„Við erum sökkerar fyrir sögu“

Feðgarnir Sævar Knútur Hannesson og Hannes Ingi Jónsson gera saman …
Feðgarnir Sævar Knútur Hannesson og Hannes Ingi Jónsson gera saman út Sigurbjörgu SF 710 frá Höfn. Þeir hafa eru einnig saman í stjórn Hrollaugs - smábátafélags Hornafjarðar. mbl.is/Gunnlaugur

Feðgarnir og sjómennirnir Sævar Knútur Hannesson og Hannes Ingi Jónsson eru vanir að starfa saman en Sævar fór fyrst með pabba sínum á sjó um fimm ára og þeir hafa á fullorðinsaldri verið saman í áhöfninni á Sigurði Ólafssyni SF, en eru nú hvor á sínu skipinu. Saman hafa þeir einnig gert út smábátinn Sigurbjörgu SF og tóku báðir á síðasta ári sæti í stjórn Hrollaugs – smábátafélags Hornafjarðar, Sævar sem formaður og Hannes sem ritari.

„Viltu ekki bara kíkja til mín í kaffi, pabbi verður hérna líka,“ segir Sævar er blaðamaður slær á þráðinn. Ekki er hægt að hafna slíku boði enda blaðamenn ávallt kaffiþyrstir.

Þeir feðgar eru sem fyrr segir báðir sjómenn en það var ekki sjálfgefið að Hannes myndi gera sjómennsku að ævistarfi sínu. „Ég prófaði nú að fara sextán ára á sjó. Það var 1983, áður en kvótakerfinu var komið á. Þá var farið austur af Ingólfshöfða og dregin net, ekkert verið að spá í gæðunum þá. Á þessum tíma var verbúðin og man eftir að einu sinni var komið með tvo brennivínsdauða á pickup-bíl. Það var haldið á þeim um borð og þeir fá að sofa úr sér. Þegar var komið á miðin þá voru öll tæki í bátnum biluð og við fórum að horfa á eftir baujunum. Það voru allir sendir í að líta eftir þeim og en það kom bara einn á dekk af þessum sem voru bornir um borð. Hinn kom aldrei úr koju,“ rifjar Hannes upp og hlær.

Hann segir að sér hafi verið sagt að vera ekkert að fara á sjó, það væri engin framtíð í því. „Þannig að ég fór í bifvélavirkjun. Svo var það þannig að ég var svo slæmur í baki, með hrygggigt. Ég var með sveinspróf en kominn alveg í vinkil. Svo prófaði ég að fara á sjó og það var allt annað líf, stóð uppréttur og leið bara miklu betur.“

Sævar byrjaði snemma að sfara á sjó með Hannesi föður …
Sævar byrjaði snemma að sfara á sjó með Hannesi föður sínum. Ljósmynd/Aðsend

Blekktu Gæsluna

Sævar á ekki síður langan sjómannsferil að baki þrátt fyrir ungan aldur. „Hann byrjaði snemma að taka mig með á sjó. Ég byrjaði að fara fyrst fimm ára. Svo byrjaði hann í útgerð og það var spennandi að fá að vera út í skúr þegar var verið að fella net. Maður fékk að skera af og fékk borgað fyrir það. Svo fékk maður að fara á sjó þegar viðraði vel.“

Hannes rifjar upp að þrátt fyrir ungan aldur hafi Sævar komið að góðum notum á sjó. „Einu sinni var hann með okkur á sjó, kannski tíu eða tólf ára. Svo kom Gæslan um borð og það vantaði vélavörð, hann var meiddur og varð eftir í landi. Þá voru góð ráð dýr svo við sögðum Sævari að fara í koju og draga upp fyrir haus. Það var síðan spurt um vélavörðinn og við sögðum hann vera niðri í koju. Gæslan fór niður og sá þarna einhvern í koju. Hann er veikur sögðum við. Allt tekið gott og gilt,“ segir hann og flissar.

Þá hafi sjómennskan einnig reynst góður skóli. „Það var kennaraverkfall einn vetur og ég held að þið hafið fengið að vera með okkur viku á sjó þú og Gísli [Eysteinn Helgason]. Voruð tólf þrettán ára.“

Gísli Eysteinn Helgason og Sævar með vænan þorsk árið 2005.
Gísli Eysteinn Helgason og Sævar með vænan þorsk árið 2005. Ljósmynd/Aðsend

Hannes hefur verið á ýmsum bátum frá því hann hóf sjómennsku sem aðalstarf en gerði sjálfur út Öðling á árunum 2000 til 2005, en fann sig knúinn að hætta þeirri útgerð vegna kvótaskerðinga. Hann er nú vélstjóri á netabátnum Sigurði Ólafssyni SF. „Það eru breyttir tímar, það var svo mikið um farandverkamenn. Það voru 20 bátar fyrir þrjátíu árum að róa með net og nú er Sigurður Ólafsson eini netabáturinn á Hornafirði,“ segir Hannes.

Sævar var einnig um tíma í áhöfninni á Sigurði Ólafssyni SF en hætti í þeirri áhöfn til að komast á nýrra skip og er nú með fast pláss á Jónu Eðvalds SF sem Skinney-Þinganes hf. gerir út.

Þeir feðgar eru þó hvergi hættir samvinnunni og hófu þeir að gera út smábátinn Sigurbjörgu SF árið 2019, en ekki er ljóst hve lengi þeir fá að halda nafninu Sigurbjörg þar sem Rammi hf., sem nú hefur sameinast Ísfélagi Vestmannaeyja í Ísfélag hf., hefur haft einkaleyfi á nafninu. Þeir feðgar hafa til þessa fengið að nýta nafnið með leyfi en nú styttist í að Ísfélagið fái til landsins nýtt skip sem mun bera nafnið Sigurbjörg ÁR. Þótt nafnið kunni að verða annað eru feðgarnir hvergi hættir í útgerð.

Sigurður Ólafsson SF er eini netabáturinn sem gerður er út …
Sigurður Ólafsson SF er eini netabáturinn sem gerður er út frá Hornafirði. mbl.is/Gunnlaugur

Formaður af nauðsyn

Sævar var kjörinn formaður Hrollaugs – smábátafélags Hornafjarðar á síðasta ári og var faðir hans, Hannes, ritari. Þeir segja þetta ekki endilega hafa gerst af ásetningi. „Það var lítill áhugi á að taka við þessu og okkur þótti leiðinlegt ef þetta skyldi vera að fara að deyja út. Fúsi (Vigfús Ásbjörnsson) var búinn að sinna formennsku lengi og það þurfti eitthvað að gera því þetta félag á sér sögu hérna á Hornafirði og við erum sökkerar fyrir sögu,“ segir Sævar og hlær.

Við borðstofuborðið eru feðgarnir meira en tilbúnir að ræða helstu baráttumál smábátasjómanna á Hornafirði. „Við viljum bara 48 daga. Það er skýlaus krafa,“ segir Hannes. Bendir hann á kröfuna um að strandveiðibátum um allt land verði tryggðir 12 veiðidagar á mánuði í þá fjóra mánuði sem veiðin stendur yfir (maí, júní, júlí og ágúst). Síðasta strandveiðitímabil endaði frekar snemma, 12. júlí, og á síðasta ári voru veiðar stöðvaðar 21. júlí.

„Okkur sýnist hafa komið mjög lítið út úr þessum tillögum hjá henni Svandísi [Svavarsdóttur matvælaráðherra]. Það þarf þessa 48 daga og sleppa þessari hugmynd um svæðisskiptingu,“ segir Sævar sem kveðst jafnframt sannfærður um mikilvægi strandveiðanna til að hvetja fleiri í greinina.

48 dagar minnka óvissu

Sævar bendir á að hópur strandveiðisjómanna á Hornafirði sé hægt og rólega að komast á aldur og líklegur til að hætta störfum. Þörf sé á að fjölga yngri strandveiðisjómönnum, en að hefja útgerð er fjárfesting með mikla óvissu þegar veiðar eru stöðvaðar eins snemma og gert hefur verið undanfarin ár.

„Með 48 dögum minnkar öll óvissa og þá myndast möguleiki fyrir ungt fólk að byrja í sjávarútvegi, menn sjá þá kannski ástæðu til að komast inn í þetta og fyrir ungt fólk að geta byrjað í útgerð. Það er bara ekki hægt í dag. Það er verið að bjóða upp kvóta á sex þúsund krónur kílóið í litla kerfinu. Það þarf að vera tækifæri fyrir ungt fólk að komast inn í þetta. Það er ekkert fyrir alla að vera í átta-til-fjögur-vinnu og þetta gefur sveigjanleika í hvernig fólk vinnur fyrir sér, við erum eins mismunandi og við erum mörg,“ útskýrir Sævar.

„Það breyttist mikið hérna á Hornafirði með strandveiðunum. Þá fjölgaði svo mikið bátum,“ segir Hannes og rifjar upp að langflestir ef ekki allir sem höfðu verið í dagakerfinu gamla og fengu kvóta þegar því kerfi var breytt seldu og hættu útgerð.

„Það var algjört klúður, bara ávísun á að menn seldu strax,“ grípur Sævar fram í.

„Það voru mjög fáir smábátar áður en strandveiðarnar byrjuðu en það eru núna um 20 bátar á strandveiðunum,“ segir Hannes og kveðst undrandi á því að ekki sé meiri stuðningur við strandveiðar meðal stjórnmálamanna. „Sjálfstæðismenn gera út á frelsi einstaklingsins, þeir hamra á því. Frelsi einstaklingsins kemur hvergi betur í ljós en að vera trillukarl.“

Hætta á að þekking glatist

Þeir eru sammála um að eins og strandveiðum er háttað nú sé ekki hægt að hafa fulla atvinnu af slíkum veiðum og því flestir sem taka þátt í strandveiðum einnig í öðrum störfum eða í annarri vertíðarvinnu.

Strandveiðarnar geyma einnig mikilvæg verðmæti að mati Hannesar. „Það er bara svo mikil hætta á að þekking glatist. Þetta er góður skóli til að afla sér upplýsinga um miðin og læra á þau.“ Hann bendir einnig á að veiðarnar séu mikilvægar fyrir sveitarfélagið sem hefur meðal annars tekjur af hafnargjöldum af trillum í smábátahöfninni.

Sævar tekur undir og segir skerðingar í útgefnum aflaheimildum í samræmi við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar undanfarin ár hafa gert það að verkum að ekki sé verið að landa fiski á Höfn á sumrin, nema þá strandveiðifiski. Benda þeir feðgar á að með þessu fáist töluverð vinna fyrir fiskmarkaðinn, auk þess sem eru afleidd störf sem tengjast vélsmíði og annað sem verður til í kringum rekstur af þessum toga.

Strandveiðarnar hafa verið mikilvægar fyrir byggðarlagið að mati feðganna.
Strandveiðarnar hafa verið mikilvægar fyrir byggðarlagið að mati feðganna. mbl.is/Gunnlaugur
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 10.12.23 397,62 kr/kg
Þorskur, slægður 10.12.23 379,29 kr/kg
Ýsa, óslægð 10.12.23 223,71 kr/kg
Ýsa, slægð 10.12.23 94,76 kr/kg
Ufsi, óslægður 10.12.23 223,41 kr/kg
Ufsi, slægður 10.12.23 215,85 kr/kg
Djúpkarfi 20.10.23 253,00 kr/kg
Gullkarfi 10.12.23 198,86 kr/kg
Litli karfi 8.12.23 7,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 10.12.23 260,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

10.12.23 Einar Guðnason ÍS 303 Lína
Þorskur 8.435 kg
Ýsa 4.774 kg
Langa 727 kg
Keila 93 kg
Karfi 44 kg
Ufsi 30 kg
Hlýri 16 kg
Steinbítur 7 kg
Samtals 14.126 kg
10.12.23 Eskey ÓF 80 Línutrekt
Þorskur 5.092 kg
Ýsa 2.435 kg
Langa 519 kg
Karfi 13 kg
Keila 12 kg
Ufsi 7 kg
Steinbítur 2 kg
Samtals 8.080 kg

Skoða allar landanir »

Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 10.12.23 397,62 kr/kg
Þorskur, slægður 10.12.23 379,29 kr/kg
Ýsa, óslægð 10.12.23 223,71 kr/kg
Ýsa, slægð 10.12.23 94,76 kr/kg
Ufsi, óslægður 10.12.23 223,41 kr/kg
Ufsi, slægður 10.12.23 215,85 kr/kg
Djúpkarfi 20.10.23 253,00 kr/kg
Gullkarfi 10.12.23 198,86 kr/kg
Litli karfi 8.12.23 7,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 10.12.23 260,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

10.12.23 Einar Guðnason ÍS 303 Lína
Þorskur 8.435 kg
Ýsa 4.774 kg
Langa 727 kg
Keila 93 kg
Karfi 44 kg
Ufsi 30 kg
Hlýri 16 kg
Steinbítur 7 kg
Samtals 14.126 kg
10.12.23 Eskey ÓF 80 Línutrekt
Þorskur 5.092 kg
Ýsa 2.435 kg
Langa 519 kg
Karfi 13 kg
Keila 12 kg
Ufsi 7 kg
Steinbítur 2 kg
Samtals 8.080 kg

Skoða allar landanir »