Ferðamennirnir forvitnir um saltfiskinn

Bacalá Bar er að hefja sitt þriðja rekstrarsumar. Von er ...
Bacalá Bar er að hefja sitt þriðja rekstrarsumar. Von er á spænskum kokki.

Í Hauganesi í Dalvíkurbyggð hefur orðið til blómlegur rekstur þar sem saman fara fiskverkun og ferðaþjónusta. Elvar Reykjalín stofnaði Ektafisk hf. árið 2000 og byggist félagið á eldra fyrirtæki, Trausta ehf, sem afi hans stofnaði og rak á sama stað. Saltfiskframleiðsla hefur verið burðarstólpinn í rekstrinum frá upphafi: „Við leggjum mikla áherslu á að gera saltfiskinn með gamla laginu, eins og afi kenndi pabba, pabbi kenndi mér, og ég er núna að kenna afabörnunum mínum sjö,“ segir Elvar.

Meðal þess sem hefur skapað Ektafiski sérstöðu er að fyrirtækið selur útvatnaðan saltfisk á innanlandsmarkaði, í lofttæmdum umbúðum, beinhreinsaðan og tilbúinn til matreiðslu án nokkurrar fyrirhafnar. „Ég man hvernig ég kveikti á perunni 12 eða 13 ára gamall, þar sem ég fylgdist með fiskverkunarfólkinu pakka saltfiskinum í 50 kg strigapoka, stafla þeim í tíu hæðir upp á vörubíl og ganga ofan á fiskinum fram og til baka. Mér fannst illa farið með þessa frábæru vöru og hélt að það hlyti að vera hægt að gera neytendavænni vörur úr saltfiskinum.“

Elvari er margt til lista lagt. Hér verkar hann hákarl, ...
Elvari er margt til lista lagt. Hér verkar hann hákarl, en hann fær nokkra slíka til sín árlega. Hákarlinn selst vel innanlands, en fer líka til Grænlands.

Ektafiskur selur megnið af framleiðslu sinni til útlanda, en fyrirtækið er mjög sýnilegt á íslenska markaðinum og má finna vörur frá Ektafiski í flestum matvöruverslunum hérlendis. Fljótlega eftir að hann stofnaði fyrirtækið bætti Elvar við fleiri vörum, s.s. fiskibollum, gellum, reyktri ýsu, þorskbitum, og hákarli og eru þær allar seldar undir merkjum Ektafisks. Elvar vildi ganga enn lengra í vöruþróuninni: „Rétt fyrir kreppu vorum við tilbúin með heila línu af alls konar kælivöru í bökkum, en þegar hrunið skall á urðum við nærri því gjaldþrota og þurftum að hætta við þá viðbót og einbeita okkur að frystivörunni.“

15.000 eiga leið um þorpið

Meðal þess sem hjálpaði Ektafiski að komast í gegnum kreppuna var að fyrirtækið hefur um langt skeið tekið á móti ferðamönnum sem fá að skoða fiskvinnsluna og sjá hvernig saltfiskurinn er verkaður. Elvar bendir á að á Hauganesi sé að finna elsta starfandi hvalaskoðunarfyrirtæki landsins og um 15.000 manns fari í gegnum þorpið ár hvert, ýmist til að leita uppi hvali eða til að skoða héraðið. „Það lá nokkuð beint við að reyna að hafa upp á meira að bjóða fyrir þennan stóra hóp.“

Komið hefur verið upp tjaldsvæði og nýlega bættust við pottar ...
Komið hefur verið upp tjaldsvæði og nýlega bættust við pottar í fjörunni.

Úr varð að opna veitingastað og kaffihús, Bacalá Bar, og selja ferðamönnunum dýrindis fiskrétti um leið og þeir fá að sjá handtökin í fiskvinnslunni með eigin augum. Að vetri til er staðurinn opinn þegar von er á hópum, en yfir sumartímann er opið alla daga. „Í ár fáum við til okkar spænskan kokk um miðjan þennan mánuð og mun hann elda fiskinn á spænska vísu í allt sumar,“ bætir Elvar við. „Nýlega tókum við líka í notkun tjaldsvæði, og bráðum getum við leyft fólki að nota heita potta sem komið hefur verið fyrir hér í fjörunni, í einu sandfjöru Norðurlands sem snýr á móti suðri og er í góðu skjóli fyrir norðanáttinni. Allt er þetta gert til að halda fólki lengur á staðnum og um leið skapa fleiri störf fyrir þorpsbúa,“ segir Elvar en ferðaþjónustan og atvinnulífið á svæðinu hafa eflst á undanförnum árum, fjölbreyttir gistimöguleikar í boði og m.a. rekin bruggsmiðja sem býður upp á bjórböð.

Þjónustan við ferðamenn myndar þó enn bara lítinn hluta af tekjum Ektafisks, og segir Elvar að seint hefði verið hægt að stækka starfsemina með þessum hætti ef ekki væri fyrir góða og fjölhæfa starfsmenn sem hika ekki við að ganga í öll störf bæði í fiskvinnslunni og á veitingastaðnum. „Síðasta ár var það besta hjá Ektafiski frá hruni, en þetta er líka búið að vera mikil vinna og yfirlega alla daga, nánast frá morgni til kvölds,“ segir Elvar en kveðst alls ekki kvarta því hann gæti ekki hugsað sér neitt skemmtilegra. „Ég hef unnið við fisk allt mitt líf, og er núna orðinn 63 ára gamall, en samt hlakka ég enn til á hverjum einasta morgni að koma til starfa, flaka, salta og pakka og vinna með fólkinu mínu.“

Bloggað um fréttina

Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 25.6.18 254,68 kr/kg
Þorskur, slægður 25.6.18 274,73 kr/kg
Ýsa, óslægð 25.6.18 286,40 kr/kg
Ýsa, slægð 25.6.18 265,65 kr/kg
Ufsi, óslægður 25.6.18 88,06 kr/kg
Ufsi, slægður 25.6.18 89,00 kr/kg
Djúpkarfi 19.6.18 93,00 kr/kg
Gullkarfi 22.6.18 59,61 kr/kg
Litli karfi 11.6.18 5,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 21.6.18 280,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

25.6.18 Anna EA-305 Grásleppunet
Grálúða / Svarta spraka 14.946 kg
Samtals 14.946 kg
25.6.18 Fagranes ÍS-008 Handfæri
Þorskur 194 kg
Samtals 194 kg
25.6.18 Elín ÍS-117 Handfæri
Þorskur 252 kg
Samtals 252 kg
25.6.18 Straumnes ÍS-240 Handfæri
Þorskur 1.316 kg
Ufsi 32 kg
Karfi / Gullkarfi 7 kg
Samtals 1.355 kg
25.6.18 Vonin ÍS-266 Handfæri
Þorskur 1.210 kg
Samtals 1.210 kg

Skoða allar landanir »