„Mér finnst fólk mun hressara“

Sigurður K. Kolbeinsson er eigandi Ferðaskrifstofu eldri borgara.
Sigurður K. Kolbeinsson er eigandi Ferðaskrifstofu eldri borgara. Samsett mynd

Sigurður K. Kolbeinsson, eigandi Ferðaskrifstofu eldri borgara, byrjaði að fara með eldri borgara í aðventuferðir til Kaupmannahafnar árið 2004. Hann segir starfið sérstaklega gefandi og hefur meðal annars séð vinasambönd myndast í ferðunum. 

Sigurður flutti til Danmerkur árið 2001 og bjó þar til ársins 2019. Hann þekkti því gömlu herraþjóðina vel þegar hann byrjaði að taka á móti Íslendingum fyrir tæpum 20 árum

„Þessar ferðir voru upphaflega settar í gang af manni sem heitir Emil Guðmundsson sem er að verða níræður á þessu ári og starfaði í 55 ár fyrir Icelandair, var einn af fyrstu hótelstjórum Loftleiða. Hann kom þessum ferðum á og svo tókum við við keflinu. Þetta var alltaf ein ferð en nú eru þær fjórar,“ segir Sigurður og segir að í kjölfarið hafi hann farið að þróa hugmyndir að fjölbreyttum ferðum fyrir eldri borgara.

„Við leggjum til það sem hinn almenni ferðamaður myndi ekki vilja hafa, eins og matur öll kvöld. Þú sendir ekki eldri borgara út í borg eins og Kaupmannahöfn eða Stokkhólm og segir honum að finna sér veitingastað. Fólkið vill hafa þægindin. Við erum með mat innan veggja hótelsins eða í næstu byggingu. Fólkið vill hafa hæfilegt prógramm. Það vill hafa örugga íslenska ferðaleiðsögn og ferðaumsjón,“ segir Sigurður. Það er misjafnt hvort fararstjórinn flýgur út með fólkinu.

„Sjálfur er ég nýkominn heim frá Kaupmannahöfn, ég var þar í fjórar vikur með fjóra hópa af eldri borgurum. Þá tók ég á móti þeim á Kastrup. Það tók því ekki að fara heim á milli.“

Í aðventuferð í Kaupmannahöfn.
Í aðventuferð í Kaupmannahöfn. Ljósmynd/Aðsend

Mikil vinátta skapast

Sigurður segir að félagslegi þátturinn í ferðunum sé einna skemmtilegastur. Fólk hittir iðulega gamla vinnu- eða skólafélaga. Umræðuefnið er þá gjarnan barnabörnin eða heilsan. Sterk vinabönd eiga það til að myndast í ferðunum.

„Fólk situr heima með sparnaðinn sinn, það hefur ekki mikið að gera, það fer ekki til vinnu, það er ekki með börn á framfæri lengur. Það er ekkert skemmtilegra fyrir það en að ferðast ef það hefur heilsu til. Ég á eina sögu af tveimur konum, önnur er fædd 1954 og hin 1933 – nánast kynslóð á milli. Þær urðu svo miklar vinkonur að þær fóru í fjórar ferðir hjá okkur saman á 14 mánaða tímabili á árunum 2021 til 2022,“ segir hann.

„Þau elstu sem hefur farið eru um nírætt en algengasti aldurinn er 70 til 80 ára. Ef við tökum neðri mörkin þá er fólk farið að skrá sig sem er fætt 1955 til 1960. Það er rétt komið yfir sextugt en það er reyndar sjaldgæfara. Flestir eru orðnir 67 ára,“ segir Sigurður og leggur áherslu á að fólk verði að vera nokkuð hraust til þess að fara í ferðir af þessu tagi. Þrátt fyrir að það séu rútuferðir á milli staða þurfi fólk að geta gengið nokkur hundruð metra.

Sigurður K. Kolbeinsson.
Sigurður K. Kolbeinsson. Ljósmynd/Aðsend

Samfélagið annað í dag

Finnur þú mun á eldra fólki þegar þú varst að byrja og í dag?

„Mér finnst fólk mun hressara. Tæknin er allt annars eðlis. Fyrir um tíu árum gátum við ekki sent tölvupósta til neins. Við þurftum að senda allt í bréfpósti og hringja. Í dag er milli 80 og 90 prósent af okkar farþegum sem nýta sér tækni. Þau geta notað netið og skoðað heimasíður. Svo er annað að efnahagurinn virðist betri en áður.“

Hvað er vinsælast?

„Það sem hefur verið vinsælast er tvennt. Það eru Færeyjar, við vorum með fjórar ferðir þangað síðustu ár auk nokkurra sérferða. Svo eru það aðventuferðir til Kaupmannahafnar. Þær eru alltaf fullar,“ segir Sigurður.

„Í ár erum við að bæta við áfangastað eins og Stokkhólmi sem við höfum aldrei verið með áður,“ segir Sigurður en segist aðspurður ekki vera með ferðir til Tenerife. „Við erum ekki þar sem hinir eru. Ekki Tenerife, ekki golf og ekki skíði. Það er svona mottóið hjá mér.“

Sigurður segir að fólk eigi að njóta lífsins meðan það …
Sigurður segir að fólk eigi að njóta lífsins meðan það getur ekki sitja á sparnaði sínum. Ljósmynd/Aðsend

Ingólfur var lærimeistarinn

Sigurður er 62 ára. Hann hefur unnið í ferðageiranum í mörg ár og brennur fyrir rekstrinum sem hann er í. Hann segist ekki vera byrjaður að telja niður til starfsloka.

„Ég segi við vini mína: Spyrjið mig hvað ég verð að gera eftir tíu ár. Ég er fullur af krafti. Ég hef komið víða við og á langan starfsferil að baki. Ég vann upphaflega sem ungur maður hjá Ingólfi Guðbrandssyni, þangað sótti ég reynsluna. Hann var goðsögn í íslenskri ferðaþjónustu.

Þar vann ég á sumrin og seldi sólarlandaferðir 1980 og 1981 þegar ég var að klára menntaskóla. Ég lærði mikið af þeim manni af því hann hafði eitt markmið og var að gera verkamanninum eða lægst launaða launþeganum í landinu kleift að ferðast til Spánar í tvær vikur á ári,“ segir Sigurður. Hann segir þessa reynslu sitja í sér á þann hátt að hann vilji gera eldra fólki kleift að ferðast á spennandi staði.

Í Færeyjum.
Í Færeyjum. Ljósmynd/Aðsend
Grænland.
Grænland. Ljósmynd/Aðsend
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »