Sverrir Bergmann segir allt ganga furðu vel

Sverrir Bergmann og Sverrisdóttir.
Sverrir Bergmann og Sverrisdóttir.

Tónlistarmaðurinn Sverrir Bergmann varð faðir í fyrsta sinn þegar hann og sambýliskona hans, Kristín Eva Geirsdóttur, eignuðust dóttur 4. febrúar. Litla stúlkan gengur undir nafninu Litla Sverrisdóttir enda bara rétt rúmlega mánaðar gömul. Sverrir er alsæll í nýju hlutverki. 

„Fyrstu vikurnar eru búnar að vera mjög næs bara. Það var búið að vara okkur við þreytu og svefnleysi þannig að sá pakki kom okkur ekkert á óvart. Við erum líka búin að vera dugleg að senda hvort annað inn í rúm að sofa og stöndum þannig saman í þessu. Einnig höfðum við heimsóknir í algeru lágmarki framan af, bæði út af flensum og faröldrum sem og bara til að gefa okkur tækifæri sjálfum að ná áttum,“ segir Sverrir þegar hann er spurður hvernig fyrstu vikurnar með ungbarn hafa verið.

Meðgangan hefur mikil áhrif á konur líkamlega og andlega en fannst þú einhverjar breytingar á þér á meðgöngunni?

„Já, þetta voru ekki bara hefðbundnir dagar eins og áður. Mitt hlutverk á meðgöngunni var að vera til staðar. Það er mikið sem gengur á á þessum tíma og því nauðsynlegt að vera vakandi fyrir öllu sem getur komið upp á og passa að konunni líði sem allra best.“

Hvernig var að vera á hliðarlínunni í fæðingu?

„Algerlega stórkostlegt! Maður öðlast algerlega nýja sýn á kraftaverkið sem kvenlíkaminn er. Svo er fátt sem getur toppað það að sjá fyrstu andartök barnsins síns.“

Hvað hefur komið þér mest á óvart við föðurhlutverkið?

„Maður veit ekki neitt til að byrja með. Gjörsamlega ekki neitt. Það sem kom mér mest á óvart er hversu fljótt maður verður rólegur í þessu og kann flest handtök. Kúkur, piss, krem og allt það var eitthvað sem ég var alveg viss um að ég myndi klúðra en svo gengur þetta bara furðu vel eftir allt saman.“

Umræðan um kvenfrelsi og jafnrétti kynja hefur sjaldan verið meiri. Hvernig er tilfinningin að bera ábyrgð á uppeldi stúlku næstu 18 árin?

„Þetta er gríðarlegt ábyrgðarhlutverk vissulega. En ég mun reyna eins og ég get að undirbúa hana undir lífið sama í hvaða formi það verður. Jafnrétti er og verður alltaf í miklum forgangi hjá okkur,“ segir Sverrir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert