Heimurinn ákvað þetta fyrir mig

Laufey | 30. desember 2023

Heimurinn ákvað þetta fyrir mig

Nýjasta stjarna okkar Íslendinga skín skært þessa dagana. Laufey Lín Jónsdóttir er að sigra heiminn með djassskotnu lögunum sínum, en hún er afar vinsæl á Spotify, tónleikar hennar seljast upp um leið og nú er hún tilnefnd til hina eftirsóttu Grammy-verðlauna. Laufey er önnum kafin alla daga við að semja lög og túra um heiminn og segist aldrei fá leiða á að stíga á svið fyrir framan spennta áhorfendur. Laufey var nýkomin til landsins í kærkomið jólafrí þegar blaðamaður hitti hana á kaffihúsi í miðbænum í miðri jólaösinni og fékk að heyra allt um tónlistina sem er henni í blóð borin.

Heimurinn ákvað þetta fyrir mig

Laufey | 30. desember 2023

Laufey Lín er skærasta stjarna Íslands á sviði tónlistar og …
Laufey Lín er skærasta stjarna Íslands á sviði tónlistar og er tilnefnd til Grammy-verðlauna.

Nýjasta stjarna okkar Íslendinga skín skært þessa dagana. Laufey Lín Jónsdóttir er að sigra heiminn með djassskotnu lögunum sínum, en hún er afar vinsæl á Spotify, tónleikar hennar seljast upp um leið og nú er hún tilnefnd til hina eftirsóttu Grammy-verðlauna. Laufey er önnum kafin alla daga við að semja lög og túra um heiminn og segist aldrei fá leiða á að stíga á svið fyrir framan spennta áhorfendur. Laufey var nýkomin til landsins í kærkomið jólafrí þegar blaðamaður hitti hana á kaffihúsi í miðbænum í miðri jólaösinni og fékk að heyra allt um tónlistina sem er henni í blóð borin.

Nýjasta stjarna okkar Íslendinga skín skært þessa dagana. Laufey Lín Jónsdóttir er að sigra heiminn með djassskotnu lögunum sínum, en hún er afar vinsæl á Spotify, tónleikar hennar seljast upp um leið og nú er hún tilnefnd til hina eftirsóttu Grammy-verðlauna. Laufey er önnum kafin alla daga við að semja lög og túra um heiminn og segist aldrei fá leiða á að stíga á svið fyrir framan spennta áhorfendur. Laufey var nýkomin til landsins í kærkomið jólafrí þegar blaðamaður hitti hana á kaffihúsi í miðbænum í miðri jólaösinni og fékk að heyra allt um tónlistina sem er henni í blóð borin.

Djass fyrir mína kynslóð

Alveg síðan Laufey var ung hefur hún haldið sig við djassinn, enda fann hún sig þar strax.

„Mér fannst vanta þannig „sánd“ sem væri frá nútímasöngkonu. Þegar ég fór að syngja í Ísland got talent þá söng ég popplög, en ég átti alltaf erfitt með að finna lög sem pössuðu við röddina mína. Ég söng lagið Feeling Good, sem er djasslag, og það var í fyrsta skipti sem ég hugsaði að það væri enginn að syngja svona lög fyrir mína kynslóð. Öll tónlist sem ég hlustaði á var frá annarri öld og það var enginn enn á lífi og því engir tónleikar sem ég gat farið á,“ segir Laufey og segist alls ekki hafa ákveðið sem barn að verða söngkona að atvinnu.

„Ég var mjög raunsær krakki og fannst frekar óraunverulegt að ég gæti orðið söngkona; sérstaklega vegna stílsins sem ég var að syngja, og vildi syngja! Ég var að hugsa um að fara í eitthvað praktískt eins og hagfræði og fór því í Versló á hagfræðibraut, en ég var líka alltaf í tónlistarnámi. Ég var allan daginn í skólanum og beint eftir skóla fór ég í Tónlistarskólann í Reykjavík sem heitir nú MÍT,“ segir hún og segist í raun hafa verið í tvöföldu námi.

Lögin eru brot úr lífi mínu

Laufey segist hafa byrjað að fikta við að semja lög og texta um sextán ára gömul.

„Það gekk ekkert sérstaklega vel, enda hafði ég ekki nógu mikið sjálfstraust og var ekki búin að upplifa nóg,“ segir Laufey og nefnir að eftir menntaskóla hafi hún ætlað í hagfræði með systur sinni til St. Andrews í Skotlandi en sótti samt til vara um hinn virta tónlistarskóla Berklee í Boston.

„Við Júnía komumst báðar inn í St. Andrews og ætluðum að fara saman en ég komst svo inn í Berklee. Ég fékk þar forsetastyrk, sem er fullur styrkur fyrir fjögurra ára nám, og ég sá þar tækifæri. Mamma hvatti mig til að fara. Ég man að það var hringt í mig á nítján ára afmælinu mínu og mér sagt að ég hefði hlotið forsetastyrkinn og mér fannst eins og heimurinn væri búinn að ákveða þetta fyrir mig. En ég var mjög hrædd og lítil í mér,“ segir Laufey.

„Ég var hrædd við að fara ein út í heim nítján ára, frá systur minni og foreldrum og kannski aðallega að vera að fara út í tónlist. Mér fannst það ekki nógu praktískt. En þarna var ég bara ung kona í nýrri borg og heimurinn opnaðist. Ég fór að upplifa nýja hluti, fara á stefnumót og lenda í smá ástarsorg,“ segir Laufey og segist einnig hafa notið þess mjög að vera í tónlist með öðru ungu fólki.

„Þá sá ég að þau fíla alveg svona tónlist; það var bara enginn að semja svona fyrir okkur. Ég segi oft að ég hafi orðið söngkonan sem mig vantaði alltaf þegar ég var yngri.“

Laufey semur sjálf öll lög og texta og segir lögin fjalla um líf sitt.

„Þetta er eins og dagbók. Hvert einasta lag er lítið brot úr lífi mínu, með smá skáldskap.“

Tíu þúsund fylgjendur á innan við viku

Laufey var í háskólanum í Boston þegar covid skall á árið 2020, en þá bjuggu foreldrar Laufeyjar í Washington D.C. Þegar skólanum var lokað flutti hún til þeirra.

„Ég tengdi ekkert við þetta heimili, enda ekki mitt æskuheimili. Ég var því allt í einu lokuð inni á heimili sem var bara ekki mitt. Ég var ekki með allt dótið mitt og fötin mín og ég held að ég hafi notað tónlistina til að búa til heimili fyrir sjálfa mig. Það var einmitt þarna í mínu herbergi sem ég byrjaði að semja fyrstu lögin og senda út fyrstu myndböndin. Ég hélt fyrst að covid yrði bara í tvær vikur en það reyndist ekki vera svo. Ég hugsaði með mér; ég verð hér í tvær vikur og ákvað að semja eins mikið og ég gæti og senda út myndbönd af mér að syngja djasslögin mín, sem æfingu fyrir mig og sjá svo hvað myndi gerast. Og á innan við viku var ég komin með tíu þúsund fylgjendur á Instagram og það hefur bara vaxið síðan. Þetta var alveg klikkað og ég trúði þessu ekki. Kvöldið áður en ég þurfti að yfirgefa skólann vegna covid þá tók ég upp lagið Street by Street. Þetta var góð tímaseting og smám saman áttaði ég mig á því hvernig ég ætti að nota samfélagsmiðla. Það voru svo margir fastir heima og höfðu ekkert betra að gera. Þarna varð til samfélag og ég var með „livestream“-tónleika reglulega og við ræddum um covid og að tengjast í gegnum djasstónlist. Fyrsta platan mín, Everything I Know About Love, og fyrsta EP-platan mín, Typical of Me, eru unnar upp úr þessum lögum sem ég samdi í þessu herbergi mínu í ­­Washington í covid.“

Hvað vissir þú um ástina tvítug að aldri?

„Ekki neitt! Og platan er einmitt um það,“ segir hún og hlær.

Laufey ætlaði í hagfræði en tónlistin dró hana til sín.
Laufey ætlaði í hagfræði en tónlistin dró hana til sín.

Óvænt hjá Jimmy Kimmel

Auk þess að ferðast um í rútu og spila á tónleikum um allar trissur þarf Laufey alls staðar að koma í viðtöl, bæði hjá prentmiðlum og í sjónvarpi. Það vakti athygli hérlendis þegar Laufey var gestur hjá hinum vinsæla þáttastjórnanda Jimmy Kimmel, en Laufey segir að það hafi í raun gerst fyrir tilviljun.

„Það var í desember 2021, áður en ég var komin með plötusamning. Ég fékk að fara í þáttinn því hljómsveitin sem átti að mæta fékk covid þennan morgun. Það þurfti að finna einhvern á síðustu stundu sem gat spilað sjálfur og væri í L.A. Ég hafði verið á radarnum hjá þeim í einhvern tíma, en þarna var ég búin að gefa út sjö lög. Þátturinn er tekinn upp klukkan níu að morgni og bandið þurfti að fara í covid-próf klukkan sex, en kvöldið áður fékk ég að vita að ef prófið yrði jákvætt hjá þeim þyrfti ég að fara á svið. Ég fékk því engan tíma til að æfa mig. Þetta var mitt „Hollywood break“ en síðan þá hef ég farið einu sinni í viðbót í þáttinn. En þetta varð til þess að Íslendingar fóru að taka eftir mér,“ segir hún og brosir.

Eins og að hitta goð

Nú fyrir jólin gaf Laufey út tvö jólalög með hinni heimsfrægu söngkonu Noruh Jones.

Hvernig var að hitta Noruh Jones?

„Ég var svo „starstruck“. Það gerist sjaldan að ég fái að hitta fólk sem ég hef hlustað á svona lengi. Þetta var eins og að hitta goð,“ segir hún.

„Það var svo skemmtilegt að vinna með henni og fyrst tókum við upp lagið Have Yourself a Merry Little Christmas og það var frekar auðvelt og tók bara hálftíma. Svo spurði hún mig hvort ég vildi semja með henni lag, en hún væri komin með smá textabrot. Ég sagði bara, já að sjálfsögðu!“ segir hún, en lagið heitir Better Than Snow. Þess má geta að lagið var eitt af tíu lögum sem New York Times mælti með að fólk hlustaði á fyrir jólin.

„Að fá að semja, pródúsera og gefa út lög með átrúnaðargoðinu er ótrúlegt. Við spiluðum svo lagið í The Today Show sem var líka algjör draumur; hvað þá að vera þar með Noruh,“ segir Laufey og segist hafa lært mjög margt af henni.

Þroskandi að fara í sundur

Laufey og tvíburasystir hennar, Júnía, eru mjög nánar og vinna í dag saman. Þegar þær fóru hvor í sína áttina eftir menntaskóla var einna erfiðast fyrir Laufeyju að vera aðskilin frá Júníu.

„Það var í alvörunni svo erfitt! Það var án gríns eins og að rífa sjálfa mig í sundur. Það var mjög þroskandi fyrir okkur að fara í sundur en við erum báðar búnar að segja að það sé komið nóg, enda vorum við fjögur eða fimm ár í sundur. Og í raun erum við enn í sundur því hún býr í London og ég í L.A. en við ferðumst mikið saman,“ segir Laufey og nefnir að Júnía starfi sem listrænn stjórnandi og eru þær því saman á öllum tónleikaferðum.

„Hún spilar oft á fiðlu hjá mér, en Júnía sér um allan sjónræna heiminn og er nú í fullri vinnu hjá fyrirtækinu. Allar myndatökur og tónlistarmyndbönd sér hún um, en hún var áður að vinna hjá Universal Music í London en ég þurfti á henni að halda. Það er æðislegt að vinna með henni og ég treysti henni og hún skilur mig svo vel,“ segir hún og segir vissulega oft ruglast á þeim, enda eineggja tvíburar.

„Það er bara skemmtilegt. Ég fæ oft komment þar sem fólk segist hafa séð mig í London en þá er ég kannski í L.A. Við deilum þessu lífi og gerum allt saman. “

Meira en mig dreymdi um

Laufey var nú í nóvember tilnefnd til Grammy-verðlaunanna 2024 fyrir plötu sína Bewitched.

„Ég trúði þessu ekki! Ég var svo hissa að sjá nafnið mitt á skjánum,“ segir hún en Grammy-hátíðin er í febrúar og daginn eftir verðlaunaafhendinguna fer Laufey beint á túr til Evrópu, en túrinn var einmitt færður vegna hátíðarinnar. Laufey mun svo spila fyrir Íslendinga í mars í Hörpu.

Spurð um hvað sér finnist um að vinna kannski Grammy-verðlaun, svarar Laufey hógvær:

„Ég hef ekki leyft mér að hugsa of mikið um það. Það að vera tilnefnd er meira en ég gat látið mig dreyma um og það er eiginlega nóg fyrir mig.“

Bjóstu við að þú myndir ná svona langt?

„Nei, alls ekki, en það var alltaf partur af mér sem vissi að ég gæti gert eitthvað stórt. Ég hafði einhverja trú á mér en þurfti að finna réttu leiðina.“

Ítarlegt viðtal við Laufeyju er í Tímamótum, sérblaði sem kom út um helgina. 

mbl.is