Binni Glee „í sjokki“ á Tene

Binni Glee er í sinni fyrstu ferð á Tenerife.
Binni Glee er í sinni fyrstu ferð á Tenerife. Skjáskot/Instagram

Áhrifavaldurinn og raunveruleikastjarnan Brynjar Steinn Gylfason, betur þekktur sem Binni Glee, er í sinni fyrstu ferð á Tenerife um þessar mundir. Binni er hrifinn af eyjunni fögru en sagði í beinni útsendingu á Instagram í gær að hann væri í sjokki yfir því að klukkan væri það sama á Tenerife og á Íslandi. 

„Ég er líka alveg í sjokki, skilurðu, klukkan er það sama og Íslandi. Er það ekki alveg skrítið? ég er næstum því alveg hjá afríku en samt er klukkan það sama og á Íslandi,“ sagði Binni. Binni þarf þó ekki að vera í áfalli mikið lengur því klukkunni verður breytt aðfaranótt sunnudagsins næsta og verður þá Tenerife einni klukkustund á undan Íslandi. 

Líkt og ferðavefur mbl.is greindi frá í gær er Binni ásamt fríðu föruneyti á Tenerife en strákarnir úr raunveruleikaþáttunum Æði flugu út í gærmorgun. Af beinu útsendingunni að dæma eru tökur framundan á næstu seríu Æði en leikstjóri þáttanna Jóhann Kristófer Stefánsson er með þeim úti ásamt framleiðsluteymi.

Hópurinn dvelur á hinu mjög svo fjölskylduvæna íbúðarhóteli Hovima La Pinta Beachfront í Adeje, en hótelið var meðal annars á lista ferðavefsins yfir fjölskylduvæn hótel á Tenerife. Binni, Bassi Maraj og Patrekur Jamie deila íbúð á hótelinu og sýndi Binni frá því að þeir Patrekur deildu herbergi á meðan Bassi var einn í herbergi. 

Binni sagði einnig í myndbandinu að hann væri mjög heillaður af Tenerife en lýsti reyndar ströndinni sem „low-key“ Nauthólsvík.

View this post on Instagram

A post shared by BRYNJAR (@binniglee)

mbl.is