Spá Efnahags og framfarastofnunar Evrópu, OECD, gerir ráð fyrir að fiskeldi muni í fyrsta skipti standa undir meira magni sjávarafurða en hefðbundnar fiskveiðar árið 2020. Þetta kemur fram í nýrri sjávarútvegsskýrslu Íslandsbanka.
Í skýrslunni segir að heildarframleiðsla sjávarafurða á árinu 2017 hafi numið 175 milljónum tonna, en þar af hafi fiskveiðar verið 53%, eða 92 milljónir tonna, og fiskeldi um 47%, eða um 83 milljónir tonna.
Mest var veitt af uppsjávarfiski, eða um 38% af heildarveiðum, næst á eftir kom svo botnfiskur, eða 23%, og þar á eftir skelfiskur með 17%. Aðrar sjávarafurðir standa undir 13% heildarframleiðslunnar.
Í skýrslunni kemur einnig fram að tveir þriðju hlutar fiskeldis séu á landi, en þriðjungur er fiskeldi í sjó. Á landi eru laxfiskar langalgengastir, að því er segir í skýrslunni, á meðan skelfiskur er stærsti hluti framleiðslu fiskeldis í sjó.