„Gyrði mig í brók og vil gera betur og betur“

Hera Björk tekur þátt í Söngvakeppninni 2019.
Hera Björk tekur þátt í Söngvakeppninni 2019. Ljósmynd/Aðsend

Söngkonan Hera Björk Þórhallsdóttir er enginn nýgræðingur þegar kemur að Eurovision. Hún flytur lagið Eitt andartak, sem hún samdi í samvinnu við Örlyg Smára og Valgeir Magnússon, á fyrra undanúrslitakvöldi Söngvakeppninnar 2019, laugardaginn 9. febrúar.

Af hverju Eurovision?

„Fyrir mér er Eurovision bara eins og jólin, eintóm gleði og skemmtun. Tími með fjölskyldunni, tími með vinunum og gaman að horfa saman. Ég persónulega sem tónlistarkona hef rosalega gaman af keppninni. Ég kynnist nýju fólki af sama sauðahúsi, fólki með svipuð áhugamál og ástríður. Eurovison ýtir alltaf við mér, veitir oft og tíðum innblástur og gerir það að verkum að ég gyrði mig í brók og langar til að gera betur og betur og vera með í partýinu,“ segir Hera Björk.  

Hvernig hófst vinnan við lagið?

„Alvöruvinnan við lagið hófst svona með vorinu. Þá fannst okkur, mér, Valla og Örlygi Smára, vera kominn grundvöllur fyrir því að prófa aftur. Núna erum við á þeim stað í lífinu að við höfum tíma til að hittast, græja og gera. Og þegar maður fer að hittast þá kemur maður sér alltaf í vandræði með nýjum og spennandi verkefnum. Heildarhugmyndin sem lagið snýst um kom upp á borð, þessi saga mín um mína „innivinnu“ sem mig langar til að miðla. Örlygur samdi nokkur lög, við völdum eitt og unnum áfram með það og nú er það klárt til að kynna fyrir þjóðinni.“

Besta Eurovision-minningin?

„Ég á svo margar æðislegar að ég á erfitt með að gera upp á milli. Margar úr minni barnæsku þegar ég var að fylgjast með, ég tengi þessa keppni við margar góðar stundir með fjölskyldu og vinum. Mínar persónulegu uppáhalds eru klárlega fyrst þegar ég keppti í Danmörku með frábæru fólki og Danirnir urðu svo skotnir í mér að þeir skelltu mér í annað sætið, það var „sweet“.

Svo var geggjað að lenda sama ár í öðru sæti með Jóhönnu Guðrúnu úti í Moskvu, ég sem sagt átti svolítið annað sætið árið 2009. Að komast upp úr undanriðlinum og í úrslitin þegar ég var sjálf að keppa fyrir Íslands hönd árið 2010 var mögnuð tilfinning og ég var mjög stolt af mínu fólki. Að fá að vera á sínum forsendum og fá að segja sína sögu er það sem alla tónlistarmenn dreymir um og það er magnað að fá slíkt tækifæri. Að fá hlustunina. Mannsröddin er svo magnað fyrirbæri og þegar maður hefur sögu að segja þá gerast galdrarnir. Og því fylgir ábyrgð þannig að ég þarf að geta staðið undir því sem ég er að segja og syngja um.“

Hverju vonar þú að lagið skili til áhorfenda?

„Ég vona að áhorfendur upplifi eitthvað sterkt og helst eitthvað gott/vont. Ef áhorfandinn getur speglað sig í sögunni og tengir við hana þá er ég glöð. Við eru öll með innri rödd sem á það til að vera hundleiðinlegur dragbítur og neikvæð sem við þurfum að díla við og verkefni flestra er að díla við þetta og hitt sjálft og setja því mörk því öll viljum við yfirleitt frekar vera í vellíðan en vanlíðan. Ég er ákaflega stolt af þessu lagi og þessum texta og vona að fólk hrífist með en ef ekki er það líka allt í lagi, þetta er bara tónlistarsmekkur og við erum öll með einn og fæstir eins. Ef það væri bara einn tónlistarsmekkur í boði væri framboðið á tónlist frekar fátæklegt.“

Uppáhalds-Eurovision-lagið?

„Ég get ekki svarað. Þau eru svo mörg. Ég get nefnt Karen Karen, Lífið er lag, Nína, All Kinds of Everything. Ég er enn mjög ánægð með mín lög Je Ne Sais Quoi og Someday og svo eru This is My Life, Is it TrueEuphoria, All out of luck og fleiri og fleiri sem eru í miklu uppáhaldi.“  

Hvernig gengur undirbúningurinn fyrir Söngvakeppnina?

„Undirbúningurinn gengur mjög vel, ég er með frábært teymi. Ég bý að þeirri reynslu að hafa gert þetta áður svo ég veit út í hvað ég er að fara og er bara nokkuð róleg og hlakka mikið til.“

Hvað hefur komið þér mest á óvart i tengslum við Eurovision-ferlið?

„Á þessum tímapunkti er erfitt að svara þessari spurningu þar sem Eurovioson-ferlið er bara rétt að byrja. En það sem kemur mér alltaf mikið á óvart ár eftir ár er þegar fólk er ekki að fíla eitthvað og sest alveg sérstaklega niður og eyðir dýrmætum tíma og orku í að drullumalla. Mér finnst alltaf jafn magnað að fólk setji tíma og ástríðu sína í slíkt, þetta er jú bara Euovision og er ætlað til skemmtunar. Ef þú elskar ekki Eurovison þá bara horfir maður á eitthvað annað. Svona eins og þegar maður elskar ekki grænar baunir, þá borðar maður bara eitthvað annað.“

Getur Ísland unnið Eurovision og hvar ætti að halda keppnina?

„Ísland getur klárlega unnið Eurovision-keppina og er búið að sýna það og sanna. Það er alltaf möguleiki og þegar það gerist að þá reddum við þessu. Annaðhvort höldum við þetta undir berum himni í júní á Þingvöllum eða notum einhverja af þessum frábæru íþróttahöllum í Kópavogi. Ef Justin Bieber getur komið og verið með tónleika þá getum við haldið Eurovision og hana nú.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson