Eðlilegt að breyta krókaaflamarkinu

Í tímans rás hafa bátar innan kerfisins stækkað og eru ...
Í tímans rás hafa bátar innan kerfisins stækkað og eru í raun ekki smábátar lengur, segir SSÍ. mbl.is/Alfons Finnsson

Eðlilegt væri að breyta krókaaflamarkinu í venjulegt aflamark þar sem enginn munur er orðinn á þessum tveimur stjórnkerfum fiskveiðanna. Þetta kemur fram í færslu á vef Sjómannasambands Íslands, sem ætlað er að svara „ávirðingum“ Landssambands smábátaeigenda.

Segir í færslunni að krókaaflamarkið hafi orðið til á sínum tíma til að koma böndum á veiðar smábáta. Í tímans rás hafi bátar innan þess kerfis stækkað og séu í raun ekki smábátar lengur. Því væri eðlilegt að breyta krókaaflamarkinu í aflamark að svo komnu.

„Eins og oft áður ræðst Landssamband smábátaeigenda að Sjómannasambandi Íslands vegna þess að skoðanir þessara samtaka fara ekki alltaf saman,“ segir enn fremur á vef Sjómannasambandsins.

„Formaður og framkvæmdastjóri LS virðast ekki gera sér grein fyrir að Sjómannasamband Íslands stendur fyrir og er í hagsmunavörslu fyrir sjómenn sem eru launamenn hjá útgerðum. Landssamband smábátaeigenda er hins vegar hagsmunasamtök útgerðarmanna smábáta og því hlýtur að vera eðlilegt að hagsmunir þessara samtaka fari ekki alltaf saman.“

Handfærabátur á leið til hafnar á Arnarstapa. SSÍ segir stjórnkerfi ...
Handfærabátur á leið til hafnar á Arnarstapa. SSÍ segir stjórnkerfi fiskveiða ekki hafa nein áhrif á hvaða kjarasamningar gildi um borð í bátaflotanum. Ljósmynd/Heiðar Kristjánsson

Gerðu athugasemd við umsögn SSÍ

Ljóst er að samböndin tvö skiptast á að hnýta hvort í annað en tilefni færslu SSÍ er athugasemd sem LS gerir við umsögn SSÍ til starfshóps atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, sem var með til athugunar reglur um stærðarmörk fiskiskipa.

Segir svo í umræddri umsögn SSÍ:

„Árið 2013 var lögum um stjórn fiskveiða breytt þannig að nú geta skip sem eru styttri en 15 m og undir 30 BT verið á krókaaflamarki. Þar sem lítill munur er á krókaaflamarki annars vegar og almennu aflamarki hins vegar auk þess sem krókaaflamarkið er ekki lengur bundið við smábáta telur Sjómannasamband Íslands að breyta ætti krókaaflamarkinu í almennt aflamark.“

Og LS hefur þetta að segja um umsögnina:

„Ekki er vitað hvað SSÍ gengur til með þessari tillögu, nema að vera skyldi að þeir gætu landað kjarasamningi þar sem sjómenn á bátum 12 - 15 metrar féllu þá sjálfkrafa inn í samning þeirra við SFS. LS hefur hins vegar gert þá kröfu að félagsmenn sínir verði allir undir kjarasamningi sem félagið hefur samið um við samtök sjómanna.“

Eðlilegt er að hagsmunir samtakanna tveggja fari ekki alltaf saman, ...
Eðlilegt er að hagsmunir samtakanna tveggja fari ekki alltaf saman, segir SSÍ. mbl.is/Alfons Finnsson

„Ekkert með kjarasamninga að gera“

Í ofangreindri færslu SSÍ segir svo um þessa athugasemd LS:

„Þetta fer eitthvað illa í forsvarsmenn LS og blanda þeir kjarasamningum með einhverjum óskiljanlegum hætti inn í það mál. Kjarasamningur var vissulega gerður við LS árið 2012 fyrir smábáta. Sá samningur rann út í lok janúar árið 2014.

Ekki hafa náðst samningar við LS um lagfæringu á þeim samningi, m.a. vegna þess að LS gerir kröfu um að samningurinn nái ekki eingöngu til smábáta heldur einnig til stærri báta. Á það hefur SSÍ ekki getað fallist enda þegar í gildi samningur fyrir stærri báta.“

Tekið er fram að stjórnkerfi fiskveiða hafi engin áhrif á hvaða kjarasamningar gildi um borð í bátaflotanum.

„Kjarasamningar breytast ekki sjálfkrafa við það að bátar séu færðir úr krókaaflamarki yfir í aflamark eða öfugt. Því hefur skoðun SSÍ á krókaaflamarki sem stjórntæki við fiskveiðar ekkert með kjarasamninga að gera.“

mbl.is
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 19.7.18 195,32 kr/kg
Þorskur, slægður 19.7.18 259,36 kr/kg
Ýsa, óslægð 19.7.18 325,53 kr/kg
Ýsa, slægð 19.7.18 156,29 kr/kg
Ufsi, óslægður 19.7.18 45,14 kr/kg
Ufsi, slægður 19.7.18 56,27 kr/kg
Djúpkarfi 28.6.18 87,90 kr/kg
Gullkarfi 19.7.18 202,16 kr/kg
Litli karfi 28.6.18 45,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.7.18 143,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

19.7.18 Guðmundur Á Hópi HU-203 Lína
Þorskur 1.846 kg
Ýsa 1.634 kg
Steinbítur 292 kg
Ufsi 4 kg
Karfi / Gullkarfi 2 kg
Samtals 3.778 kg
19.7.18 Bylgjan SI-115 Handfæri
Þorskur 485 kg
Ufsi 29 kg
Karfi / Gullkarfi 14 kg
Ýsa 6 kg
Samtals 534 kg
19.7.18 Petrea EA-024 Handfæri
Þorskur 220 kg
Ufsi 72 kg
Karfi / Gullkarfi 10 kg
Ýsa 6 kg
Samtals 308 kg

Skoða allar landanir »