Ólafur Haukur heiðursverðlaunahafi

Ólafur Haukur Símonarson
Ólafur Haukur Símonarson mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Það er auðvitað gaman að fá svona viðurkenningu og mér þykir vænt um það. Það gleður mig að fólk skuli líta svo á að ég hafi skilað leikhúsinu einhverju sem er þess virði að minnast á. Ég er líka þakklátur fyrir að fólk skuli enn muna eftir mér, enda eru nokkur ár síðan verk eftir mig hafa verið á fjölunum,“ segir Ólafur Haukur Símonarson sem í fyrr í kvöld tók við heiðursverðlaunum Sviðslistasambands Íslands 2022 fyrir framúrskarandi ævistarf í þágu sviðslista á Íslandi.

Ólafur Haukur stundaði nám í hönnun, bókmenntum og leikhúsfræðum í Kaupmannahöfn og Frakklandi, og hóf svo starfsferil sinn hjá RÚV, þar sem hann gerði heimildamyndir um íslenskt þjóðlíf, en frá árinu 1976 hefur hann eingöngu sinnt skáldskap, ritstörfum og þýðingum. Hann hefur setið í stjórnum og ráðum ýmissa félaga og samtaka, var formaður Leikskáldafélags Íslands í þrettán ár, sat í stjórn STEFs og gegndi embætti varaforseta leikskáldanefndar Alþjóðaleiklistarsambandsins um árabil. Hann hefur setið í verkefnavalsnefnd Leiklistarhátíðarinnar í Bonn og var leikhússtjóri Alþýðuleikhússins um tíma. Hann er einn af stofnfélögum Rithöfundasambands Íslands, þar sem hann gegndi varaformennsku í átta ár og var nýlega útnefndur heiðursfélagi Rithöfundasambandsins.

Húmorinn aldrei langt undan

Þegar Ólafur Haukur var kynntur á svið Þjóðleikhússins var rifjað upp að hann hefði skrifað tugi leikverka „sem notið hafa mikillar hylli leikhúsáhorfenda, bæði söngleiki, gamanleiki, ádeiluverk og hádramatísk leikrit. Húmorinn er þó aldrei langt undan og lyftir jafnan verkum hans í hæstu hæðir. Auk leikritanna liggur eftir hann mikill fjöldi skáldsagna, smásagna, barna- og unglingabóka, söngtexta og laga, þar á meðal sumar af vinsælustu barnaplötum allra tíma,“ sagði m.a. í kynningunni.

Ólafur Haukur Símonarson er heiðursverðlaunahafi Sviðslistasambands Íslands 2022.
Ólafur Haukur Símonarson er heiðursverðlaunahafi Sviðslistasambands Íslands 2022. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Meðal leikrita Ólafs Hauks á löngum og farsælum ferli eru Blómarósir (1978), Kötturinn sem fer sínar eigin leiðir (1984), Kjöt (1989), Gauragangur (1993), Þrek og tár (1995), Kennarar óskast (1996), Græna landið (2003), Fólkið í blokkinni (2008), Bílaverkstæði Badda (1987) og Hafið (1992), en tvö síðastnefndu verkin voru kvikmynduð við góðar undirtektir. Fyrir verk sín hefur Ólafur Haukur hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar, m.a. tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs og Norrænu leikskáldaverðlaunanna.

Þúsundföld tilfinningasprengja

Spurður hvort hann eigi góð ráð handa ungum leikskáldum í dag segir Ólafur Haukur það auðvitað persónulega ákvörðun hvers og eins hvort hann eða hún velji „að eyða tíma í eitthvað sem ekki er tryggt að verði barn í brók“ enda geti margt klikkað í ferlinu öllu. Hins vegar fer hann ekki leynt með að listrænn ávinningur sé mikill þegar vel tekst til. „Ég hef gefið út fullt af bókum. Þegar bókin er komin í band og út á markað þá fylgir því engin sérstök tilfinning.

Annað gildir þegar þú sem leikskáld situr í sal fullum af fólki sem er að horfa og hlusta á uppfærslu á verki eftir þig og þú finnur að leikhúsgestir tengja við efnið og hrífast með einhverjum hætti, annaðhvort í sorg eða gleði. Þá upplifur maður þúsundfalda tilfinningasprengju. Það er svo ótrúlegt að fólk geti sameinast í tilfinningum inni í lokuðum, myrkvuðum sal þar sem allir eru tilbúnir að taka þátt í samlifun með fólki sem er að látast uppi á sviði. Galdur leikhússins er alveg ótrúlegur. Þú upplifir þetta hvergi annars staðar í neinni annarri listgrein, nema kannski einstaka sinnum á tónleikum.“

Nánar er rætt við Ólaf Hauk á menningarsíðum Morgunblaðsins á morgun, miðvikudag. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson