Íslenskir ferðamenn „stuðpúði“ fyrir ferðaþjónustuna

Kaup innlendra ferðamanna stóðu fyrir um 52% af heildartekjum íslenskrar …
Kaup innlendra ferðamanna stóðu fyrir um 52% af heildartekjum íslenskrar ferðaþjónustu á síðasta ári og hefur hlutfallið aldrei verið jafn hátt. Morgunblaðið/Ómar Óskarsson

Kaup innlendra ferðamanna stóðu fyrir um 52% af heildartekjum ferðaþjónustu á síðasta ári. Hlutfallið hefur aldrei áður komist nálægt því að vera yfir 50%. 

Fram kemur í nýrri Hagsjá Landsbankans að viðskipti íslenskra og erlendra ferðamanna við íslensk ferðaþjónustufyrirtæki námu samtals 236 milljörðum króna á síðasta ári. Árið 2019 nam þessi upphæð 602 milljörðum króna og dróst hún því saman um 307 milljarða eða 58%. 

Kaup innlendra ferðamanna stóðu fyrir rúmlega helmingi tekna

Kaup erlendra ferðamanna námu 114 milljörðum króna og kaup innlendra ferðamanna námu 122 milljörðum króna. Stóðu kaup innlendra ferðamanna því fyrir um 52% af heildartekjum íslenskrar ferðaþjónustu á síðasta ári og hefur hlutfallið aldrei verið jafn hátt. Hlutfallið var einna hæst árin 2009 og 2010 en þá fækkaði erlendum ferðamönnum verulega hér á landi, m.a. vegna alþjóðafjármálakreppunnar og gossins í Eyjafjallajökli. Þá var hlutfallið á bilinu 28-29% en það lá á bilinu 20-24% á árunum 2016-2019. 

Miklar samgöngutakmarkanir vegna kórónuveirufaraldursins skýra þróunina milli ára. Alls fækkaði erlendum ferðamönnum hér á landi um 76% á síðasta ári sem er í mjög góðu samræmi við neyslusamdrátt þeirra, sem nam rúmum 75%. 

„Það má segja að íslenskir ferðamenn hafi virkað sem ákveðinn stuðpúði fyrir íslenska ferðaþjónustu í faraldrinum og komið í veg fyrir að tekjumissirinn yrði meiri en hann varð. Líklegt er að aftur verði töluverð umskipti í tekjusamsetningu ferðaþjónustunnar á þessu ári og hún verði nær því sem er í meðalári,“ segir í hagsjá Landsbankans.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK