„Þegar ég fékk hana í fangið var þetta allt þess virði“

Tómas Atli Atlason og Ingibjörg Sigfúsdóttir ásamt dóttur þeirra, Emblu …
Tómas Atli Atlason og Ingibjörg Sigfúsdóttir ásamt dóttur þeirra, Emblu Dögg.

Ingibjörg Sigfúsdóttir eignaðist sitt fyrsta barn með kærasta sínum, Tómasi Atla Atlasyni, fyrir tveimur árum. Hana óraði ekki fyrir öllum þeim tilfinningum sem hún átti eftir að upplifa eftir að dóttir hennar, Embla Dögg, kom í heiminn. Hún segir móðurhlutverkið samtímis það besta og mest krefjandi sem hún hafi upplifað. 

Ingibjörg er með BS-gráðu í sálfræði frá Háskólanum í Reykjavík og stundar nú meistaranám í mannauðsstjórnun, en samhliða náminu starfar hún sem flugfreyja hjá Icelandair. Við fengum að skyggnast inn í fjölskyldulíf Ingibjargar sem sagði okkur meðal annars frá meðgöngu, fæðingu og brjóstagjöf dóttur hennar á einlægan máta. 

Ingibjörg og Tómas hittust fyrst í ársbyrjun 2015 þegar þau sátu sama áfanga í Háskóla Reykjavíkur. „Við töluðum þó lítið saman þar, en ég ákvað svo að byrja að fylgja honum á Instagram nokkrum mánuðum síðar og sem betur fer fylgdi hann mér til baka. Það var síðan ekki fyrr en í desember sama ár sem hann bauð mér í bíltúr og höfum við í rauninni verið saman síðan,“ segir Ingibjörg. 

Tómas og Ingibjörg með Emblu Dögg á skírnardaginn.
Tómas og Ingibjörg með Emblu Dögg á skírnardaginn.

Fyrstu vikurnar krefjandi

Ingibjörg hafði fundið það á sér í nokkrar vikur að hún væri ófrísk þegar hún ákvað að taka próf ein heima á föstudagskvöldi. „Ég fór í hálfgerða geðshræringu þegar ég sá að prófið var jákvætt. Þegar Tómas kom heim seinna um kvöldið tók ég á móti honum grenjandi úr gleði með prófið í hendinni. Við vorum stressuð en á sama tíma í algjöru hamingjukasti,“ útskýrir Ingibjörg. 

Fyrstu 17 vikur meðgöngunnar kastaði Ingibjörg upp nánast daglega, en eftir það segir hún meðgönguna hafa gengið vel. „Mér leið mjög vel bæði andlega og líkamlega og æfði reglulega frá 17. til 35. viku. Eftir það byrjaði ég að fara í göngutúra og meðgöngujóga. Ég var vön að hreyfa mig daglega áður en ég varð ólétt svo það að geta stundað hreyfingu alla meðgönguna gerði mikið fyrir andlega heilsu mína,“ segur Ingibjörg.

„Ég átti reyndar alveg smá erfitt með þessar líkamlegu breytingar fyrst, en þegar kúlan byrjaði að myndast og ég fór að finna hreyfingar og spörk var þetta best í heimi,“ bætir hún við. 

Til að byrja með átti Ingibjörg erfitt með líkamsbreytingarnar sem …
Til að byrja með átti Ingibjörg erfitt með líkamsbreytingarnar sem fylgja meðgöngunni, en það breyttist þó fljótt eftir að hún fann fyrstu hreyfingarnar.

„Líklega eitt það erfiðasta sem ég hef upplifað“

Ingibjörg missti vatnið á laugardagsmorgni klukkan tíu, en hún var þó ekki komin í fulla útvíkkun fyrr en um miðnætti. „Ég bjóst alls ekki við því en rembingurinn er líklega eitt það erfiðasta sem ég hef upplifað. Ég var orðin mjög þreytt þarna í lokin og langaði helst að gefast upp, en Embla kom síðan loksins í heiminn með hjálp frá sogklukku aðfaranótt sunnudags, þann 7. mars 2021,“ segir hún. 

„Þegar ég fékk hana svo í fangið var þetta allt …
„Þegar ég fékk hana svo í fangið var þetta allt þess virði.“

Ingibjörg segir lífið sannarlega hafa breyst eftir að hún varð móðir. „Núna er ég ekki bara að hugsa um sjálfa mig heldur er manneskja sem treystir á mig í einu og öllu. Það snýst í rauninni allt um hana og mun erfiðara að gera ráðstafanir en áður,“ segir hún.

„Ég reyni þó að minna sjálfa mig á það að ég þurfi líka að rækta sjálfa mig og geri það með því að hreyfa mig og hitta vinkonur mínar reglulega. Það er nefnilega svo mikilvægt að gleyma ekki sjálfri sér þó svo maður sé orðin mamma. Það gerir okkur alls ekki að verri mæðrum þó við þurfum stundum bara aðeins að komast í burtu og vera annað en „bara mamma“,“ bætir Ingibjörg við. 

Brjóstagjöfin hafði mikil áhrif á andlegu hliðina

Aðspurð segir Ingibjörg allar tilfinningarnar sem fylgja móðurhlutverkinu hafa komið sér á óvart, og að á sama tíma og móðurhlutverkið sé það besta í heiminum geti það oft líka verið mjög krefjandi. 

Fjölskyldan alsæl í sundi.
Fjölskyldan alsæl í sundi.

„Þegar ég var ólétt bjóst ég til dæmis aldrei við því hvað brjóstagjöfin getur verið krefjandi og haft mikil áhrif á andlegu hliðina. Brjóstagjöfin hjá okkur gekk vel fyrstu vikurnar, en hún fór síðan að hafna brjóstinu sem mér þótti mjög erfitt og upplifði mikla höfnun. Ég endaði á því að hætta með hana á brjósti þegar hún var 10 vikna og var það mjög erfið ákvörðun en líklega sú besta í stöðunni fyrir okkur báðar, þótt ég hafi ekki séð það á þeim tíma,“ útskýrir Ingibjörg. 

„Ég hafði miklar áhyggjur af því að við myndum ekki tengjast nægilega vel þar sem hún yrði ekki á brjósti, en ég hafði svo sannarlega rangt fyrir mér því í dag er hún að verða tveggja ára og hefur alltaf verið algjör mömmustelpa. Mér finnst mjög mikilvægt að ræða þetta þar sem ég veit að ég er ekki ein í þessum sporum og margar mæður sem eiga erfitt með brjóstagjöfina. Við sjáum auðvitað og heyrum meira um góðu hliðarnar á brjóstagjöf, en svo þegar maður fer að ræða þetta upphátt þá eru svo margir sem eru á sama máli,“ bætir hún við. 

„Það er auðvitað frábært ef brjóstagjöf gengur vel og öllum …
„Það er auðvitað frábært ef brjóstagjöf gengur vel og öllum líður vel, en það er alls ekki það versta ef móðir ákveður að hætta með barnið á brjósti ef það er henni og barninu fyrir bestu. Umræðan mætti vera opnari, það hefði verið hollt fyrir mig á sínum tíma.“

„Mikilvægt að hlúa að okkur líka“

Ingibjörgu þykir mikilvægt að verðandi mæður séu meðvitaðar um tilfinningaskalann sem fylgir móðurhlutverkinu. „Þessar tilfinningar eru svo eðlilegar og þrátt fyrir að við séum komnar með þetta fullkomna barn í hendurnar þá erum við ekkert endilega alltaf á bleiku skýi og fyrstu mánuðirnir geta tekið svo mikið á, bæði andlega og líkamlega. Það er því mikilvægt að gleyma sjálfum sér ekki og hlúa að okkur líka,“ segir Ingibjörg. 

Í uppeldinu leggja Ingibjörg og Tómas áherslu á að dóttir þeirra sé sjálfstæð og hafi trú á sjálfri sér. „Ég vona að hún vilji alltaf koma til mín og segja mér frá því ef eitthvað er að, og að hún þurfi aldrei að fela neitt,“ segir Ingibjörg. 

Það er margt spennandi fram undan hjá fjölskyldunni, en þau fluttu í september og fóru í framkvæmdir sem þau eru að klára hægt og rólega. „Við Embla eigum síðan afmæli í mars, ég verð þrítug og hún tveggja ára, svo mars er stór mánuður hjá okkur fjölskyldunni,“ segir Ingibjörg. 

Mæðgurnar í góðum gír í sólinni.
Mæðgurnar í góðum gír í sólinni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert