„Vorum búin að búa okkur andlega undir tæknifrjóvgun“

Þórunn Helga Jóhannesdóttir og Jökull Jónasson ásamt syni þeirra, Matthíasi …
Þórunn Helga Jóhannesdóttir og Jökull Jónasson ásamt syni þeirra, Matthíasi Þór Jökulssyni. Ljósmynd/Ína María Einarsdóttir

Flugfreyjan Þórunn Helga Jóhannesdóttir og unnusti hennar, Jökull Jónasson, höfðu reynt að eignast barn í eitt og hálft ár og voru byrjuð að búa sig undir tæknifrjóvgunarferli þegar þau fengu loksins jákvætt þungunarpróf í apríl 2020.

Það kom þeim svo verulega á óvart þegar Þórunn varð óvænt ófrísk aftur í nóvember síðastliðnum, tæplega tveimur árum eftir að sonur þeirra, Matthías Þór Jökulsson, kom í heiminn. Þórunn og Jökull eiga von á sínu öðru barni í júlí. Hún segir að aðdragandi fyrstu þungunarinnar hafi verið tilfinningarússíbani og að það hafi verið mikil upplifun að upplifa heimafæðingu. 

Fjölskyldan í góðum gír í sólinni, en þau vita fátt …
Fjölskyldan í góðum gír í sólinni, en þau vita fátt betra en að ferðast og skapa minningar saman.

Þórunn er 28 ára gömul og starfar hjá Icelandair sem flugfreyja og kennari fyrir flugfreyjur og flugþjóna. Samhliða því stundar hún nám í mannfræði við Háskóla Íslands og mun útskrifast með BA-gráðu þaðan í júní.

Í frítíma sínum nýtur Þórunn þess að hreyfa sig, slaka á og eyða tíma með fjölskyldunni sinni. Hún veit fátt betra en að ferðast með fjölskyldunni og skapa dýrmætar minningar með þeim, en fjölskyldan er einmitt stödd í Flórída í Bandaríkjunum um þessar mundir. 

Mæðginin Matthías og Þórunn.
Mæðginin Matthías og Þórunn.

Rómantískt bónorð í Central Park

Leiðir Þórunnar og Jökuls lágu saman sumarið 2014, en þá hittust þau reglulega á flugvellinum í Keflavík þar sem Þórunn starfaði í farþegaafgreiðslunni hjá Icelandair og Jökull sem flugþjónn. Það var þó ekki fyrr en þau hittust í brekkunni á Þjóðhátíð sama sumar sem alvara færðist í leikinn. 

„Við byrjuðum að SMS-ast aðeins eftir Þjóðhátíð og tókum svo rúnt sem var eiginlega fyrsta stefnumótið. Síðan þá höfum við nánast verið saman upp á dag, en við urðum mjög fljótt hrifin hvort af öðru og ég var nánast flutt inn til hans eftir að við höfðum verið að hittast í mánuð,“ rifjar Þórunn upp.

„Við trúlofuðum okkur svo eftir að hafa verið saman í 10 mánuði, en Jökull bað mín þegar við vorum í lautarferð í Central Park í New York,“ bætir hún við. 

Mánaðarlegu þungunarprófin mikill kvíðavaldur

Þórunn hafði fengið neikvæð þungunarpróf í eitt og hálft ár þegar hún varð ófrísk af Matthíasi. „Við höfðum verið frekar lengi að reyna að eignast barn og vorum búin að setja okkur í samband við Livio ef til þess kæmi að við þyrftum að fara í tæknifrjóvgun. Ég var líka byrjuð á lyfjum sem geta örvað egglosið,“ segir Þórunn.

„Við þurftum þó ekki að fara í tæknifrjóvgun en vorum búin að undirbúa okkur andlega undir það,“ bætir hún við. 

Að sögn Þórunnar tekur það mjög mikið á andlega líðan að ganga í gegnum erfiðleika við barneignir. „Það að taka mánaðarlegu þungunarprófin var orðinn mikill kvíðavaldur fyrir mig og ég var mjög sorgmædd þá daga sem ég tók prófin. Þegar ég fékk svo loksins jákvætt próf í apríl 2020 bjóst ég ekki við öðru en að fá neikvætt próf enn og aftur og átti því enga von á því að í þetta skiptið yrði það jákvætt,“ útskýrir hún.

„Það helltust strax yfir mig fullt af tilfinningum – gleði, hamingja, sjokk og stress. Ég fór svo fram og sagði Jökli að ég væri með smá gjöf fyrir hann og rétti honum þungunarprófið. Hann tók bara utan um mig og við grétum saman og héldum utan um hvort annað í langan tíma. Við trúðum þessu hvorug enda tók ég þungunarpróf á hverjum degi í átta daga áður en ég þorði að trúa þessu,“ bætir hún við.

Þórunn lýsir miklum tilfinningarússíbana sem fylgdi því að fá loksins …
Þórunn lýsir miklum tilfinningarússíbana sem fylgdi því að fá loksins jákvætt þungunarpróf. Ljósmynd/Gunnar Jónatansson

„Bjóst aldrei við því að ég gæti orðið ólétt svona óvænt“

Þórunn segir upplifunina að komast að því að hún væri ófrísk í seinna skiptið hafa verið allt öðruvísi, enda hafi það ekki verið í plönunum að eignast annað barn alveg strax. „Ég var að fylgjast með tíðahringnum mínum í símaforriti sem heitir Flo og fékk tilkynningu um að ég væri orðin þremur dögum of sein. Ég spáði ekkert mikið í því þar sem ég hafði ekki verið mjög regluleg síðustu tíðahringa og tengdi þessa óreglu bara við brjóstagjöfina,“ segir Þórunn.

„Ég ákvað samt að taka óléttupróf sem varð strax jákvætt. Þegar Jökull kom heim úr vinnunni þennan dag þá sagði ég honum frá þessu og við fórum bæði bara að skellihlæja. Eftir að hafa reynt í eitt og hálft ár með Matthías þá bjóst ég einhvern veginn aldrei við því að ég gæti orðið ólétt svona óvænt og án þess að vera að reyna það,“ bætir hún við. 

Þórunn tengdi óreglulegan tíðahring í fyrstu við brjóstagjöfina, en það …
Þórunn tengdi óreglulegan tíðahring í fyrstu við brjóstagjöfina, en það kom henni verulega á óvart þegar hún fékk jákvætt þungunarpróf.

Andlega hliðin betri á seinni meðgöngunni

Þótt meðgöngur Þórunnar hafi verið ólíkar segir hún þær báðar hafa verið dásamlegar á sinn hátt. „Mér finnst andlega hliðin vera betri á þessari meðgöngu, en það er vegna þess að þegar ég varð ólétt í fyrra skiptið var heimsfaraldurinn í gangi og mikil hræðsla og kvíði sem fylgdi honum,“ segir Þórunn.

„Á fyrri meðgöngunni hafði ég allan tímann í heiminum fyrir sjálfa mig. Þá var ég ekki að vinna vegna kórónuveirufaraldursins, ekki í fullu námi og ekki með lítinn orkubolta á heimilinu. Að því leytinu er þessi meðganga mjög ólík þeirri fyrri, en tíminn líður mjög hratt á þessari meðgöngu og ég er ekki að fatta að ég sé komin 28 vikur á leið núna,“ útskýrir hún.

Þórunn er gengin 28 vikur á leið.
Þórunn er gengin 28 vikur á leið.

Heilt yfir segir Þórunn seinni meðgönguna hafa gengið mjög vel og líðanin góð bæði andlega og líkamlega. „Ég verð að viðurkenna að ég gleymi stundum að ég sé ólétt. Það er kannski svolítið þannig þegar maður er með tveggja ára gaur á heimilinu sem krefst mikillar athygli,“ segir Þórunn og hlær.

„Ég fékk örlitla ógleði í tvær til þrjár vikur þegar ég var gengin átta vikur á leið, en það jafnaði sig fljótt. Ég reyni að vera dugleg að næra mig og hreyfa mig, en mín helsta hreyfing þessa dagana eru göngutúrar. Mér finnst líka mikilvægt að slaka á og það besta sem ég geri er að fara í heitt bað á kvöldin,“ bætir hún við.

Þakklát fyrir góða heimafæðingu

Matthías kom í heiminn á fallegum desemberdegi árið 2020 í stofunni heima hjá Þórunni og Jökli. „Ég er svo þakklát að geta sagt að fæðingin mín var þvílík drauma heimafæðing og allt ferlið fór nákvæmlega eins og ég hafði óskað mér,“ segir Þórunn.

„Kvöldið fyrir settan dag vorum við Jökull að horfa á bíómyndir til klukkan fimm um morguninn. Ég man að ég hugsaði með mér að það væri alveg týpískt að ég myndi fara af stað snemma um morguninn af því við hefðum farið svo seint að sofa þetta kvöld, eða þessa nótt, og ég myndi því vera þreytt og ósofin í fæðingunni,“ rifjar Þórunn upp.

Klukkan átta um morguninn vaknaði Þórunn eftir þriggja tíma svefn til þess að fara á klósettið. „Ég missti vatnið hressilega yfir allt baðherbergisgólfið og vakti Jökul sem fór beint að pumpa lofti í laugina sem við höfðum fengið frá heimafæðingarljósmóðurinni. Ég var mjög róleg þar sem engir verkir voru byrjaðir, en svo klukkan níu byrjuðu verkirnir að koma og þeir voru mjög fljótir að aukast og verða reglulegir,“ segir Þórunn.

„Heimafæðingarljósmóðirin og mamma komu svo til okkar og fljótlega eftir það fór ég ofan í laugina. Mér leið mjög vel í lauginni, fann fyrir miklu öryggi og hafði góða stjórn á verkjunum. Jökull hélt í höndina mína allan tímann, í gegnum alla verkina og minnti mig reglulega á haföndunina sem við höfðum lært á fæðingarnámskeiði,“ bætir hún við.

