Biður dóttur sína afsökunar á skilnaðinum

Skilnaður Courteney Cox og David Arquette hafði áhrif á dóttur …
Skilnaður Courteney Cox og David Arquette hafði áhrif á dóttur þeirra. AFP

Leikarinn David Arquette segir að skilnaðurinn við Friends-stjörnuna Courteney Cox árið 2010 hafi reynt á dóttur þeirra. Í spurt og svarað-viðtali á vef The Guardian biður leikarinn hina 16 ára gömlu Coco afsökunar á skilnaðinum. 

Í viðtalinu var hann spurður hvern hann myndi helst biðja afsökunar og af hverju. „Dóttur mína Coco af því að skilnaðurinn var svo erfiður,“ svaraði Arquette stutt og laggott. 

Þau Arquette og Cox biðu lengi eftir dótturinni en þeim gekk erfiðlega að eignast barn. Eftir nokkur fósturlát varð Coco til með hjálp tæknifrjóvgunar. Þrátt fyrir að skilnaðurinn væri erfiður héldu þau Arquette og Cox áfram að vera vinir. Leikarinn kvæntist seinna Christinu McLarty og á tvo syni með henni sem fæddust 2014 og 2017. 

mbl.is