Flutti til Lundúna til að elta drauminn

Jóla jóla ... | 25. desember 2022

Flutti til Lundúna til að elta drauminn

Stefanía Tinna Warren býr í London með eiginmanni sínum, Matt Balley. Hjónin eiga börnin Baltasar og Audrey og hafa í gegnum árin blandað saman íslenskum og breskum jólahefðum svo úr verður stórkostlegur tími í desember. 

Flutti til Lundúna til að elta drauminn

Jóla jóla ... | 25. desember 2022

Stefanía Tinna Warren er hér ásamt manninum sínum og börnunum …
Stefanía Tinna Warren er hér ásamt manninum sínum og börnunum þeirra. Ljósmynd/Aðsend

Stefanía Tinna Warren býr í London með eiginmanni sínum, Matt Balley. Hjónin eiga börnin Baltasar og Audrey og hafa í gegnum árin blandað saman íslenskum og breskum jólahefðum svo úr verður stórkostlegur tími í desember. 

Stefanía Tinna Warren býr í London með eiginmanni sínum, Matt Balley. Hjónin eiga börnin Baltasar og Audrey og hafa í gegnum árin blandað saman íslenskum og breskum jólahefðum svo úr verður stórkostlegur tími í desember. 

„Ég flutti til Englands því mig langaði að læra eitthvað meira tískutengt,“ segir Stefanía sem hefur unnið á Bond Street og Sloan Street fyrir tískuhús á borð við Alexander McQueen, Missoni og Roland Mouret. Í dag rekur hún fyrirtækið All of the Above sem stendur fyrir pop-up-tískuviðburðum í London sem selja vel með farin notuð merkjaföt.

„Okkur þótti mikilvægt að sporna við þeirri miklu sóun sem á sér stað í tískuheiminum og stuðla að sjálfbærari neysluhegðun.“

Stefanía Tinna segir að jólaundirbúningurinn í London sé skemmtilegur tími. „Það er mjög jólalegt í London, fallega skreytt og mikill jólaandi í borginni.“

Ljósmynd/Aðsend

Hvað gerið þið fjölskyldan saman á aðventunni?

„Við förum alltaf á skauta á Natural History Museum, förum og hittum jólasvein í Fulham Palace sem gefur krökkunum pakka og við föndrum jólaskraut. Ég syng í íslenska kórnum í London og við erum alltaf með jólatónleika og jólaball líka sem er mjög skemmtilegt og gaman fyrir okkur Íslendingana að hittast.“

Fjölskyldan fer á jólaskauta.
Fjölskyldan fer á jólaskauta. Ljósmynd/Aðsend

Elda kalkún á jóladag

Margir tala um jólastress á Íslandi, er það líka svoleiðis í Bretlandi?

„Það er örugglega jólastress alls staðar en þá skiptir hugarfarið öllu máli. Það þarf að muna að stoppa og njóta tímans. Þá koma börnin sterk inn því þau kenna manni svo sannarlega að vera í núinu, sérstaklega í jólaundirbúningnum því þau taka eftir öllum litlu hlutunum sem við kannski gleymum oft.“

Eru jólin svipuð á Íslandi og í Bretlandi?

„Við maðurinn minn erum núna búin að blanda saman því besta af báðu finnst mér. Hinn 24. desember borðum við góða skinku, osta og ég geri jólaglögg, við hlustum á messuna og klukkurnar hringja inn jólin. Við förum í jólanáttföt og höfum það kósí. Að morgni 25. desember opna krakkarnir jólasokkana sína með litlum gjöfum og leika sér með þær á meðan við eldum kalkún sem við borðum í hádeginu. Svo opnum við stærri pakkana eftir það og höldum áfram að borða fram eftir kvöldi.“

Saknarðu íslenskra jóla?

„Já og nei. Mér finnst við vera búin að blanda hefðum okkar vel saman. Við erum mjög dugleg að koma heim til Íslands og vorum heima um síðustu jól.“

Ljósmynd/Aðsend

Hvað finnst þér ómissandi að gera og borða um jólin?

„Waldorfsalat og heimalagað rauðkál eru alltaf á borðum.“

Breyttust jólin eftir að þú eignaðist börn?

„Já. Þau eru svo miklu betri í gegnum augu barnanna.“

Áttu þér uppáhaldsjólaminningu?

„Uppáhaldsjólaminning mín er af allri fjölskyldunni að syngja saman við píanóundirspil hans afa Ingva á annan í jólum. Við hittumst alltaf stórfjölskyldan hjá ömmu og afa, borðuðum saman hangikjöt og við krakkarnir spiluðum og lékum okkur. Yndislegar minningar.“

Ljósmynd/Aðsend

Tréð fer upp í byrjun desember

Hvernig skreytið þið um jólin?

„Eftir að hafa verið á Englandi núna í mörg ár erum við farin að setja tréð okkar upp fyrstu helgina í desember. Það er orðin hefð hjá okkur að fara í fallega verslun hérna rétt hjá og velja okkur ekta tré með góðri lykt. Það þarf að vera alveg rétt í laginu og við fáum okkur kaffi og kakó og höldum svo öll á trénu saman heim. Krakkarnir geta ekki beðið eftir því að fá að fara og velja tréð. Við skreytum það svo fljótlega til að geta notið þess sem lengst.“

Ljósmynd/Aðsend

Hvar er skemmtilegast að upplifa alvörujólastemningu í Bretlandi?

„Að fara á skauta í Natural History Museum. Sloan Square, Kings Road er voða fallegt hverfi og svo sannarlega hægt að komast í jólaskap með ljósum og heitum drykk.“

Hvernig ætlið þið að halda upp á jólin í ár?

„Við verðum í London þetta árið. Það er mikið af skemmtilegum tónleikum, jólamörkuðum og uppákomum sem við hlökkum mikið til. Við verðum hjá tengdafjölskyldunni minni í litlu fallegu þorpi í Suffolk um jólin sjálf og komum svo aftur heim til London á milli jóla og nýárs. Það er mikilvægt fyrir okkur að vera með fjölskyldunni á jólunum og í þetta skiptið verðum með tengdafjölskyldunni minni,“ segir Stefanía Tinna.

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is