann háttinn á að hafa þjónustugjald á hverju stöku skipti upp á 95 krónur en 529 krónur kostar að hafa aðgang að appinu í mánuð.

Verðið fyrir bílastæðin sjálf er síðan ævinlega eftir verðskrá Bílastæðasjóðs sjálfs, óháð mögulegri gjaldtöku appanna. Gjaldtakan er engin hjá Parka og Pay, þjónustu Símans.

Parka sækir tekjur með öðrum hætti

Parka-appið er að öllu leyti gjaldfrjálst fyrir notendur og að sögn Ægis Finnssonar, tæknistjóra appsins, stendur ekki til að innheimta gjöld af notendum fyrir að leggja í stæði. 

Ægir Finnsson, tæknistjóri Parka.
Ægir Finnsson, tæknistjóri Parka. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við ætlum að ná í tekjur með öðrum hætti. Við erum sprotafyrirtæki með ýmsar hugmyndir að nýjungum í þeim efnum,“ segir Ægir. Þegar eru auglýsingar í appinu þegar lagt er í stæði og fleiri útfærslur innan appsins eru áformaðar.

Bílastæðasjóður gat „af samkeppnisástæðum“ ekki veitt mbl.is upplýsingar um hlutdeild smáforritanna á markaðnum. Ægir segir að þær upplýsingar liggi ekki alveg fyrir en fyrirtækið geri sér hugmyndir um hvernig landið liggur. 

Ægir segir að starfsfólk Parka sé staðráðið í að keppast um markaðinn og ýmsar nýjar útfærslur séu væntanlegar í appinu.

Greiða heilan dag í P1 fyrir þjónustu í kortér

Eitt af því sem margir notendur smáforritanna hafa rekið sig á er að skrá bílinn í stæði, reka erindi sitt, aka bílnum burt, en gleyma að skrá sig út. Þannig hefur fólk greitt fyrir heilu dagana í P1 vegna erindis sem tók ef til vill kortér.

Ægir kannast við þennan vanda og bendir á að þegar hafi verið gerðar umbætur í þessum efnum. Nú sendi Parka til að mynda ókeypis tilkynningar til fólks um að það sé enn að greiða fyrir stæðið.

Að auki standi til að nýta staðsetningarþjónustu símanna til að geta minnt ökumenn á að skrá sig úr stæðinu þegar síminn sér að þeir hafa keyrt af stað.

Bílastæðaverðir kunna að vera deyjandi stétt en enn um sinn …
Bílastæðaverðir kunna að vera deyjandi stétt en enn um sinn annast þeir þó eftirlit með ökutækjum í gjaldskyldum stæðum. Þeir sjá hverjir hafa lagt með appi. mbl.is/Golli

Þriðja appið er Pay-forrit Símans, en þar er bílastæðaþjónusta aðeins einn liður í stóru kerfi. Þar er þjónustugjaldið ekkert, eins og hjá Parka. Þessa stundina er það því aðeins EasyPark, sem áður var vel að merkja Leggja-appið, sem innheimtir sérstakt gjald.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK