Vextir hækkaðir um 0,25 prósentustig

Vextir á Íslandi | 23. nóvember 2022

Vextir hækkaðir um 0,25 prósentustig

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka vexti bankans um 0,25 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 6%.

Vextir hækkaðir um 0,25 prósentustig

Vextir á Íslandi | 23. nóvember 2022

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Golli

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka vexti bankans um 0,25 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 6%.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka vexti bankans um 0,25 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 6%.

„Verðbólga jókst lítillega á ný í október og mældist 9,4%. Verðhækkanir eru á breiðum grunni og undirliggjandi verðbólga hefur áfram aukist. Gert er ráð fyrir að verðbólga verði að meðaltali 9,4% á síðasta fjórðungi ársins en taki svo smám saman að hjaðna og verði um 4½% á síðasta ársfjórðungi 2023,“ segir í tilkynningu frá bankanum.

Fram kemur að gengi krónunnar hafi lækkað frá síðasta fundi peningastefnunefndar í október, auk þess sem verðbólguálag á skuldabréfamarkaði til lengri tíma hafi hækkað nokkuð. Vísbendingar séu jafnframt um að kjölfesta verðbólguvæntinga í verðbólgumarkmiði bankans hafi veikst. Þess vegna gæti tekið lengri tíma en ella að ná verðbólgu í markmið.

„Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði 5,6% í ár. Horfur fyrir næsta ár hafa batnað og nú er spáð 2,8% hagvexti í stað 1,9% í ágúst. Skýrist það af horfum um hraðari vöxt innlendrar eftirspurnar en áður var talið. Spenna á vinnumarkaði er enn töluverð þótt heldur hafi dregið úr henni,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir einnig að peningastefnunefnd muni áfram tryggja að taumhald peningastefnunnar sé nægjanlegt til að verðbólga hjaðni í markmið innan ásættanlegs tíma.

„Peningastefnan mun á næstunni ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga. Ákvarðanir í atvinnulífi, á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum munu skipta miklu um þróun vaxta á næstu misserum.“

mbl.is