Fyrsta innanlandssmitið í um tvo mánuði

Kórónuveiran Covid-19 | 26. júní 2020

Fyrsta innanlandssmitið í um tvo mánuði

Um 70 hafa verið sendir í sóttkví í tengslum við tvö staðfest kórónuveirusmit Íslendinga, annað hjá knattspyrnukonu í Breiðabliki en hitt hjá starfsmanni í atvinnuvega- og sjávarútvegsráðuneytinu. 

Fyrsta innanlandssmitið í um tvo mánuði

Kórónuveiran Covid-19 | 26. júní 2020

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir að litið sé á innanlandssmit sem …
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir að litið sé á innanlandssmit sem hugsanlega hópsýkingu. Víðtækar skimanir fara í hönd. mbl.is/Kristinn Magnússon

Um 70 hafa verið sendir í sóttkví í tengslum við tvö staðfest kórónuveirusmit Íslendinga, annað hjá knattspyrnukonu í Breiðabliki en hitt hjá starfsmanni í atvinnuvega- og sjávarútvegsráðuneytinu. 

Um 70 hafa verið sendir í sóttkví í tengslum við tvö staðfest kórónuveirusmit Íslendinga, annað hjá knattspyrnukonu í Breiðabliki en hitt hjá starfsmanni í atvinnuvega- og sjávarútvegsráðuneytinu. 

Smitið hjá ráðuneytisstarfsmanninum er rakið til knattspyrnukonunnar og er það fyrsta innanlandssmit kórónuveirunnar á Íslandi frá því um mánaðamótin apríl og maí. Knattspyrnukonan hafði verið í Bandaríkjunum, þar sem hún átti samskipti við smitaðan einstakling. Smitið á milli þessara tveggja íslensku einstaklinga er því fyrsta innanlandssmitið í um tvo mánuði, eins og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn staðfestir í samtali við mbl.is.

„Við tökum þetta mjög alvarlega,“ segir Víðir. „Við horfum á þetta sem hugsanlega hópsýkingu og erum að vinna þetta samkvæmt því.“

Verið að tala við mjög marga

Um 15 ráðuneytisstarfsmenn eru farnir í sóttkví og smitrakning stendur áfram yfir vegna beggja smitanna. Verið er að senda fleiri í sóttkví og Víðir segir að farið verði lengra aftur í tímann en venjan er vegna sérstakra aðstæðna.

„Við erum að tala við mjög marga í augnablikinu. Síðan erum við að undirbúa víðtæka skimun á þeim sem tengjast þessum smitum,“ segir hann. Það er ekki samkvæmt venju að fólk sem fer í sóttkví vegna samskipta við smitaðan fari endilega í skimun, en Víðir segir aðstæðurnar kalla á það. Skimanirnar hefjast á morgun og standa yfir næstu daga, enda verður sýnataka í sumum tilvikum ekki marktæk fyrr en að nokkrum dögum liðnum frá samskiptum við smitaðan.

Víðir leggur áherslu á að umrædd knattspyrnukona hafi sýnt mikla ábyrgð í málinu. „Hún hefur hjálpað okkur mjög mikið og lét okkur vita um leið og hún fékk upplýsingar sjálf. Síðan hefur hún unnið þetta í góðu samstarfi við okkur,“ segir Víðir og bætir við að gríðarlegt áfall sé að greinast með kórónuveiruna og ekki síður að fjallað sé um það í fjölmiðlum.

Unnið eftir sama verklagi og í Vestmannaeyjum og á Bolungarvík

Í kjölfar frétta sendu Almannavarnir frá sér tilkynningu. Hún er svohljóðandi:

Tvö tilfelli hafa nú verið staðfest innanlands af COVID-19. Í morgun greindist annað tilfelli sem talið er að tengist því sem staðfest var í gær. Fyrra tilfellið er upprunnið erlendis en hið seinna innanlands. Er þetta fyrsta innanlandssmitið síðan um miðjan maí. Áætlað er að yfir 200 manns þurfi að fara í sóttkví. Unnið er að smitrakningu og er málið meðhöndlað sem hugsanleg hópsýking á höfuðborgarsvæðinu.

Unnið er samkvæmt sams konar verklagi og gert var þegar hópsýkingar áttu sér stað í Vestmannaeyjum, Bolungarvík og á Hvammstanga. Í undirbúningi er skimun á mjög stórum hópi fólks sem tengist málinu í samstarfi við heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Íslenska erfðagreiningu.

Almannavarnir brýna fyrir almenningi að huga að einstaklingsbundnum smitvörnum og ítreka tilmæli til þeirra Íslendinga sem koma frá útlöndum að fara með gát fyrst um sinn, jafnvel þótt sýnataka hafi verið neikvæð í landamæraskimun.

Áréttað er að krafa um sóttkví í 14 daga heldur gildi sínu óháð niðurstöðu ef farið er í  sýnatöku meðan á sóttkví stendur.

mbl.is