Uppspuninn bliknar í samanburði

Úr uppfærslu Borgarleikhússins í Álaborg á Fanný og Alexander eftir …
Úr uppfærslu Borgarleikhússins í Álaborg á Fanný og Alexander eftir Ingmar Bergman í nýrri leikgerð og leikstjórn Egils Heiðars Antons Pálssonar. Ljósmynd/Allan Toft

„Ég ætla ekki að segja að þetta sé einsdæmi hjá mér, en það er vissulega sjaldgæft að vera að frumsýna þrjár stórar sýningar í beit. Það er ekki eitthvað sem er alltaf á boðstólum,“ segir Egill Heiðar Anton Pálsson um síðustu vikur og mánuði sem verið hafa í annasamara lagi fyrir hann. Frá því í vor hefur hann samhliða unnið að leikstjórn þriggja ólíkra sýninga í þremur borgum í tveimur löndum. Um er að ræða They Called Her Nico sem frumsýnd var í Volksbühne í Berlín í júní, Fanný og Alexander eftir Ingmar Bergman í nýrri leikgerð Egils sem frumsýnd var í Borgarleikhúsinu í Álaborg í síðustu viku við góðar viðtökur, eins og sjá má í ramma hér til hliðar, og De befriede (Hinir frelsuðu) eftir Lucas Svensson sem frumsýnd verður hjá Østerbro Teater í Kaupmannahöfn 30. október.

„Þetta voru alltof freistandi og skemmtilegir hlutir til að ég gæti látið verkefnin frá mér. Tilviljun réð því að þetta raðaðist svona þétt og fyrir vikið er ég nánast orðinn meistari í tímaflakki,“ segir Egill kíminn, sem samhliða leikstjórninni sinnir störfum sem prófessor í leikstjórn við Ernst-Busch-leiklistarháskólann í Berlín þar sem hann býr.

Barátta Nico við íhaldssemi

Spurður um They Called Her Nico segir Egill um tónleikhússýningu hafa verið að ræða sem unnin var í samstarfi við leik- og söngkonuna Christin Nichols, leikskáldið Martin Waldman og hljómsveitina The Entourage Noir. „Þegar Christin og Martin leituðu til mín um að leikstýra sýningunni var ég að leikstýra í Tromsø í Norður-Noregi. Við notuðum því Skype og unnum nótt sem nýtan dag til að setja saman handrit í kringum ákveðin lög og ævi Nico,“ segir Egill og vísar þar til Christu Päffgen sem nefnd var Nico. Egill rifjar upp að Nico hafi verið fyrsta þýska súpermódelið, leikið í kvikmyndinni La Dolce Vita (1960) í leikstjórn Federico Fellini, verið músa Andy Warhol og sungið með The Velvet Underground.

Leikstjórinn Egill Heiðar Anton Pálsson.
Leikstjórinn Egill Heiðar Anton Pálsson. Ljósmynd/Stig Brondbo

„Verkið rekur ekki ævi hennar í réttri röð heldur unnum við með ákveðin þemu úr lífi hennar, s.s. ímyndarleikina sem hún notaði og baráttu hennar gegn íhaldssemi samfélagsins,“ segir Egill og rifjar upp að hópurinn hafi aðeins haft tvær vikur til æfinga í Berlín og fengið einn dag á stóra sviði Volksbühne til að koma tveggja klukkustunda sýningu á svið. „Góður undirbúningur og frábært samstarfsfólk gerði það að verkum að þetta small allt,“ segir Egill og rifjar upp að viðtökur hafi verið mjög góðar. 

Samtímis því sem Egill var að leikstýra tveimur sýningum í N-Noregi fyrr á árinu skrifaði hann nýja leikgerð á Fanný og Alexander eftir Bergman sem margir þekkja í kvikmyndaformi frá 1982 og sjónvarpsþáttaröðinni frá 1983. „Það eru til margar leikgerðir á þessum efniviði sem farið hefur í marga hringi og því fannst mér mikilvægt að leita aftur í grunninn,“ segir Egill og vísar þar til nóvellu eftir Bergman sem nefnist Fanný og Alexander og Amanda.

„Í sjálfsævisögu sinni Laterna Magica segir Bergman frá uppvexti sínum sem einkennist af miklu harðræði föður hans. Nóvellan er, eins og sjálfsævisagan, öllu óritskoðaðri, grófari og vægðarlausari en bæði kvikmyndin, sjónvarpsþættirnir,“ segir Egill og tekur fram að lykillinn að sínum lestri á verkinu hafi legið í því að „ég-ið“ í nóvellunni sé ekki Alexander 11 ára heldur Bergman sem fullorðinn maður. „Sökum þessa fara tveir fullorðnir leikarar með hlutverk Fannýjar og Alexanders í uppfærslunni og nota brúður í raunstærð,“ segir Egill og bendir á að Alexander sýningarinnar útskýri fyrir áhorfendum snemma kvölds að um sé að ræða sýningu um minningar.

Úr Fanný og Alexander. Notaðar eru dúkkur í raunstærð til …
Úr Fanný og Alexander. Notaðar eru dúkkur í raunstærð til að túlka hlutverk systkinanna. Ljósmynd/Allan Toft

„Alexander Ekdhal ákveður að leikstýra fyrir okkur áhorfendur, með hjálp fjölskyldu sinnar sem er leikhúsfjölskylda, æskuminningum sínum sem tengjast mjög erfiðum tíma í lífi fjölskyldunnar,“ segir Egill og rifjar upp að hann hafi setið fyrir svörum áhorfenda eftir síðustu rennslin fyrir frumsýningu og fengið sterk viðbrögð. „Áhorfendur hrifust af frásagnarforminu sem blandar saman epísku frásagnarleikhúsi og dramatískum átökum. Fólki fannst líka gaman að láta koma sér á óvart með upplýsingum sem aðeins er að finna í nóvellunni og ekki í sjónvarpsþáttunum,“ segir Egill og tekur fram að hann sé afkomendum Bergman, sem fara með höfundarétt verka hans, þakklátur því frelsi sem þeir gefa listafólki til að vinna með verkin.

Kallar á listrænt tilhugalíf

„Rétthafar höfundarverka hans eru allt leikhúsfólk og þeim dettur ekki í hug að skipta sér af listrænni útkomunni, sem er þakkarvert en því miður alltof sjaldgæft,“ segir Egill sem sett hefur upp fleiri verk Bergman, m.a. Brot úr hjónabandi, Persónu og Tjaldið fellur. „Það var agalega erfitt að eiga við réttindamálin þegar ég leikstýrði Hver er hræddur við Virginiu Woolf? eftir Edward Albee fyrir nokkrum árum. Oft eru ættingjarnir jafnvel miklu verri en sjálfur höfundurinn. Ritskoðendur forlaganna sem annast höfundarétthafamálin eru síðan ennþá verri,“ segir Egill og nefnir í því samhengi verk Samuels Beckett.

Margrét Vilhjálmsdóttir og Hilmir Snær Guðnason í Hver er hræddur …
Margrét Vilhjálmsdóttir og Hilmir Snær Guðnason í Hver er hræddur við Virginiu Woolf? eftir Edward Albee í leikstjórn Egils Pálssonar sem Borgarleikhúsið sýndi 2016. Ljósmynd/Grímur Bjarnason

Aðspurður segir Egill reglulega fylgjast með sýningum sínum til að sjá hvernig þær þróist. „Frumsýningarvikuna er ég smám saman að sleppa tökum af sýningunni, enda verður hún að fá að þróast og þroskast í höndum leikhópsins. Ef grunnurinn er rétt lagður þá halda sýningarnar alltaf áfram að þróast í rétta átt og verða með tímanum betri en þegar ég skildi við þær. Það er alltaf rosalega gaman og í raun það sem að er stefnt. Lykillinn að leikstjórn felst í því að kveikja á ímyndunarafli allra sem að sýningunni koma og leyfa öllum að eiga sína hlutdeild í sköpunarferlinu, því það tryggir að listafólkið standi vörð um listaverkið sem er búið til.“

Og hvernig gerir þú það?

„Það krefst listræns tilhugalífs við efniviðinn og samstarfsfólkið. Ég held að ég hafi lært það með árunum að það er ástæða fyrir því að við erum með tvö eyru en aðeins einn munn. Ef við lærum að hlusta tvöfalt meira en við tölum þá skilar það betri árangri,“ segir Egill kíminn.

Framundan er þriðja frumsýning Egils á aðeins fimm mánuðum, en þriðja árið í röð er hann að vinna með sænska leikskáldinu Lucas Svensson hjá Østerbro Teater í Kaupmannahöfn. „Fyrir þremur árum gerðum við umfangsmikla sýningu sem spannaði 100 ára sögu Danmerkur þar sem fjórir leikarar léku 63 hlutverk. Lucas skrifaði handrit upp á 300 síður sem ég vann síðan mína leikgerð upp úr. Í fyrra settum við upp Síðustu 100 daga Mussolinis þar sem samband hans við listamanninn Giovacchino Forzano var í forgrunni. Mér finnst mjög gott að vera djúpt inni í handritsmálum, hvort heldur það eru ný verk, nýjar leikgerðir á eldri verkum eða kvikmyndum, svo bæði konseptið og handritið passi saman. Mér finnst rannsóknarvinnan mjög skemmtileg,“ segir Egill og tekur fram að De befriedesé þar engin undantekning. Líkt og titilinn gefur til kynna fjallar verkið um hernám Þjóðverja í Danmörku í seinni heimsstyrjöld.

Úr sýningunni Síðustu 100 dagar Mussolinis sem Egill Heiðar Anton …
Úr sýningunni Síðustu 100 dagar Mussolinis sem Egill Heiðar Anton Pálsson setti upp hjá Østerbro Teater í Kaupmannahöfn í fyrra. Ljósmynd/Søren Meisner

Fjallar um mjög erfiðan tíma

„Í sýningunni eru sex sögur tvinnaðar saman. Verkið hefst á því að gamall kennari finnst myrtur árið 1981. Það vekur athygli rannsóknarlögreglumannanna að kennarinn var skotinn í hægra augað með byssu af gerðinni Luger Parabellum sem nasistar notuðu á stríðsárunum. Hjá líkinu finnst listi með nöfnum sem skrifuð eru aftan á kvittun frá fatahreinsun sem dagsett er 5. maí 1945 þegar hernáminu lauk formlega í Danmörku,“ segir Egill og tekur fram að fjórir leikarar bregði sér í yfir 40 hlutverk í sýningunni. Við sögu komi Werner Best, SS-foringi og landstjóri Þjóðverja í Danmörku; Adolf Eichmann, yfirmaður þriðja ríkisins í málefnum gyðinga, og danska fegurðardrottningin, blaðamaðurinn og kvikmyndastjarnan Inga Arvad sem tók tvö viðtöl við Adolf Hitler, var ástkona Johns F. Kennedy og nefnd tvisvar í dagbókum Jósefs Göbbels, áróðursmeistara nasista.

„Þýska hernámið í Danmörku er bæði umdeilt og skrýtið, sem helgast af því að Danmörk var frekar eins og nýlenda heldur en hernumin þjóð. Best hafði staðið fyrir útrýmingu gyðinga í Frakklandi og Póllandi, en þegar hann kom til Danmerkur ákvað hann að stjórna með mjúkri hendi, enda var hann ótrúlega slægur og pólitískur refur. Hann gerði sér grein fyrir því að árangursríkasta leiðin til að stjórna bæði dönsku borgarastéttinni og verkalýðnum væri að taka upp samstarf við danska sósíaldemókrata í stað danskra nasista,“ segir Egill og rifjar upp að samstarf Thorvalds Stauning, sem var forsætisráðherra Danmerkur 1929-42, við Þjóðverja hafi ávallt verið harðlega gagnrýnt.

„Verkið fjallar því um tíma sem er Dönum mjög erfiður á sama tíma og við reynum að setja fortíðina í samhengi við samtímann,“ segir Egill og bendir á að Best hafi verið dæmdur í fangelsi í Danmörku eftir stríð, en flutt heim til Þýskalands 1951 eftir að hann var náðaður. „Þar gekk hann til liðs við Kristilega demókrata í V-Þýskalandi og starfaði til dauðadags sem lögfræðingur þar sem hann varði iðulega aðra nasista,“ segir Egill og tekur fram að uppspuninn í Lucasi Svensson blikni í samanburði við sögulegar staðreyndir.

Á ólík tímabil sem leikstjóri

Að sögn Egils er uppsetning De befriedehluti af áherslu leikhússtjóra Østerbro Teater á söguleg verk þetta leikárið. „Leikhópurinn sem ég er að vinna með frumsýnir þannig 3. október nýtt verk um Lehman Brothers í leikstjórn Peters Langdal. Báðar uppfærslur eiga það sameiginlegt að þær eru að reyna að útskýra hvers vegna efnahagurinn og þjóðremban er aftur orðin eitur í samfélagi okkar. Til að skilja það þarf að rekja hlutina aftur í fortíðina og setja í samhengi.“

Þú notar sögumenn bæði í De befriede og Fanný og Alexander. Er það aðferð í leikhúsi sem þér finnst mest spennandi nú um stundir?

„Þetta er góð spurning. Ég hef átt ólík tímabil sem leikstjóri. Sem stendur hef ég mestan áhuga á því að segja þessar stærri sögur og draga ekki dul á að leikhúsið er staður þar sem sögur eru sagðar. Í mörg ár var ég upptekinn af „deconstruction“ eða anduppbyggingu, en venti kvæði mínu í kross og að uppbyggingunni. Ég held að fólk hafi miklu meiri þörf fyrir samhengi heldur en ósamhengi. Ég held að hinar stóru sögur geti frekar sameinað okkur,“ segir Egill og rifjar upp að hann hafi unnið með pólitískt leikhús bæði undir merkjum leikhópanna Mindgroup hérlendis og Fix & Foxi í Kaupmannahöfn.

„Fyrir efnahagshrunið var ég upptekinn af því að draga fram sannleikann um pólitíkina sem afhjúpaðist í raun í hruninu og rataði á forsíður blaðanna. Í framhaldinu fór ég að skoða hvernig einstaklingnum líður inni í samfélaginu. Hluti af því var sýningin Hver er hræddur við Virginiu Woolf? þar sem ég var að skoða hvernig við færum átökin inn á heimilið og berjumst þar,“ segir Egill og bendir á að sviðsgerðir hans á öllum kvikmyndum Johns Cassavetes á síðustu árum séu einnig liður í þessu, en þar sé um að ræða sögur án plotts sem drifnar eru áfram af tilfinningalegri frásögn.

Framtíðarsögur kalla á mig

„Á tímum vaxandi þjóðerniskenndar finnst mér mikilvægt að segja sögur sem ná betur utan um okkur og útskýra samfélagsstrúktúrinn í heild sinni,“ segir Egill og bendir á að Himnaríki og helvíti hafi verið hluti af þessari skoðun á samtímanum. „Önnur nýleg sýning er Tidens korthed (Stytting tímans) sem ég vann í N-Noregi. Þar var alþjóðavæðingin skoðuð út frá ævi sjófarans Jens Munk sem 1620 sigldi norðvesturleiðina til Indlands gegnum Íshafið,“ segir Egill og bendir á að De befriede dragi upp mynd af því hvað gerist „þegar hefðbundnir stjórnmálaflokkar eiga í samtali við þjóðernisflokka. Það er ekki hægt að eiga í samtali við fólk sem er með heimsyfirráða- og þjóðerniskenndar hugmyndir um sjálft sig“, segir Egill og tekur fram að framtíðarsögur verði sennilega næst fyrir valinu hjá sér.

Síðasta leikstjórnarverkefni Egils Pálssonar á Íslandi var Himnaríki og helvíti …
Síðasta leikstjórnarverkefni Egils Pálssonar á Íslandi var Himnaríki og helvíti í Borgarleikhúsinu 2019 þar sem Þuríður Blær Jóhannsdóttir lék drenginn. Ljósmynd/Grímur Bjarnason

„Bæði útópíur og distópíur,“ segir Egill og tekur fram að framtíðarsögurnar tengist þeim miklu breytingum sem nú séu að verða í heiminum þar sem „mannkynið stendur frammi fyrir umhverfishamförum, valdamikil ríki heims eru í kapphlaupi um yfirráð yfir norðurheimskautinu og olíukapítalisminn er á leið inn í rosalega krísu í tengslum við þá grænu byltingu sem virðist hafin samtímis því sem kapítalisminn daðrar við þjóðernisöflin. Undir þeim kringumstæðum eru það framtíðarsögur sem kalla á mig.“

„Hugmyndarík uppfærsla“

Viðtökur danskra gagnrýnenda við uppfærslu Borgarleikhússins í Álaborg á Fanný og Alexander eftir Bergman í nýrri leikgerð og leikstjórn Egils Heiðars Antons Pálssonar hafa verið mjög góðar. Otto Pretzmann rýnir hjá Nordjyskegefur uppfærslunni fullt hús og segir þetta klassíska verk eftir Bergman „meistaralega leyst í uppfærslu leikhússins í Álaborg“.
Úr Fanný og Alexander í leikstjórn Egils.
Úr Fanný og Alexander í leikstjórn Egils. Ljósmynd/Allan Toft
Trine Wøldiche rýnir Informationsegir uppfærsluna gríðarlega vel heppnaða þar sem hún „gefi kvikmynd Bergman nýtt líf“ og Agli takist að skapa bæði dýnamíska og „lifandi sviðsetningu“.
Tonny Olausen hjá Kulturtidgefur uppfærslunni fimm af sex stjörnum. „Þetta er hugmyndarík uppfærsla þar sem frammistaða leikaranna er í öndvegi í samblandi við einfalda leikmynd og frásagnaraðferð sem kemur á óvart, þar sem hinn fullorðni Alexander horfir aftur til æsku sinnar og gefur von um að við munum öll lifa hana af þegar við viðurkennum hversu lítið við sem fullorðin í reynd vitum.“

Kasper Dam Nielsen hjá Iscenesegir Egil koma „vel undirbúinn til leiks og hafi lært af forverum sínum; minnisbók hans um leiklistaraðferðir hlýtur að vera jafnþykk og biblían og hann nýtir aðferðirnar vel og hugvitssamlega í allri sýningunni.“

Michael Hansen hjá Kulturlebengerir í dómi sínum að umtalsefni viðtal við leikstjórann í leikskránni þar sem Egill bendir á samsömun milli eigin æsku og æsku Alexanders, en eftir erfiðan skilnað móður leikstjórans „valdi hún nýjan mann og stjúpa fyrir börnin. Mann sem var hvorki góður fyrir hana né börnin,“ skrifar Hansen og tekur fram að það finnist skýrt í uppfærslunni að efni sýningarinnar standi leikstjóranum nærri. „Það er sjaldan sem maður fær að sjá leikstjóra setja svo kröftugar og áhrifaríkar hugmyndir á flug. Og það virkar. Sýningin er í natúralískum og kröftugum leik grípandi og tilfinningarík. Allir leika litríkar persónur sínar þannig að þær fara undir húðina á okkur og allt ber þess merki, á jákvæðan hátt, að leikstjórinn hafi vitað hvað hann vildi.“

Stine Kjølby Christensen hjá Mig og Aalborg lýsir Agli sem hæfileikaríkum leikstjóra og segir sýninguna „uppfulla af viðkvæmum augnablikum, grimmum örlögum og næstum óbærilegri sögu drengs, sem á fullorðinsárum neyðist til að horfast í augu við æskuáföllin.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson