Tekist á um veiðiheimildir og aðgang

Óvissa er í rekstri togarans Kirkella, sem legið hefur við …
Óvissa er í rekstri togarans Kirkella, sem legið hefur við bryggju síðan í desember. Myndin sýnir skipið á siglingu undir Tower-brú yfir Thames í Lundúnum. Ljósmynd/UK Fisheries

Eftir Brexit er staðan breytt í samskiptum Norðmanna og Breta í sjávarútvegi. Frá áramótum eru þeir síðarnefndu sjálfstætt strandríki, en ekki hluti af Evrópusambandinu og samningum þess. Margar fisktegundir ganga á milli lögsögu þjóðanna í Norðursjónum og mið, sem áður voru aðgengileg og opin, eru nú í mörgum tilvikum lokuð þar sem nýir samningar um kvóta og gagnkvæman aðgang hafa ekki verið gerðir.

140 manns í viðræðunefndum

Í september gerðu Norðmenn og Bretar rammasamning í sjávarútvegi, en þar var ekki kveðið á um veiðar einstakra fisktegunda. Slíkar viðræður hófust hins vegar á þriðjudag og er gert ráð fyrir að fundahöldin, sem fara fram á fjarfundum, taki tvær vikur. Alls verða 140 manns í viðræðunefndunum, flestir frá ESB. Markmiðið er að gera tvíhliða samninga um gagnkvæm réttindi Noregs og Bretlands annars vegar og Noregs og Evrópusambandsins hins vegar og síðan þríhliða samning aðilanna þriggja. Áður var árlega samið um réttindi á milli Norðmanna og Evrópusambandsins.

Fram kom í norska sjávarútvegsritinu Fiskeribladet/Fiskaren í vikunni að ef allt hefði verið með sama hætti og fyrir ári hefðu norsk uppsjávarskip verið að makrílveiðum í breskri lögsögu nú í ársbyrjun. Eins og nú háttar hafa þeir ekki aðgang til slíkra veiða.

Skip frá Bretlandi og EES hafa hins vegar verið tíðir gestir í norskum höfnum. Frá áramótum til 12. janúar höfðu þau landað tæplega 28 þúsund tonnum af makríl fyrir um 330 milljónir norskra króna, samkvæmt tölum frá Norges Sildesalgslag. Magnið er fjórfalt það sem landað var á sama tíma í fyrra. Í síðustu viku lönduðu skip frá Bretlandi og ESB 23 stórum förmum í Noregi.

Mikil óvissa gætir um tilhögun veiða í kjölfar Brexit.
Mikil óvissa gætir um tilhögun veiða í kjölfar Brexit. AFP

Fyrir Norðmenn og Færeyinga skipta makrílveiðar í breskri lögsögu miklu máli, en í fyrra veiddu Norðmenn um 70% af úthlutuðum kvóta í lögsögu ESB. Færeyingar veiddu um 30% makrílsins við Hjaltlandseyjar í fyrra. Þeir áttu eftir að veiða um 30% af kvótanum í árslok en samkvæmt eldri makrílsamningi máttu þjóðirnar flytja 10% á milli ára.

Útilokar ekki fiskveiðideilur

Í Fiskaren er haft eftir ónefndum norskum útgerðarmanni að það hefði án efa flýtt fyrir viðræðum um veiðar og aðgang ef hömlur hefðu verið settar á landanir ESB og Breta í Noregi. Norðmönnum gremst að geta ekki sótt makrílinn á miðin í kringum Hjaltlandseyjar þar sem gæði hans eru í hámarki á þessum árstíma. Makríllinn stefnir suður á bóginn til hrygningar og meðan ekki er samið fjarlægist makríllinn norskar hafnir.

Audun Maråk, framkvæmdastjóri í Fiskebåt, samtökum norskra útgerðarmanna, bendir á að Brexit-samkomulagið hafi ekki náðst fyrr en um jól og naumur tími hafi því verið til að gera tvíhliða samninga við Breta um aðgang og kvóta. Náist ekki samningar segist hann ekki útiloka fiskveiðideilur Norðmanna og Breta.

Markmiðið sé að forðast slíkt, en Norðmenn verði að standa á rétti sínum. Eigi að takmarka aðgang þeirra að makrílmiðum við Bretland muni Noregur krefjast stærri hlutdeildar í makríl og kolmunna.

