Býðst til að hanna kjól á Bebe Rexha frítt

Bebe Rexa mun án efa taka sig vel út í ...
Bebe Rexa mun án efa taka sig vel út í kjól frá Michael Costello. skjáskot/Instagram

Bandaríski hönnuðurinn Michael Costello hefur boðist til að hanna og sauma kjól á tónlistarkonuna Bebe Rexha án endurgjalds. Rexha sem tilnefnd var til Grammy-verðlauna opnaði sig á Instagram í gær og sagði að enginn hönnuður hefði viljað sérhanna kjól handa henni því hún væri „of stór“. Málið hefur vakið nokkra athygli en Rexha notar föt í stærðunum 6 og 8. 

TMZ ræddi við Costello á götum Los Angeles í gær en þau Rexha eru góðir vinir. Hann sagðist vera leiður yfir því að hún hafi ekki haft samband við sig strax því hann hefði hannað á hana kjól. 

„En ég býð mig samt fram til að hanna á Bebe. Ég verð skammaður fyrir að segja þetta en, ég stend með henni. Til fjandans með hina hönnuðina sem vilja bara hanna á stelpur í stærð 2 eða stelpurnar sem eru að kynna verðlaunin eða þær sem eru tilnefndar,“ sagði Costello. 

Costello er enginn nýgræðingur þegar kemur að því að hanna föt á stjörnur en hann hannaði meðal annars kjól Beyoncé fyrir Grammy-verðlaunahátíðina árið 2014, þegar hún fór heim með þrenn verðlaun. 

Beyoncé á Grammy-verðlaunahátíðinni árið 2014 í kjól frá Michael Costello.
Beyoncé á Grammy-verðlaunahátíðinni árið 2014 í kjól frá Michael Costello. JOE KLAMAR
mbl.is