Gagnrýna stækkun útboðs Nova

Ljósmynd/Gunnar Svanberg

Sú ákvörðun að stækka hlutafjárútboð Nova eftir að því lauk vekur upp áleitnar spurningar, þá sérstaklega af því að eftirspurnin í útboðinu var vart til þess fallin að gefa tilefni fyrir stækkun þess.

Þetta segir Hörður Ægisson, ritstjóri Innherja á vísir.is í nýjasta þætti hlaðvarps Þjóðmála, þar sem hann og Stefán Einar Stefánsson, fv. fréttastjóri viðskipta á Morgunblaðinu, ræddu um stöðu mála í hagkerfinu – og þar á meðal nýleg útboð í Ölgerðinni og Nova.

Í útboði Nova lág fyrir að selja um 37-45% hlut í félaginu, á genginu 5,11 kr. á hlut. Andvirði sölunnar gat því verið á bilinu 7,2 – 8,7 milljarðar króna. Bandaríski fjárfestingarsjóðurinn PT Capital var stærsti eigandi félagsins og ljóst var að sjóðurinn vildi með útboðinu losa um hlut sinn.

Í hlaðvarpsþætti Þjóðmála kemur fram að heildareftirspurn eftir bréfum í Nova tæplega tvöföld að loknu útboði. Eftirspurnin í tilboðsbók A, sem stóð minni fjárfestum til boða, var rúmlega þreföld, en í tilboðsbók B, sem var ætluð stærri fjárfestum, var hún rétt rúmlega einföld. Því sé ljóst að stærri fjárfestar, þar á meðal lífeyrissjóðir, hafi sýnt útboðinu lítinn áhuga sem meðal annars fól það í sér að bréf úr tilboðsbók B voru seld á sama gengi og í tilboðsbók A. Það er til að mynda ólíkt því sem átti sér stað í nýlegu útboði Ölgerðarinnar, þar sem bréf úr tilboðsbók B voru seld á hærra gengi til stærri fjárfesta vegna mikillar eftirspurnar.

„Það er engu að síður ákveðið að stækka útboðið með því að troða þessari umframeftirspurn ofan í almenning,“ segir Hörður í þættinum og bætir við að það veki furðu að tekin hafi verið ákvörðun um að stækka útboðið með þessum hætti.

„Maður óttast það til lengri tíma að þetta hafi skaðleg áhrif á traust almennings í garð markaðarins, þegar vinnubrögðin eru með þessum hætti,“ segir hann jafnframt. Þá hafi ráðgjafi útboðsins, sem í þessu tilviki var Arion banki, átt að grípa í taumana.

Stefán Einar nefnir í þættinum að það hafi í nokkurn tíma verið uppi vangaveltur um verðlagningu fjarskiptafélaga á markaði en Síminn og Sýn, sem bæði eru skráð á markað, hafa hækkað nokkuð eftir að hafa selt frá sér innviði. Aftur á móti hafi margir talið verðlagningu Nova of háa í fyrrnefndu útboði.

Þá eru þeir sammála um að mikla þátttöku almennings megi rekja til vel útboða í Ölgerðinni og þar áður í Íslandsbanka og í Síldarvinnslunni, þar sem bréfin hækkuðu nokkuð við skráningu. Ástæðuna fyrir þeim hækkunum megi meðal annars rekja til þess að stórir fjárfestar vildu auka við hlut sinn við skráningu og því hafi verið virkur eftirmarkaður með bréfin. Aftur á móti sé það ósennilegt hvað Nova varðar miðað við þátttöku stærri fjárfesta í útboðinu.

Hægt er að hlusta á þáttinn hér fyrir neðan og á öllum helstu streymisveitum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK