Ekki liggur fyrir hvort hrefnuveiðar verða stundaðar í sumar af hálfu IP-útgerðar. Fyrirtækið hefur rætt ákvörðun um lokun veiðisvæða í Faxaflóa við Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra og skrifað ráðuneytinu vegna málsins.
Gunnar Bergmann Jónsson, framkvæmdastjóri IP-útgerðar, segir að með því að draga línu þvert yfir Faxaflóa hafi síðasti sjávarútvegsráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, lokað svæði þar sem 82,3% af veiddum hrefnum fengust á síðustu 10 árum.
Gunnar segir ákvörðun um lokun Faxaflóa mjög bagalega fyrir hrefnuveiðimenn. Á þessari stundu viti þeir ekki hvort breyting verði á lokun á utanverðum Faxaflóa eins og þeir hafi eindregið óskað eftir, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.