Eftir nær tveggja mánaða verkfall sjómanna virðist sem ögurstund muni renna upp í dag. Fyrirhugaðir eru fundir hjá samninganefndum sjómanna í dag og samkvæmt heimildum Morgunblaðsins telja menn að vilji sé til þess í röðum sjómanna að finna aðra leið að lausn deilunnar sem þó byggist á samningi aðila en ekki lagasetningu.
„Ég get staðfest það að menn eru farnir að tala um að við verðum að fara að reyna að finna einhverja leið út úr þessu sem yrði með öðrum formerkjum en hingað til, en ég má ekki segja frá því hver sú leið er,“ segir Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambandsins.
Að sögn Valmundar munu aðilar í samtökum innan Sjómannasambandsins hittast á fundi í dag. Sömuleiðis munu aðrar samninganefndir sjómanna hittast í dag.