Fiskur og franskar

Aðgangurinn virkar í báðar áttir og þannig hafa skip frá Bretlandi og ESB ekki mátt veiða í norskri lögsögu frá áramótum. Þetta hefur m.a. komið niður á útgerð Kirkela, stórs og fullkomins þriggja ára frystitogara frá Hull, sem hefur legið við bryggju síðan í desember. Togarinn hefur meðal annars veitt í lögsögu Noregs, Færeyja og Grænlands og erfitt er í ári í öllum tilvikum því fiskveiðisamningar eru ekki í gildi.

Fram kom í vikunni að 8-12% af fiski sem seldist á breska „Fish&chips“-markaðnum væri úr afla Kirkella, en nú þyrfti þessi markaður að reiða sig í auknum mæli á fisk frá Noregi og Íslandi. Í eðlilegu árferði hefði togarinn mögulega verið á bolfiskveiðum í norskri lögsögu og aflað hráefnis fyrir breska skyndibitamarkaðinn. Nú gæti fiskur frá norskum framleiðendum hins vegar komið í stað þess breska, en í báðum tilvikum kæmi fiskurinn úr norskum sjó.

Breskur þingmaður hefur lýst yfir áhyggjum af þessari stöðu og skorað á Boris Johnson að tryggja fiskveiðiréttindi skipsins. Haft var eftir talsmanni ríkisstjórnarinnar að sem sjálfstætt strandríki yrði lögð áhersla á að þjóna sem best hagsmunum Breta á stjórnun fiskistofna á fiskimiðum nær og fjær. Viðræðum um fiskveiðar yrði lokið eins fljótt og mögulegt væri.

Af hálfu Breta hefur verið bent á að verðmæti fisks sem Norðmenn veiða við Bretland sé mun meira heldur en þess sem Bretar veiða í norskri lögsögu. Gagnvart Færeyjum sé munurinn enn meiri.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 28.3.23 521,71 kr/kg
Þorskur, slægður 28.3.23 474,51 kr/kg
Ýsa, óslægð 28.3.23 414,84 kr/kg
Ýsa, slægð 28.3.23 437,40 kr/kg
Ufsi, óslægður 28.3.23 260,83 kr/kg
Ufsi, slægður 28.3.23 348,86 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 27.1.23 237,00 kr/kg
Djúpkarfi 8.3.23 213,00 kr/kg
Gullkarfi 28.3.23 432,38 kr/kg
Litli karfi 28.3.23 5,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

28.3.23 Jónína Brynja ÍS-055 Lína
Þorskur 764 kg
Ýsa 510 kg
Skarkoli 4 kg
Samtals 1.278 kg
28.3.23 Finnur EA-245 Þorskfisknet
Þorskur 2.013 kg
Skrápflúra 30 kg
Samtals 2.043 kg
28.3.23 Lundey SK-003 Þorskfisknet
Þorskur 5.484 kg
Sandkoli 41 kg
Skarkoli 8 kg
Samtals 5.533 kg
28.3.23 Elva Björg SI-084 Rauðmaganet
Þorskur 422 kg
Skarkoli 27 kg
Þykkvalúra 9 kg
Ufsi 8 kg
Ýsa 3 kg
Samtals 469 kg

Skoða allar landanir »

Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 28.3.23 521,71 kr/kg
Þorskur, slægður 28.3.23 474,51 kr/kg
Ýsa, óslægð 28.3.23 414,84 kr/kg
Ýsa, slægð 28.3.23 437,40 kr/kg
Ufsi, óslægður 28.3.23 260,83 kr/kg
Ufsi, slægður 28.3.23 348,86 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 27.1.23 237,00 kr/kg
Djúpkarfi 8.3.23 213,00 kr/kg
Gullkarfi 28.3.23 432,38 kr/kg
Litli karfi 28.3.23 5,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

28.3.23 Jónína Brynja ÍS-055 Lína
Þorskur 764 kg
Ýsa 510 kg
Skarkoli 4 kg
Samtals 1.278 kg
28.3.23 Finnur EA-245 Þorskfisknet
Þorskur 2.013 kg
Skrápflúra 30 kg
Samtals 2.043 kg
28.3.23 Lundey SK-003 Þorskfisknet
Þorskur 5.484 kg
Sandkoli 41 kg
Skarkoli 8 kg
Samtals 5.533 kg
28.3.23 Elva Björg SI-084 Rauðmaganet
Þorskur 422 kg
Skarkoli 27 kg
Þykkvalúra 9 kg
Ufsi 8 kg
Ýsa 3 kg
Samtals 469 kg

Skoða allar landanir »