„Þetta pakkadæmi er barns síns tíma“

Jóla jóla ... | 24. desember 2022

„Þetta pakkadæmi er barns síns tíma“

Lena Magnúsdóttir, stjórnandi hlaðvarpsins Ekkert rusl, segir sorglegt að sjá fréttir um troðfulla Sorpu eftir jólin. Sjálf ætlar hún ekki að pakka inn gjöfum í ár. Í staðinn ætlar fjölskyldan að gefa upplifun.

„Þetta pakkadæmi er barns síns tíma“

Jóla jóla ... | 24. desember 2022

Lena Magnúsdóttir segir ekki nauðsynlegt að gefa pakka
Lena Magnúsdóttir segir ekki nauðsynlegt að gefa pakka mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lena Magnúsdóttir, stjórnandi hlaðvarpsins Ekkert rusl, segir sorglegt að sjá fréttir um troðfulla Sorpu eftir jólin. Sjálf ætlar hún ekki að pakka inn gjöfum í ár. Í staðinn ætlar fjölskyldan að gefa upplifun.

Lena Magnúsdóttir, stjórnandi hlaðvarpsins Ekkert rusl, segir sorglegt að sjá fréttir um troðfulla Sorpu eftir jólin. Sjálf ætlar hún ekki að pakka inn gjöfum í ár. Í staðinn ætlar fjölskyldan að gefa upplifun.

Umhverfisvernd hefur verið Lenu lengi hugleikin eða allt frá því hún var unglingur. „Ég átti erfitt með að vera lengi í sturtu eða setja mikið sjampó í hárið á mér þar sem ég hafði áhyggjur af vatninu og hvert öll sápan skilaði sér. Á þessum aldri var ég strax búin að átta mig á því að sjórinn tæki ekki endalaust við eiturefnum og rusli,“ segir Lena.

Á jólunum, eins og allra aðra daga, hugsar Lena um umhverfið. „Ég hef reynt að endurvinna allan pappír síðan ég byrjaði að búa, ein jólin pakkaði ég öllu inn í dagblöð. Einnig var ég með rauðar slaufur á jólatrénu í mörg ár sem ég straujaði árlega. Ekkert fór til spillis og var notað aftur og aftur. Nú á ég reyndar meira af dóti og þarf ekkert meira.“

Það er jólalegt hjá Lenu þrátt fyrir að hún kaupi …
Það er jólalegt hjá Lenu þrátt fyrir að hún kaupi ekki nýtt skraut á hverju ári. Eggert Jóhannesson

Upplifanir í stað pakka

„Ég er mikið jólabarn og hef alltaf átt yndisleg jól. Fyrstu minningarnar mínar eru af jólunum hjá ömmu og afa í Helgamagrastræti sem voru svo skemmtileg og fjölmenn. Þar voru pakkar út um allt og þegar við vorum búin að taka utan af pökkunum þurfti fimm svarta ruslapoka undir allt ruslið. Ég pældi ekki mikið í því þá en fór að vera meðvituð um þetta þegar ég fór sjálf að búa og eignast börn. Ég er svo heppin að foreldrar mínir eru mjög neyslugrannir og ég hef lært mikið af þeim í gegnum tíðina og við höfum aldrei keypt neinn óþarfa,“ segir Lena.

Lena eins árs á jólunum í fangi móður sinnar.
Lena eins árs á jólunum í fangi móður sinnar. Ljósmynd/Aðsend

„Ef þú heldur að þú ætlir að nota hlutinn þá skaltu gefa hann,“ sagði faðir Lenu við hana einu sinni þegar hún flutti og reyndist ráð hans afar gott. Lena segir ekki nógu gott að halda að maður ætli að nota eitthvað. „Af því að ef þú heldur að þú ætlir að nota hlutinn þá fer hann í geymsluna. Þannig verða geymslur oft fullar af dóti sem þú heldur að þú ætlir að nota í framtíðinni en safnast bara upp og gleymist. Miklu betra að leyfa þá öðrum að nota og nýta,“ segir Lena sem byrjaði ung að selja föt í Kolaportinu, föt sem hún og börnin hennar voru hætt að nota.

Þegar kom að jólagjöfum skipti það Lenu miklu máli að gjafirnar nýttust vel og enduðu ekki í áðurnefndum geymslum. „Þegar ég fór að halda mín jól, þá passaði ég að gefa bara gjafir sem börnin mín höfðu þörf fyrir og í seinni tíð gef ég upplifanir.“

Lena á fullt af kúlum og dóti.
Lena á fullt af kúlum og dóti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jólaskrautið úr dánarbúi

Hvernig skreytir þú?

„Ég elska að gera kransa, bæði aðventukrans og hurðakrans og fór á námskeið með mömmu síðustu jól þar sem við fórum um Elliðaárdal og söfnuðum í krans. Eftir jólin tek ég gamla dótið af kransinum í janúar og nota innvolsið í kransinum aftur og aftur. Mér finnst líka gaman að gera tréð fallegt og á fullt af kúlum og dóti sem ég hef fengið í gegnum tíðina. Ég fékk mest af fallega dótinu mínu úr dánarbúi þar sem haldið var opið hús og alls konar dót var til sölu.“

Hvernig pakkar þú inn gjöfum?

„Ég á alltaf gjafapoka sem ég hef fengið og gef þá áfram. Einnig hef ég pakkað inn í tímarit og dagblöð og nýti kassa sem ég á. Ég geymi slaufur og borða og nota það aftur.“

Hvað er í matinn á jólunum?

„Við höfum alltaf haft hamborgarhrygg. Mér finnst það pínu stílbrot að vera enn að borða dýr en ég er ekki fullkomin og þetta er eitt af því.“

Skrautið kemur meðal annars úr dánarbúi.
Skrautið kemur meðal annars úr dánarbúi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Við eigum nóg

Erum við miklir umhverfissóðar á jólunum?

„Það er ekki mitt að dæma aðra en mér finnst það sláandi þegar Sorpa þarf að senda út tilkynningu að hún sé að drukkna í umbúðum og drasli eftir hátíðirnar. Þetta er svo mikill óþarfi og ég hugsa mig alltaf tvisvar um áður en ég panta eitthvað á netinu. Svo stórt kolefnisspor sem fylgir öllu þessu drasli.“

Englarnir eru jólalegir.
Englarnir eru jólalegir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í byrjun árs sagðist þú ekki ætla að kaupa neitt nýtt árið 2022. Nærðu að standa við það?

„Heyrðu það gengur bara ágætlega og ég hef þurft að sýna mikla útsjónarsemi stundum. Lítill frændi átti afmæli um daginn og ég fór í Barnaloppuna og fann yndislega lopapeysu. Ég keypti notaðan sófa, tvo notaða kjóla, en þurfti reyndar að fjárfesta í samfellu fyrir norðan þar sem ég var á leið í brúðkaup. Vildi ekki mæta allsber í það. Ég ætla að gefa mömmu og pabba einhverja upplifun með mér í jólagjöf og börnin fá ferðalög. Ég þarf ekki að pakka neinu inn þessi jólin og ætla enn fremur að bjóða frændsystkinum mínum í bíó. Vonandi verða þau ekki sár út í frænku sína. Þetta pakkadæmi er barns síns tíma.“

Hver eru fyrstu skrefin fyrir þá sem vilja gera jólin aðeins umhverfisvænni?

„Vera meðvituð um kauphegðun og sýna jörðinni mildi. Kaupa minna, kaupa það sem vantar, gefa upplifanir, minnka umbúðir, minnka neyslu og hafa passlega mikið í matinn til að henda ekki mat. Það að fara í jólaköttinn er úrelt og mér finnst það ekki eiga við í dag. Við eigum nóg en í anda jólanna ættum við frekar að sýna náungakærleik og aðstoða fólk sem á minna en við.“

mbl.is