Húsið fullt af laxi og þorski

Laxinn er hreinsaður og þveginn í sláturhúsi Búlandstinds áður en ...
Laxinn er hreinsaður og þveginn í sláturhúsi Búlandstinds áður en hann fer í ofurkælingartankinn og er pakkað. mbl.is/Helgi Bjarnason

Mikið er um að vera í fiskverkuninni hjá Búlandstindi á Djúpavogi þessa dagana. Slátrað er laxi frá tveimur fyrirtækjum með hámarksafköstum um leið og starfsfólkið er að fínstilla ný tæki laxasláturhússins. Þá berst mikill þorskur inn í annan hluta hússins vegna góðrar tíðar og aflahrotu svo varla hefst undan að vinna aflann sem er ýmist fluttur ferskur með flugi á markað eða saltaður. „Þetta er jákvætt vandamál en nú er að koma bræla og þá berst minni afli að. Ekki það að ég hafi óskað mér þess,“ segir Elís Grétarsson, framkvæmdastjóri Búlandstinds.

Jafnt flæði lykillinn

Heimamenn í Ósnesi og Fiskeldi Austfjarða endurreistu fiskvinnslu Búlandstinds fyrir fáeinum árum. Ósnes gerir út línubát og er í samvinnu við fleiri útgerðir á Djúpavogi og Breiðdalsvík og Fiskeldi Austfjarða kemur með laxinn sem skapar góðan grunn. Nú hafa Laxar fiskeldi bæst í hluthafahópinn og koma með sinn lax til slátrunar. Hver hluthafi á þriðjung í Búlandstindi. Elís bendir á að aðgangur að hráefni sé undirstaða atvinnunnar í byggðarlaginu og nú líti vel út með það.

Nýlokið er uppbyggingu laxasláturhússins og hófst slátrun fyrir Fiskeldi Austfjarða í byrjun mánaðarins. Keyptur var notaður búnaður frá Noregi og bætt við ofurkælingu frá Skaganum. „Það er mikil sjálfvirkni í þessu kerfi og þegar búið verður að fínstilla það verður jafnt flæði í gegnum vinnsluna. Það er lykillinn að því að vel takist til. Við eigum eftir að ljúka ýmsu. Með ofurkælingunni varðveitast gæði fisksins gríðarlega og líftími hans lengist,“ segir Elís.

Laxinn á leið á markað. Kristján Ingimarsson, Elís Grétarsson, Valur ...
Laxinn á leið á markað. Kristján Ingimarsson, Elís Grétarsson, Valur Traustason, Berit Solvang og Gunnar Steinn Gunnarsson. mbl.is/Helgi Bjarnason

Afkastagetan 80 tonn á dag

Sláturhúsið á að geta annað 100 tonnum á dag, þegar það verður komið í fulla virkni en vinnslugetan nú er 80 tonn. Elís segir að ekki veiti af því þegar verið sé að slátra fyrir tvö laxeldisfyrirtæki.

Nú starfa um 20 manns við slátrun á laxi og Elís reiknar með að þurfa nærri 30 starfsmenn þegar vinnslan verður komin í full afköst. Hjá fyrirtækinu í heild eru nú 50 starfsmenn, á sjó og í landi.

Önnur vinnubrögð við laxinn

Elís er bjartsýnn á framtíðina. Segir að þegar laxeldisfyrirtækin fái leyfi til að auka við sig og framleiðslan verði 30 þúsund tonn í heildina ætti starfsemi sláturhússins að verða samkeppnisfær við stóru fyrirtækin í Noregi.

Önnur vinnubrögð eru við laxaslátrun en vinnslu á þorski og Elís sem alinn er upp við hefðbundinn sjávarútveg segist vera að læra eitthvað nýtt á hverjum degi. Nauðsynlegt sé að hafa gott flæði í laxaslátruninni því mikill fjöldi laxa þurfi að fara í gegn á hverjum degi. Þá bendir hann á að blóðgunin fari fram í sláturhúsinu, en ekki úti á sjó eins og á þorskveiðum, og því sé í raun búið að sameina vinnuna sem fram fari á veiðiskipunum og í fiskvinnslunni.

Fjallað var ítarlegar um fiskeldi fyrir austan í Morgunblaðinu sem kom út 29. nóvember.

Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 9.12.18 304,14 kr/kg
Þorskur, slægður 9.12.18 360,79 kr/kg
Ýsa, óslægð 9.12.18 299,73 kr/kg
Ýsa, slægð 9.12.18 292,32 kr/kg
Ufsi, óslægður 9.12.18 127,76 kr/kg
Ufsi, slægður 9.12.18 153,01 kr/kg
Djúpkarfi 6.12.18 307,00 kr/kg
Gullkarfi 9.12.18 325,58 kr/kg
Litli karfi 24.10.18 17,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 6.12.18 64,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

10.12.18 Öðlingur SU-019 Línutrekt
Þorskur 9.962 kg
Samtals 9.962 kg
9.12.18 Vigur SF-080 Lína
Ýsa 791 kg
Þorskur 555 kg
Ufsi 86 kg
Langa 31 kg
Keila 16 kg
Steinbítur 8 kg
Samtals 1.487 kg
9.12.18 Finnbjörn ÍS-068 Dragnót
Ýsa 980 kg
Skarkoli 895 kg
Þorskur 261 kg
Ufsi 24 kg
Þykkvalúra / Sólkoli 8 kg
Samtals 2.168 kg

Skoða allar landanir »