Styrktartónleikar fyrir Ólaf

Ólafur Þórðarson.
Ólafur Þórðarson.

Einu tónleikarnir í ár á fyrirhugaðri Þjóðlagahátíð Reykjavíkur - Reykjavik Folk Festival, sem Ólafur Þórðarson, tónlistarmaður, kom á laggirnar í fyrra, verða haldnir miðvikudagskvöldið 13. apríl n.k. í Háskólabíó og hefjast kl. 20.

Ólafur hafði skipulagt mun fleiri tónleika á hátíðinni, en hann liggur meðvitundarlaus  á Grensásdeild Landsspítalans eftir að hafa orðið fyrir miklum höfuðmeiðslum í árás á heimili sínu í nóvember.

Vinir Ólafs og samstarfsmenn til margra ára hafa tekið höndum saman og ákveðið að ganga inn í skipulagsvinnu Ólafs og halda tónleika í Háskólabíói undir merkjum hátíðarinnar en að öllu leyti honum sjálfum til styrktar.  Í tilkynningu segir, að Ólafur hafi verið einyrki og rekið umboðsfyrirtækið Þúsund þjalir og unnið í hlutastarfi í Ríkisútvarpinu Rás 1 en þetta áfall, þjálfun og endurhæfing framundan,  hafi haft miklar fjárhagslegar afleiðingar í för með sér.

Allir sem koma að undirbúningi, ljósum og hljóðvinnslu, að ekki sé talað um listamennina sjálfa, gefa vinnu sína og hvetja alla til þess að sækja þessa einstöku tónleika.

Meðal þeirra sem fram koma eru Kristján Jóhannsson, Kristján Kristjánsson KK,  Bubbi Mortens, Björgvin Halldórsson, Savanna tríóið, Ríó tríóið, Hörður Torfason, Diddú,  Óperukórinn og fjöldi óperusöngvara, Egill Ólafsson, Gæðablóðin, Raggi Bjarna og Þorgeir Ástvalda, Gunnar Þórðarson, Guitar Islancio, South River Band, Guðrún Gunnarsdóttir og útvarpsbandið og Örn Árnason.  Þorsteinn Guðmundsson verður kynnir á tónleikunum.    

mbl.is

Bloggað um fréttina