Verður Jóhannes Haukur í Hatarabúningi?

Jóhannes Haukur kynnir stigin í Eurovision í ár. Hann segir …
Jóhannes Haukur kynnir stigin í Eurovision í ár. Hann segir það ábyrgðarhluta. Mynd/Haraldur Jónasson-Hari

Jóhannes Haukur Jóhannesson var ekki lengi að ákveða sig þegar honum bauðst að vera stigakynnir í Eurovision. Helsta markmið hans er að ganga í augun á börnunum sínum.

Stóra spurningin er hins vegar þessi: verður hann í Hatarabúningi þegar hann kynnir stigin?

„Ég ætla að ráðfæra mig við börnin mín þrjú. Ég veit að þau verða ánægð með pabba sinn ef hann er stigakynnir, því þau fylgjast alltaf spennt með keppninni en ég gæti skemmt þetta ef ég fer að mæta þarna í leðurgrímu,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Hann útilokar alls ekki að klæðnaður hans lokakvöldið muni endurspegla yfirbragð íslenska atriðisins.

Hann segist hafa tekið tilboðinu fús þegar hann áttaði sig á tækifærinu sem í því fólst. „Foreldrar kannast allir við að mjög erfitt er að vera töff í augum barna sinna. Maður grípur hvert tækifæri sem býðst til þess,“ segir hann. Að vera stigakynnir í Eurovision segir Jóhannes að sé mjög töff.

Má ekki misnota embættið

Hann segir þetta þó ábyrgðarhluta og að alls ekki megi misnota þetta embætti. „Ég kannast við það sjálfur þegar ég er að horfa að þegar stigakynnar eru að reyna að vera með einhverja tilburði þá fýkur í mann. Á þessum tímapunkti vill fólk bara fá stigin í hús og vita úrslitin,“ segir hann. Engar málalengingar.

Auðvitað er þetta freistandi. Meiriháttar vettvangur fyrir spaug. „Aðaláskorunin er að standast þá freistingu að gera eitthvað úr þessu,“ segir Jóhannes. „Ég einset mér að hafa þetta bara fumlaust. Áfram með smjörið. Kynna stigin,“ segir hann.

Eina reglan að vera ekki í grænu

Freistandi, segir hann, jú, frelsi hans er töluvert. „Einu reglurnar sem ég hef fengið frá RÚV eru að ég megi ekki vera í grænu, því það verður greenscreen fyrir aftan mig,“ segir hann. Hann má sjálfur ráða í hverju hann verður og, sem segir að ofan, útilokar hann ekki að Hataravísana muni gæta í ásýnd sinni, enda sé hann mikill Hataramaður.

„Ég held í alvöru að við getum unnið. Ég trúi því í hjarta mínu,“ segir hann. Hann hafi horft á undankeppnina í gær og stokkið hæð sína af gleði þegar niðurstöðurnar lágu fyrir.

Sigurstranglegur Hatari, segir hann. „Ég er ekki búinn að sjá neitt nema það sem var í undankeppninni en ég segi samt, að öðrum ólöstuðum, var þar ekki um auðugan garð að grisja,“ segir hann loks.

Edda Sif Pálsdóttir sjónvarpskona kynnti stigin í fyrra. Þá var Ísland ekki í úrslitum.

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Fólk heillast auðveldlega af þér í dag. Þú átt eftir að sjá rautt í kvöld, en mundu að telja upp að tíu áður en þú opnar munninn.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Fólk heillast auðveldlega af þér í dag. Þú átt eftir að sjá rautt í kvöld, en mundu að telja upp að tíu áður en þú opnar munninn.