„Stuðningurinn sem ég fékk frá Jökli í gegnum ferlið var …
„Stuðningurinn sem ég fékk frá Jökli í gegnum ferlið var ómetanlegur og skipti mig mjög miklu máli.“

Var tengdur við fylgjuna í tvo tíma eftir fæðingu

Fljótlega eftir að Þórunn fór ofan í laugina hófst rembingurinn og klukkan 13:14, eða um fimm klukkutímum eftir að hún missti vatnið, kom Matthías í heiminn. 

„Tilfinningin að fá barnið sitt í fangið í fyrsta sinn er tilfinning sem ég mun aldrei gleyma. Þetta var svo falleg stund þar sem við foreldrarnir störðum bæði í augun á litla fullkomna drengnum okkar og brostum og grétum. Ég var líka svo stolt af sjálfri mér eftir þessa mögnuðu og valdaeflandi upplifun,“ segir Þórunn.

„Jökull hafði stillt símanum sínum upp á þrífót og náði að taka alla fæðinguna upp. Ég er honum svo ævinlega þakklát fyrir það enda horfði ég á myndbandið nokkrum sinnum á dag fyrstu dagana eftir fæðinguna og horfi stundum ennþá á það í dag,“ bætir hún við. 

Skemmtileg mynd sem sýnir fyrstu meðgöngu Þórunnar og að lokum …
Skemmtileg mynd sem sýnir fyrstu meðgöngu Þórunnar og að lokum Þórunni með frumburðinn í fanginu. Ljósmynd/Gunnar Jónatansson

Eftir fæðinguna fór Þórunn inn í svefnherbergi þar sem Matthías tók brjóst í fyrsta sinn. „Ég fæddi svo fylgjuna en Matthías var ennþá tengdur henni þá. Fylgjan var svo sett í skál og það var lítið stress á því að klippa á milli. Mér finnst gaman að segja frá því að hann hafi verið tengdur við fylgjuna sína í tvo tíma eftir fæðinguna en þá fyrst klippti Jökull á milli,“ segir Þórunn.

„Við Jökull lágum svo saman uppi í rúmi með stráknum okkar á meðan ljósmóðirin og mamma gengu frá öllu frammi. Þegar ég fór svo fram stuttu seinna þá voru engin ummerki um að það hafi verið fæðing í gangi í stofunni okkar nokkrum klukkustundum áður,“ rifjar hún upp.

„Skrítnasta tilfinningin var svo þegar ljósmóðirin og mamma voru báðar …
„Skrítnasta tilfinningin var svo þegar ljósmóðirin og mamma voru báðar farnar og allt í einu vorum við þrjú, litla fjölskyldan, ein eftir heima.“

„Í dag snýst lífið fyrst og fremst um hann“

Spurð hvað hafi komið henni mest á óvart við móðurhlutverkið segir Þórunn það vera hvað lífið hafi breyst mikið, en á yndislegan hátt. Hún segir forgangsröðunina á öllu í lífinu jafnframt hafa breyst eftir að hún varð mamma, enda séu flestar ákvarðanir sem hún tekur í dag teknar með Matthías í huga.

„Mér finnst oft skrítið að hugsa til þess hvernig lífið mitt var áður en ég eignaðist barn. Í dag snýst lífið fyrst og fremst um hann og maður hefur lítinn tíma fyrir sjálfan sig. Ég reyni að vera dugleg að gera eitthvað fyrir sjálfa mig líka og sá tími er dýrmætur, en á sama tíma finnst mér allur tíminn sem fer í að vera með barninu mínu og að sjá um hann miklu dýrmætari og skemmtilegri,“ segir Þórunn.

Matthías alsæll í fanginu á mömmu sinni.
Matthías alsæll í fanginu á mömmu sinni.

Þegar kemur að uppeldinu hafa Þórunn og Jökull tileinkað sér það að bera virðingu fyrir tilfinningum Matthíasar. „Hann er á aldrinum þar sem hann er að upplifa margar nýjar tilfinningar eins og til dæmis sorg, tilhlökkun og reiði. Mér finnst mikilvægt að sýna honum skilning þegar hann er að tjá þessar tilfinningar. Ég reyni líka að ræða tilfinningarnar við hann svo hann geri sér sjálfur grein fyrir því hvað hann sé að upplifa,“ útskýrir Þórunn.

„Við leggjum líka mikla áherslu á að gera uppbyggilega hluti með honum sem eru líka skemmtilegir. Pabbi hans er til dæmis mjög duglegur að fræða hann um náttúruna og dýrin. Við erum núna stödd í fjölskyldufríi í Flórída og það fyrsta sem Matthías biður um á morgnanna er að taka göngutúr og skoða fiskana, eðlurnar og íkornana,“ segir Þórunn.

Að lokum þykir Þórunni mikilvægt að mæður og verðandi mæður séu duglegar að minna sig á að þær séu að standa sig vel. „Það er oft mjög gott að fá ráð og ábendingar frá öðrum en móður innsæið veit alltaf best. Það er mikilvægt að treysta eigin innsæi og fylgja því.“

Þórunn segir mikilvægt að Matthías fái að tjá tilfinningar sínar, …
Þórunn segir mikilvægt að Matthías fái að tjá tilfinningar sínar, en þau Jökull leggja mikla áherslu á að sína honum skilning og ræða um tilfinningar við hann.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert